Aðgerðir verða að taka mið af þeim árangri sem þrátt fyrir allt hefur náðst

Árla morguns á þungbúnum fyrsta degi sumars samþykkti þingið ný sóttvarnalög sem heimila heilbrigðisráðherra, „á tímabilinu 22. apríl til og með 30. júní 2021, með reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að skylda ferðamann sem kemur frá eða hefur dvalið á hááhættusvæði, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum.“ Enn fremur var samþykkt heimild til ráðherra fyrir sama tímabil að banna útlendingum frá svæðum sem talin eru óviss eða hættuleg að koma til landsins. Frá þessu eru heimilar undanþágur, meðal annars vegna „búsetu hér á landi og brýnna erindagjörða“.

Með þessu eru heilbrigðisráðherra, og í raun sóttvarnalækni, fengnar afar viðamiklar valdheimildir. Lagasetningin nú var talin nauðsynleg til að tryggja fullnægjandi sóttvarnir og kemur í framhaldi af því að ráðherrann setti reglugerð sem reyndist brot á lögum. Sú reglugerðarsetning, sem fól í sér umtalsverða frelsisskerðingu, var illa undirbúin og fór fram þrátt fyrir viðvaranir. Óhætt er að segja að ráðherrann hefur komist furðu vel í gegnum þá umræðu sem á eftir fylgdi. Er raunar verulegt áhyggjuefni hve létt ýmsir, þar með talið forysta ríkisstjórnarinnar, hafa litið þau mistök. Laga- og reglusetning af þessum toga ætti aldrei að fara fram án eðlilegs undirbúnings og það ætti aldrei að þykja léttvægt að takmarka frelsi borgaranna.

Af þessum sökum getur vart talist heppilegt að lagasetningin nú sé afgreidd með hraði á næturfundi og án mikillar samstöðu, en einungis 28 þingmenn greiddu lögunum atkvæði. Aðrir voru andvígir, sátu hjá eða voru fjarverandi, af ýmsum ástæðum. Þetta er tæpast sú niðurstaða sem heilbrigðisráðherra hefur óskað sér eftir það sem á undan er gengið. Ætla hefði mátt, ekki síst í ljósi þess að lagaheimildin er aðeins tímabundin, að hægt hefði verið að ná meiri samstöðu um hana eða aðra færa leið, en því var ekki að heilsa. Við atkvæðagreiðslu um málið skýrði heilbrigðisráðherra takmarkaða samstöðu á þingi með því að hluti þingmanna léti málið snúast um annað en sóttvarnir. Ekki var sérstök ánægja með þau orð, þó að eflaust sé eitthvað til í þeim, en ráðherra mætti einnig horfa til forsögu málsins og þeirra efasemda sem fyrri framganga óneitanlega vekur.

En þrátt fyrir það pólitíska skak sem nú er komið upp í tengslum við sóttvarnamál, þar sem togast er á um hvort of langt eða of skammt er gengið, er ýmislegt að þróast á jákvæðan hátt þó að vissulega gangi það mun hægar en verið hefði ef við hefðum til að mynda farið sömu leiðir og Ísraelar, Bretar eða Bandaríkjamenn í stað þess að treysta í blindni á Evrópusambandið í bólusetningarmálum.

Miklu skiptir að nú er búið að bólusetja þann hluta þjóðarinnar sem var í mestri hættu vegna kórónuveirunnar og að útlit er fyrir að á næstu vikum geti bólusetningaráætlunin gengið nokkuð hnökralaust og þar með batni ástandið hratt með minnkandi hættu á alvarlegum veikindum eða dauðsföllum. Þetta hlýtur vitaskuld að vega þungt og sóttvarnaaðgerðir hljóta að taka mið af þessu. Sumir tala enn um að stefna beri að veirulausu landi og í raun að allt annað sé óásættanlegt. Þetta er að vissu leyti skiljanlegt þar sem skilaboð hafa ekki alltaf verið skýr um að hverju sé stefnt, en það getur tæpast talist raunsætt að hér verði til frambúðar veirulaust samfélag. Til að ná því markmiði þyrfti að fara út í mun harkalegri lokanir en eðlilegt er í ljósi stöðu bólusetninga. Aðstæður hafa að þessu leyti breyst frá því til að mynda í fyrrasumar og ákvarðanir um aðgerðir hljóta að taka mið af þeim árangri sem þó hefur náðst í bólusetningarmálum.

Í þessu efni skiptir til að mynda máli að bóluefni hafa reynst afar áhrifarík við að draga úr alvarlegum afleiðingum smita, ekki síst dauðsföllum. Staða þeirra sem fengið hafa bólusetningu er með öðrum orðum gjörbreytt frá því sem áður var. Þá skiptir máli að hingað til hefur enginn þeirra, sem á landamærunum sýndi bólusetningarvottorð, vottorð um fyrra smit eða vottorð sem staðfesti mótefni, reynst hafa virkt smit.

Nú er búið að tímasetja afléttingu aðgerða og skiptir það miklu fyrir atvinnulífið og þar með landsmenn alla. Það skiptir líka máli fyrir landsmenn að vita að fram undan er eðlilegra líf eftir rúmt ár af lokunum og öðrum hömlum. Íslendingar mega ekki sofna á verðinum gagnvart veirunni, en þeir mega ekki heldur draga erfitt ástand á langinn að óþörfu. Þrátt fyrir dumbunginn og óvissuna er bjartara fram undan og við eigum að nýta það til að gera sumarið að upphafi jákvæðra umskipta þar sem athyglin getur beinst að uppbyggilegri og ánægjulegri hlutum en hinni alræmdu kórónuveiru.