Heiðlóa Mörgum þykir vænt um lóuna enda tákn vorkomunnar.
Heiðlóa Mörgum þykir vænt um lóuna enda tákn vorkomunnar. — Morgunblaðið/Ómar
Það þótti við hæfi að heiðlóan skyldi vera valin „Fugl ársins“ í samkeppni sem Fuglavernd efndi til því útnefningin var tilkynnt á sumardaginn fyrsta.

Það þótti við hæfi að heiðlóan skyldi vera valin „Fugl ársins“ í samkeppni sem Fuglavernd efndi til því útnefningin var tilkynnt á sumardaginn fyrsta. Lóan er gjarnan kölluð vorboðinn ljúfi og skipar sérstakan sess í hugum landsmanna sem tákn vorkomunnar.

Kosning um fugl ársins er nýjung í starfi Fuglaverndar og er stefnt að því að hún verði árlegur viðburður. Tilgangurinn er að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingar.

Tilnefndir voru tuttugu fuglar og tók fólk úr röðum fuglaáhugafólks að sér að vera kosningastjórar fyrir sína uppáhaldstegund. Stofnaðar voru fésbókarsíður, gerð myndbönd til kynningar og jafnvel opnaðar kosningaskrifstofur í einhverri mynd.

Sigur heiðlóunnar var afgerandi, hún fékk flest atkvæði sem fyrsta val þátttakenda og einnig flest atkvæði í 1.-5. val. Það var helst himbriminn sem veitti henni keppni. Rjúpan varð í þriðja sæti, hrafn í fjórða og maríuerla í fimmta sæti.

Staða heiðlóunnar er góð hér á landi, samkvæmt upplýsingum Fuglaverndar, og eru um 400 þúsund pör í stofninum. helgi@mbl.is