Sigríður Vilmundardóttir fæddist 2. nóvember 1924 á Löndum í Staðarhverfi í Grindavík. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi, Hellu, 8. apríl 2021.

Foreldrar hennar voru Guðrún Jónsdóttir og Vilmundur Árnason, útvegsbændur á Löndum. Sigríður var sjöunda í röð systkinanna, sem voru Guðvarður, Árni, Anna, Magnús, Borghildur, Guðni, Gísli, Erlendur, Eyjólfur, Eðvarð, Kristinn Jón og Hjálmar, þau eru öll látin.

Dóttir Sigríðar og Júníusar Halldórs Valdimarssonar, f. 11. nóvember 1920, d. 7. apríl 1987, er: 1) Elsie, f. 5. ágúst 1945. Maki Runólfur Haraldsson, f. 26. október 1941. Þeirra dætur eru Sigríður, Valgerður Lára og Ólafía Ósk. Afkomendur eru 17 talsins.

Sigríður giftist 10. maí 1951 Ólafi Gíslasyni, f. 10. maí 1919, d. 22. janúar 2004. Börn þeirra eru: 2) Vilmundur Rúnar, f. 5. desember 1951. Maki Helga Sigurðardóttir, f. 1. apríl 1951, þeirra börn eru: drengur, f. 1974, d. 1974, Ólafur, Árni og María. Barnabörnin eru 6. 3) Svala, f. 3. maí 1953. Maki Svavar Jóhannesson, f. 15. október 1961, synir þeirra eru: Sindri, f. 1993, d. 1993 og Styrmir. 4) Guðrún Bára, f. 7. ágúst 1955. Maki Árni Snævar Magnússon, f. 27. janúar 1951, þeirra dóttir er: Hafrún Gróa. Barnabarnið er 1.

Sigríður ólst upp á Löndum í Staðarhverfi í Grindavík. Hún flutti með foreldrum sínum til Reykjavíkur vorið 1947 og vann þar ýmis störf. Sigríður og Ólafur réðu sig árið 1951 sem ráðsfólk til Skúla Thorarensen á Geldingalæk á Rangárvöllum. Árið 1953 flytja þau á nýbýlið Hjarðarbrekku, sem þau byggðu upp frá grunni. Sigríður var húsmóðir af gamla skólanum, bakaði, prjónaði og saumaði flest til heimilisins ásamt því að sinna bústörfum með Ólafi. Sigríður starfaði með kvenfélaginu Unni, var um tíma formaður þess og seinna gerð að heiðursfélaga. Sigríður og Ólafur stunduðu búskap uns þau fluttu á Selfoss í nóvember 1999. Eftir andlát Ólafs bjó Sigríður ein í húsi þeirra fram að andláti.

Útförin fer fram frá Oddakirkju í dag, 23. apríl 2021, kl. 13. Streymt verður frá athöfninni á slóðinni:

https://www.facebook.com/groups/jardarforsigridarvilmundardottur

Stytt slóð:

https://tinyurl.com/wwdxarcw

og útvarpað í nágrenni Oddakirkju á tíðninni FM 103,5.

Streymishlekk má nálgast á: https://www.mbl.is/andlat

Tárin blika í augum en bros færist á vanga þegar ég sest niður með penna og blað til að minnast þín, elsku mamma. Tilfinningin er svo skrítin að skreppa ekki í Grenigrundina til þín tvisvar eða þrisvar á dag. Síminn hringir aldrei meir og þú spyrð hvort ég sé á leiðinni af því þig vantar smá aðstoð. Öll kvöldin sem við eyddum við spjall og hlátur því alltaf var stutt í bros og smá grín. Nú er hláturinn þagnaður í Grenigrundinni. Aldrei oftar heyri ég setninguna: „Ég er að fara í búð á morgun, hvað ætli mig vanti?“ Minnismiðinn þinn liggur enn á borðinu fyrir síðustu búðarferðina sem aldrei var farin. Já, þú sást ekki til að skrifa, sjónin þín hvarf. Það var það versta hjá þér að geta ekki gert neitt í höndunum; prjónað, heklað, nú eða ráðið sudoku. Mörg kvöldin sátum við í Grenigrund og rifjuðum upp liðna daga og var gott að minnast þess sem á dagana hafði drifið, t.d. afans sem þú hafðir hjá þér fyrstu 10 árin. „Besti afi í heimi“ eða hann Þorgeir sem ætlaði að gefa þér gullskó þegar þú yrðir stór en þegar kom að skuldadögum var hann látinn. Oft var líka minnst á sunnudagasvuntuna sem þú náðir þér í á virkum degi til að geta dansað í uppi á hólnum og svo það löppin undan eldavélinni sem þú skírðir Sullu og notaðir sem dúkku. Oft var minnst á góða fólkið sem gaf þér hádegismat alla skólagönguna og gönguna á milli hverfa.

Eins og hjá flestum var lífið ekki alltaf dans á rósum og fékk fjölskyldan á Löndum að finna fyrir því. Næstyngsta barnið dó þriggja ára og húsfreyjan missti heilsuna, en alltaf stóðuð þið saman og allir lögðust á eitt til að ekki þyrfti að sundra heimilinu.

Þegar árin liðu og þið ákváðuð að yfirgefa Staðarhverfið fluttuð þið til Reykjavíkur, stutt stopp þar, svo var flutt austur á Rangárvelli. Þar byggðuð þið pabbi nýbýlið Hjarðarbrekku, þar sem þið lifðuð og störfuðuð til ársins 1999. Í Hjarðarbrekku varst þú hin íslenska húsmóðir í sveit. Þú gekkst í störfin innan og utan húss. Oft var heimilið mannmargt og allt bakað heima, brauð, kökur, svo var sett í eina brúna lagtertu með hvítu kremi og vínartertu fyrir helgar. Fjósið og beljurnar okkar voru fastur punktur, alltaf mætt í mjaltir á réttum tíma. Margar góðar stundir áttum við þegar verið var í fjósaverkunum. Rólegheit og yfirvegun kusanna var heillandi. Ekki má gleyma sauðburðinum, það eru ófá lömbin sem þú hjálpaðir í heiminn.

Garðurinn þinn í sveitinni var þitt stolt og yndi. Gleðin þegar ræktunin fór að skila sínu og skjólið myndaðist og fyrsta rifsberjauppskeran kom. En oft hlógum við þegar við minntumst reyniviðarins sem hvergi leið nógu vel í garðinum og var tekinn upp og gróðursettur á 4-5 mismunandi stöðum í garðinum.

Elsku mamma, nú ertu farin að hitta pabba aftur eftir 17 ár. Þú stóðst þig eins og hetja þegar hann dó og allt í einu þurftir þú að hugsa um allt sem hann hafði séð um. Ég veit hann beið þín hinum megin á gamla Glað með Eitil sér við hlið og þið hélduð saman af stað út í gróandann. Takk, elsku mamma, fyrir allt, ég sakna þín endalaust.

Þín dóttir,

Bára.

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag, við erum gestir og hótel okkar er jörðin.“ Þetta er m.a. eitt af þeim ljóðum sem hún tengdamóðir mín valdi til að láta flytja við útförina sína. Það verður dálítið skrítið að kíkja ekki við í Grenigrundinni þegar leið liggur á Selfoss og þiggja kaffibolla og aðrar góðgjörðir. Hún Sigga hefur svo sannarlega lifað tímana tvenna. Fædd árið 1924 í litlu timburhúsi á Löndum í Staðarhverfi, Grindavík, sem að hluta til var byggt úr hinu fræga James Town-timburflutningaskipi, 37,6 fermetrar að gólffleti. Þar bjuggu foreldrar hennar og komu upp stórum barnahóp, hún var 7. í röðinni af 13 börnum þeirra Guðrúnar Jónsdóttur og Vilmundar Árnasonar. Það hefur því stundum verið þröng á þingi, en samstaðan og samhjálpin fleyttu fjölskyldunni áfram. Lengstan hluta ævinnar bjó hún með manni sínum og börnum í Hjarðarbrekku á Rangárvöllum.Hún vildi láta kalla sig „Siggu í Hjarðarbrekku“. Fyrir rétt tæpum 50 árum kom ég fyrst að Hjarðarbrekku með einkasyni hennar sem átti eftir að verða maðurinn minn. Frá fyrstu tíð tók hún mér opnum örmum. Við grínuðumst stundum með það að ég væri „uppáhalds“-tengdadóttirin. Það er margs að minnast og geymi ég góðar minningar í huga mínum eftir 48 ára kynni. Hún hafði einstaklega góða nærveru og var ávallt glæsileg og vel til fara. Sigga var hamhleypa til allra verka og mikil húsmóðir og handavinnukona, það eru ófá prjónuðu sjölin og rúmteppin sem hún útbjó svo listilega og gaf vinum og vandamönnum eða þá dúkarnir stórir og smáir sem hún prjónaði úr silkigarni. Ég er þess ekki megnug að fara ítarlega í gegnum lífshlaup hennar en síðustu skiptin sem ég hitti hana líða mér seint úr minni. Þó sjón og heyrn hefðu yfirgefið hana og erfiðara reyndist að hafa ekki eitthvað á „prjónunum“ þá hafði hún andlegt atgervi til hinstu stundar. Hvíl í friði. Takk fyrir allt og allt.

Helga Sigurðardóttir.

Ég kveð nú hana ömmu mína, Sigríði Vilmundardóttur, sem lést 8. apríl síðastliðinn. Amma mín var ein af mínum uppáhaldsmanneskjum. Það er mjög sárt að sjá hana fara en þannig er lífið. Síðan amma kvaddi hef ég verið að velta mér upp úr gömlum minningum sem ég á um hana. Ég man hlýlega eftir því þegar ég var lítill og við amma vorum að horfa á Bangsímon og þáttinn Hvíti Úlfur, sem sýndur var á Stöð tvö hér áður fyrr. Hún virtist aldrei verða þreytt á því að horfa með mér á þessa vitleysu og mér þótti mjög vænt um það. Í seinni tíð minnist ég þess að koma í kaffi til hennar þar sem við spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Mér þótti alltaf óþarfi og smá fyndið hvað hún hafði mikið fyrir kaffitímanum, þar sem hvorki ég né hún höfðum sérstaka ánægju af kræsingunum sem hún lagði fram. Við höfðum eiginlega bara áhuga á kaffinu.

Elsku amma, nú þegar þú ert farin, þá er mjög erfitt að hugsa að ég muni aldrei aftur koma aftur í heimsókn til þín og hitta þig. Ég mun ekki koma til með að kíkja í heimsókn og drekka kaffi með þér og spjalla um hitt og þetta.

Þú varst alltaf svo hlýleg og góð við mig og mér mun alltaf þykja vænt um þig. Þín verður sárt saknað, amma.

Guð geymi þig.

Þinn

Styrmir.