Leikarinn Þröstur hefur verið önnum kafinn í kófinu og í sumar hefjast tökur á framhaldi á myndinni Síðasta veiðiferðin.
Leikarinn Þröstur hefur verið önnum kafinn í kófinu og í sumar hefjast tökur á framhaldi á myndinni Síðasta veiðiferðin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þröstur Leó Gunnarsson er fæddur 23. apríl 1961 á Bíldudal og ólst þar upp. „Pabbi var sýningarstjóri í Bíóhúsinu og ég var mikið í bíóherberginu hjá honum og gat horft á myndirnar út um göt sem voru þar.“

Þröstur Leó Gunnarsson er fæddur 23. apríl 1961 á Bíldudal og ólst þar upp. „Pabbi var sýningarstjóri í Bíóhúsinu og ég var mikið í bíóherberginu hjá honum og gat horft á myndirnar út um göt sem voru þar.“

Þröstur gekk í Grunnskólann á Bíldudal og lauk síðasta grunnskólaárinu á Selfossi þar sem bróðir hans var kennari. Hann fór svo heim á Bíldudal en var seinna hálfan vetur í Iðnskólanum að læra bifvélavirkjun. Hann fór síðan í Leiklistarskóla Íslands að áeggjan móður sinnar og lauk námi árið 1985.

Þröstur var ráðinn til starfa hjá Leikfélagi Reykjavíkur við útskrift. Hann sló í gegn þegar hann fór með sitt fyrsta aðalhlutverk í Degi vonar eftir Birgi Sigurðsson 1987, en yfir 100 sýningar voru á því verki í Iðnó. Þröstur lék síðan fjölda aðalhlutverka meðal annars í Kjöti, Þrúgum reiðinnar, Dökku fiðrildunum, Íslensku mafíunni, Hinu ljósa mani og titilhlutverkin í Platonov, Tartuffe og Hamlet. Hann lék á síðari árum í Svari við bréfi Helgu, Góa og baunagrasinu, Eldfærunum, Fólkinu í kjallaranum, Nei ráðherra, Kirsuberjagarðinum, Fló á skinni og Ofviðrinu.

Þröstur Leó hefur einnig leikið í fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, meðal annars í Ivanov, Þetta er allt að koma, Ástin er diskó, Koddamanninum, Fiðlaranum á þakinu, Grandavegi 7, Solveigu, Brúðuheimilinu, Önnu Kareninu, Viktoríu og Georg, Allir á svið og Dýrunum í Hálsaskógi. Meðal nýlegra sýninga hans í Þjóðleikhúsinu eru Fjarskaland, Faðirinn, Hafið, Einræðisherrann, Shakespeare verður ástfanginn, Meistarinn og Margaríta, Útsending og núna Kafbátur. „Við frumsýndum Kafbát áður en leikhúsunum var lokað og hefjast sýningar á verkinu aftur á morgun.“

Þröstur lék einleikinn Bless, fress í Loftkastalanum, lék í Ökutímum hjá Leikfélagi Akureyrar og í Killer Joe á vegum Skámána.

Þröstur hefur leikið í mörgum kvikmyndum. Hans fyrsta mynd var Eins og skepnan deyr. Hann lék m.a. Jón Leifs í Tárum úr steini og föður Nóa í Nóa albínóa, einnig í Kaldri slóð, Brúðgumanum, Sveitabrúðkaupi, Reykjavík-Rotterdam, 101 Reykjavík, Hafinu, Djúpinu, Harry og Heimi og Síðustu veiðiferðinni.

Þröstur Leó leikstýrði Við borgum ekki, við borgum ekki, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu og Gísla á Uppsölum hjá Kómedíuleikhúsinu.

Þröstur hefur tekið sér frí frá leiklistinni öðru hverju og farið á sjóinn. „Ég var búinn að leika í fimm ár þegar ég hætti og fór á sjóinn í eitt ár. Svo hef ég gert þetta þrisvar, fjórum sinnum til að fá smá hvíld. Ég var líka á sjónum á sumrin þegar ég var í Leiklistarskólanum.“

Það er nóg að gera hjá Þresti um þessar mundir. „Það hefur líklega aldrei verið jafn mikið að gera hjá mér núna í Covid, bæði í sjónvarpi og bíói. Ég hef verið að hafna verkefnum hægri vinstri. Ég er að fara að leika í framhaldi af myndinni Síðasta veiðiferðin núna í sumar. Ég var í tökum síðasta sumar á myndinni Svar við bréfi Helgu, einnig í sjónvarpsþáttunum Vegferð sem er verið að sýna á Stöð 2, og ég var í tökum á þáttunum Verbúð í allan vetur og vorum að klára fyrir hálfum mánuði.“

Þröstur hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir leik sinn. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir hlutverk sín í Killer Joe, Ökutímum og Koddamanninum. Hann var tilnefndur til Grímuverðlaunanna fyrir leik sinn í Föðurnum, Allir á svið og Þetta er allt að koma. Hann fékk Edduverðlaunin fyrir kvikmyndirnar Nóa albínóa og Brúðgumann. Hann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2009.

Þröstur bjargaðist ásamt tveimur öðrum þegar fiskibáturinn Jón Hákon sökk árið 2015. Einn lést. Þröstur komst upp á kjöl bátsins og bjargaði hinum tveimur. „Ég hef ekkert farið að vinna á sjó síðan þá, það er komið nóg af því, þótt ég hafi samt farið út á fjörð að leika mér.“

Helsta áhugamál Þrastar er silungsveiði og hann hefur gaman af því að keyra um á mótorhjóli.

Fjölskylda

Eiginkona Þrastar er Helga Sveindís Helgadóttir, f. 13.5. 1968, rithöfundur. Þau búa í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar Helgu voru hjónin Helgi Gunnarsson, f. 2.12. 1921, d. 28.2. 2011, forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni, og Guðríður Guðjónsdóttir, f. 7.10. 1931, d. 20.9. 2002, húsfreyja. Þau bjuggu í Reykjavík. Fyrrverandi sambýliskona Þrastar er Íris Guðmundsdóttir, f. 11.1. 1962.

Börn Þrastar og Írisar eru 1) Silja Lind Þrastardóttir, f. 3.5. 1982, vinnur á kaffihúsi, býr í Reykjavík. Maki: Hafþór Páll Bryndísarson. Börn þeirra eru Vilborg Elín, f. 2009, Brynhildur Íris, f. 2013, og Hafrún Björg, f. 2016; 2) Pálína Margrét Þrastardóttir, f. 6.3. 1993, skrifstofumaður og býr í Kópavogi: Maki: Aðalsteinn Arnór Sigurpálsson. Börn þeirra eru Rúrik Leó, f. 2017, og Ylfa Mardís, f. 2020; 3) Vilborg Kristín Þrastardóttir, f. 26.2. 1995, vinnur hjá Aur, býr í Reykjavík; 4) Guðmundur Leó Þrastarson, f. 11.7. 1997, vinnur á bílasölu, býr í Reykjavík. Dóttir Þrastar og Helgu er 5) María Þrastardóttir, f. 29.6. 2005. Stjúpdætur Þrastar og dætur Helgu eru Guðríður Hlín Geirsdóttir, f. 1.4. 1987, forstöðumaður Muggsstofu á Bíldudal, hún á tvo stráka, og Sólveig Magnea Guðjónsdóttir, f. 15.1. 1995, náttúrufræðingur á Hafrannsóknastofnun. Maki: Jorid Tase.

Systkini Þrastar: Jón Rúnar Gunnarsson, f. 22.2. 1954, d. 8.10. 2012, kaupmaður og leikari á Bíldudal; Fríða Björk Gunnarsdóttir, f. 27.2 1956, leikskólakennari á Álftanesi, býr í Kópavogi; Valdimar Smári Gunnarsson, f. 8.7. 1958, framkvæmdastjóri UMSK, býr í Reykjavík; Svanur Kolbeinn Gunnarsson, f. 27.2. 1964, fiskifræðingur, býr í Reykjavík, og Unnsteinn Víkingur Gunnarsson, f. 31.12. 1966, framkvæmdastjóri Arnarlax, býr í Reykjavík.

Foreldrar Þrastar: Hjónin Vilborg Kristín Jónsdóttir, f. 8.12. 1931, ljósmóðir og Gunnar Knútur Valdimarsson, f. 3.11. 1924, d. 20.6. 2010, vörubílstjóri, flugvallarvörður, fjárbóndi og bíóstjóri. Þau bjuggu á Bíldudal, en Vilborg dvelur nú á Patreksfirði.