Guðmar Arnar Ragnarsson (Addi á Sandi) fæddist á Sandi (áður nefndur Bakki) í Hjaltastaðaþinghá 22. september 1933. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 12. apríl sl. Guðmar var sonur hjónanna Ragnars Ágústs Geirmundssonar, f. 28.8. 1898, d. 2. nóvember 1980, og Þórhöllu Jakobínu Jóhannesdóttur, f. 8.10. 1908, d. 8. september 1996, sem voru bændur á Sandi.

Systkini Guðmars eru Guðni Sveinn, f. 30. maí 1932, d. 15. maí 2002, Ragnheiður Svala, f. 28. maí 1935, d. 11.mars 2015, fyrri maki Jón Stefánsson, f. 19. september 1923, d. 5. ágúst 1993, þau eiga þrjár dætur, seinni maki Sigmar Pétursson, f. 18. september 1926, d. 13. október 1997, Reynir Ráðsviður, f. 15. febrúar 1941, d. 26. október 1957, Sigríður Eydís, f. 25. ágúst 1947, maki Stefán Halldórsson, f. 4. apríl 1945, þau eiga þrjá syni, átta barnabörn og tvö barnabarnabörn.

Eiginkona Guðmars er Dagný Rafnsdóttir, f. 7.8. 1933, frá Gröf í Eiðaþinghá, dóttir hjónanna Rafns Guðmundssonar og Guðrúnar Bjargar Einarsdóttur. Dóttir Guðmars og Dagnýjar er Sigríður Guðmarsdóttir, f. 7.4. 1966, maki Guðjón Sigmundsson, þau eiga tvö börn og fimm barnabörn, 1) Hafþór Valur Guðjónsson, f. 1.6. 1984, maki Eyrún Björk Einarsdóttir, þau eiga eina dóttur saman og fyrir á Hafþór tvær dætur og Eyrún eina dóttur, 2) Tinna Björk Guðjónsdóttir, f. 18.5. 1989. Sambýlismaður Guðmundur Þór Þórðarson, fyrir á Tinna eina dóttur og Guðmundur tvö börn. Dóttir Dagnýjar og stjúpdóttir Guðmars er Sigurlaug Elíesersdóttir, f. 24.2. 1958, maður hennar er Jóhann Einarsson, þau eiga þrjú börn, 1) Hrönn Jóhannsdóttir, maki Flórent Unnar Sæmundsson, þau eiga þrjár dætur, 2) Daði Snær Jóhannsson, f. 18. febrúar 1984, 3) Sara Hödd Jóhannsdóttir, f. 12. janúar 1994, sambýlismaður Símon Örn Oddsson, þau eiga tvö börn.

Guðmar ólst upp við öll almenn sveitastörf þess tíma, sótti farskóla á barnsaldri. Hann fór ungur að vinna fyrir sér og kom víða við, var í vegagerð, vann á Keflavíkurvelli, fór á vertíð bæði til Hafnarfjarðar og Vestmannaeyja, var við jarðvinnslu hjá Ræktunarsambandi Austurlands, einnig vann hann við byggingu Grímsárvirkjunar og á Verkstæði Steinþórs Eiríkssonar svo eitthvað sé nefnt. Hann var síðan mjólkurbílstjóri í Hjaltastaða- og Eiðaþinghá 1961-73, hóf búskap á Hóli þar sem afi hans og föðurbræður höfðu áður búið og var þar sauðfjárbóndi 1971-2002, samhliða búskapnum starfaði hann hjá Landgræðslu ríkisins við uppgræðslu og melslátt á Héraðssöndum.

Frá því um 1990 hefur Guðmar sinnt miklu áhugamáli sínu sem hefur verið að gera upp gamla bíla og dráttarvélar, sem flest eru safngripir í dag.

Guðmar sat í sveitarstjórn Hjaltastaðaþinghár í tuttugu og átta ár, var deildarstjóri Hjaltastaðaþinghárdeildar Kaupfélags Héraðsbúa og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir sína sveit.

Þau hjón fluttu á Egilsstaði 2005 og hafa verið þar búsett síðan, frá 2018 hafa þau dvalið á Hjúkrunarheimilinu Dyngju.

Útförin fer fram frá Egilsstaðakirkju 23. apríl 2021 klukkan 14.

Streymi frá úrför:

https://egilsstadaprestakall.com

Streymishlekk má líka finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Ég var ekki hár í loftinu þegar ég hitti Guðmar Ragnarsson, Adda frænda, fyrsta sinni. Líklega níu ára, þá nýfluttur til Egilsstaða. Hafði ekki minnstu hugmynd um það þá að Jónína Geirmundsdóttir, föðuramma mín, Ragnar á Sandi, faðir Adda, Ásgrímur á Hóli og Ingibjörg á Sandbrekku væru systkini. Ekki heldur að faðir minn heitinn, Haukur S. Magnússon, og Addi væru þannig náskyldir og jafnaldrar.

Við Magnús bróðir vorum fljótlega sendir í sveit til Ásgríms ömmubróður og Sigurbjargar á Hóli. Og þannig fjölgaði fundum okkar og Adda því hann annaðist mjólkur- og vöruflutninga í Eiða- og Hjaltastaðaþinghá á sjöunda áratug síðustu aldar. Alltaf var tilhlökkunarefni að stíga upp í Volvoinn hans Adda á leið í sveitina eða heim. Horfa á hann sveifla mjólkurbrúsum upp á bílpallinn eða fóðursekkjum niður á brúsapall. Ferðin gat tekið margar klukkustundir.

Löngu síðar lágu leiðir okkar saman á ný. Þá höfðu Addi og Dagný Rafnsdóttir löngu hafið búskap á Hóli og reist þar nýtt íbúðarhús. Sandur, þar sem Addi óx úr grasi, var þá kominn í eyði, en íbúðarhúsið þar notað sem sumarathvarf fjölskyldna af höfuðborgarsvæðinu, sem höfðu tengsl yfir í Hjaltastaðaþinghá. Addi var þá orðinn eini tengiliður ættar minnar við Hól og Eyjarnar og gekk ég inn í félag um að viðhalda Sandshúsinu. Árið 1999 flutti ég til Egilsstaða og í vissum skilningi fór ég þá aftur í sveit á Hól til Adda og Döggu. Í vikulok, þegar vinnu minni á RÚV á Austurlandi lauk, fór ég oftast nær rakleiðis út í Hól.

Í byrjun aldarinnar brugðu Addi og Dagga búi. Varla voru það létt spor fyrir mann sem hafði í raun helgað Útmannasveit líf sitt auk þess sem hann varð að skilja megnið af tómstundaáhugamálum sínum þar eftir. Addi hafði nefnilega árum saman haft það að aukastarfi að sá melgresi í Héraðssandinn á vegum Landgræðslunnar. Sandurinn var ágengur og Leirurnar höfðu blásið upp alveg upp að þjóðveginum til Borgarfjarðar eystri undan Dyrfjöllum. Addi vann kraftaverk, nánast einsamall með tæki sín og tól. Tók síðar til við að skera melgresi og taka fræ fyrir Landgræðsluna. Ofan af Vatnsskarði á leið til Borgarfjarðar sjást verk Adda afar vel í góðu skyggni, ljósgrænar melgresisbreiður sem nú skapa aðstæður fyrir annan gróður.

En hitt var Addi frændi sjálfsagt þekktari fyrir og það var áhugi hans á gömlum farartækjum og kunnátta og útsjónarsemi við að gera slík tæki upp. Segja má að Addi hafi safnað saman hlutum úr elstu gerðum dráttarvéla af öllu Héraðinu og gert sem nýjar í skemmu við gamla Hólsbæinn. Stríðsáratrukkarnir og önnur uppgerð ökutæki bíða hans á Úthéraði.

Á fullorðinsárum mínum varð glaðlegur og stríðinn Addi frændi eins konar tákn í mínum huga fyrir ætt og uppruna minn í föðurætt á afskekktu landsvæði sem ég hef endalaust dálæti á. Með Adda er genginn síðasti bóndinn á Eyjunum, sendnu sléttunni úti við Héraðsflóa austan Lagarfljóts, því þar hefur búskapur lagst með öllu af.

Ég færi Döggu, Sigríði Guðmarsdóttur og fjölskyldu hennar, hlýjar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Adda.

Jóhann Hauksson.

Kær vinur, félagi og samstarfsmaður er látinn.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samskipta okkar Guðmars frá Hóli. Að leiðarlokum er mér efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu og heilladrjúgt samstarf og samskipti.

Guðmar, eða Addi eins og hann var jafnan nefndur, var gæddur miklum mannkostum og góðum gáfum. Hann var vinafastur. Hann kom til dyranna nákvæmlega eins og hann var klæddur og tjáði skoðanir sínar umbúðalaust. Guðmar var hafsjór af fróðleik um sögu héraðsins og var stálminnugur.

Ég kynntist honum fyrst þegar ég var að undirbúa beitarfriðun Héraðssands fyrir hálfri öld síðan. Við fundum strax að við áttum skap saman. Hann var mér afskaplega hjálplegur við allan undirbúning og samninga um friðun og uppsetningu 14 km langrar landgræðslugirðingar. Guðmar var ráðinn landgræðsluvörður 1972 og sá síðan um viðhald girðingar og önnur landgræðslustörf þar til hann varð sjötugur. Enn fremur annaðist hann sáningu melfræs og áburðargjöf á sandgræðslusvæðin og síðar sá hann um uppskeru melfræs í stórum stíl. Öll þessi störf sín vann hann af einskærri trúmennsku og elju. Glæsilegur árangur af landgræðslustarfinu á Héraðssandi ber honum verðugan vitnisburð. Hann var sannur landgræðslumaður, vakinn og sofinn að vinna landinu sínu allt það gagn sem hann mátti.

Guðmar var einstakur vélamaður, hafði yfirburða þekkingu á gömlum dráttarvélum, bílum og landbúnaðartækjum. Hann gerði upp gamla bíla og vélar af einstakri kostgæfni og vandvirkni og var einstaklega hagur á bæði tré og járn.

Guðmar var afar minnisstæður persónuleiki og það var mér heiður að fá að starfa með honum og eiga við hann samskipti, sem aldrei bar skugga á. Öll voru þau á einn veg, hann var traustur félagi, hreinn og beinn og vildi hvers manns vanda leysa. Það voru forréttindi að kynnast honum og minningin um góðan dreng lifir.

Dagný, Sigríður dóttir þeirra og fjölskyldur, aðrir ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Ég bið þeim Guðs blessunar og votta þeim mína dýpstu samúð.

Sveinn Runólfsson,

fv. landgræðslustjóri.