Svik Margar tilkynningar um kortasvik hafa borist undanfarið.
Svik Margar tilkynningar um kortasvik hafa borist undanfarið. — AFP
Kortafyrirtækið Valitor hefur fengið fjölda tilkynninga vegna svika sem korthafar hafa lent í undanfarið. Þá hafa korthafar fengið smáskilaboð eða tölvupósta í nafni DHL og Póstsins þar sem þeim er tjáð að pakki sé á leiðinni til þeirra.

Kortafyrirtækið Valitor hefur fengið fjölda tilkynninga vegna svika sem korthafar hafa lent í undanfarið. Þá hafa korthafar fengið smáskilaboð eða tölvupósta í nafni DHL og Póstsins þar sem þeim er tjáð að pakki sé á leiðinni til þeirra. Skilaboðunum fylgir hlekkur og ef ýtt er á þann hlekk er notandi beðinn um að færa inn kortaupplýsingar. Þær upplýsingar eru síðan misnotaðar og geta einstaklingar staðið uppi með töluvert fjárhagslegt tjón.

Jónína Ingvadóttir, deildarstjóri í markaðsdeild Valitors, segir einföldu skilaboðin til fólks vera að smella ekki á hlekkina, sérstaklega ef það á ekki von á pósti. Ekki eigi undir nokkrum kringumstæðum að gefa upp korta- eða persónuupplýsingar á síðunni sem hlekkurinn tengist. Enn fremur er mikilvægt að gefa ekki upp öryggiskóða sem berst með smáskilaboðum til að ljúka við greiðsluna. Ef fólk eigi von á pakka þá sé gríðarlega mikilvægt að lesa skilaboðin vel, bera saman upphæðir og gjaldmiðla til að ganga úr skugga um að skilaboðin séu raunveruleg. DHL á Íslandi sendir reikning á heimabanka og notast við íslenska mynt. Þá tekur Pósturinn við greiðslu á staðnum og notar einnig íslenska mynt.

Dæmi eru um að fólk hafi tapað háum fjárhæðum vegna svika af þessum toga. Hafi fólk brugðist við skilaboðum og gefið upp öryggiskóða eigi það að hafa samband við viðskiptabanka sinn eða Valitor og einnig tilkynna svikin til lögreglunnar. Vandi lögreglu er margþættur vegna slíkra brota, sér í lagi þar sem glæpamennirnir eru ekki á Íslandi og búa stöðugt til nýjar slóðir til að framkvæma svindlið.

sonja@mbl.is