Sýnir Sigríður Ásgeirsdóttir.
Sýnir Sigríður Ásgeirsdóttir.
Ný verk er yfirskrift sýningar myndlistarkonunnar Sigríðar Ásgeirsdóttur sem stendur nú yfir í Hallsteinssal í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi. Sigríður sýnir verk unnin með akríl og vatnslit á pappír.
Ný verk er yfirskrift sýningar myndlistarkonunnar Sigríðar Ásgeirsdóttur sem stendur nú yfir í Hallsteinssal í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi. Sigríður sýnir verk unnin með akríl og vatnslit á pappír. Hún er Borgfirðingur að ætt og hefur náttúra Íslands, himinn og haf veitt henni innblástur alla tíð, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Birta hefur ávallt verið mikilvæg í myndlist hennar og í verkunum sem hún sýnir í Hallsteinssal leitast hún við að vinna með birtuna á sama hátt og hún gerir í glerverkum sínum. Sigríður vinnur ávallt drög að glerverkunum á pappír en í verkunum á sýningunni er líkt og hún yfirfæri áhrif og upplifun af steindu gleri yfir í áferð og birtu málverkanna,“ segir þar.

Sigríður hefur starfað við glerlist í áratugi og má finna verk hennar víða bæði hér á landi og erlendis. Hún lagði stund á myndlistarnám í Myndlistaskólanum í Reykjavík 1976-1978, lauk BA-námi frá Edinburgh College of Art árið 1983 og hlaut Post Graduate Diploma frá sama skóla 1984. Hún hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.