Í sóttkví Nokkur fjöldi bættist í hóp gesta á Fosshóteli við Þórunnartún í gær. Rauði krossinn hefur fengið til afnota nýtt hótel við Rauðarárstíg.
Í sóttkví Nokkur fjöldi bættist í hóp gesta á Fosshóteli við Þórunnartún í gær. Rauði krossinn hefur fengið til afnota nýtt hótel við Rauðarárstíg. — Morgunblaðið/Sigurður Unnar
Helgi Bjarnason Ragnhildur Þrastardóttir Eftir breytingar á sóttvarnalögum sem samþykktar voru á Alþingi í fyrrinótt er heilbrigðisráðherra heimilt að skylda ferðamenn sem koma frá eða hafa dvalið á hááhættusvæði vegna kórónuveiru til að dvelja í...

Helgi Bjarnason

Ragnhildur Þrastardóttir

Eftir breytingar á sóttvarnalögum sem samþykktar voru á Alþingi í fyrrinótt er heilbrigðisráðherra heimilt að skylda ferðamenn sem koma frá eða hafa dvalið á hááhættusvæði vegna kórónuveiru til að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Það sama á við ferðamenn sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um. Þó er sóttvarnalækni heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum. Heimildin gildir til loka júní næstkomandi.

Við þinglega meðferð stjórnarfrumvarpsins var, að tillögu fyrsta minnihluta sem skipaður var fjórum nefndarmönnum úr stjórnarflokkunum, bætt inn ákvæði um að ráðstafanir ríkisins í þessu efni skuli grundvallast á tillögum sóttvarnalæknis. Sömuleiðis voru sett ákvæði inn í lagagreinina um að sóttvarnalækni og ráðherra sé heimilt við tillögugerð og útgáfu reglugerðar að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórónuveiru. Skilgreiningar um hvað teldust hááhættusvæði höfðu aðeins verið í greinargerð með upphaflegu frumvarpi og einkum miðað við nýgengi smita.

Lagabreytingin var samþykkt með 28 atkvæðum stjórnarliða gegn tveimur atkvæðum. Flestir viðstaddir stjórnarandstæðingar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna ásamt Birgi Ármannssyni Sjálfstæðisflokki. Sigríður Á. Andersen Sjálfstæðisflokki og Olga Margrét Cilia Pírötum greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Ánægja með breytingar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segjast ánægðir með lögin eins og þau voru afgreidd en þeir voru meðal þeirra sem velferðarnefnd Alþingis leitaði til við umfjöllun um málið.

„Mér finnst þetta bara ágætislög, þau gefa svigrúm til ýmislegs,“ sagði Þórólfur í gær þegar hann var spurður hvort lögin gengju nægjanlega langt. „Það er ekkert neglt niður í þessum lögum um það hvaða nýgengi eigi að miða við, það er á herðum sóttvarnalæknis að skilgreina það og koma með þær tillögur sem verða þá birtar í reglugerð. Það er líka hægt að taka tillit til veiruafbrigða þegar verið er að meta áhættusvæði, hvaða veiruafbrigði eru að ganga í þessum löndum og hversu hættuleg þau eru og svo framvegis. Ég tel að það sé framfaraskref að geta stuðst við þessi lög.“

Þórólfur átti von á því að skila minnisblaði með tillögum sínum um aðgerðir í gær. Sagðist hann munu nota áhættumat sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gerir á landamærum og byggist á því hvaðan smitin eru að koma, en ekki flokkun landa hjá Sóttvarnastofnun Evrópu.

Reynsla í að flokka fólk

Sigurgeir Sigmundsson reiknar ekki með að reglugerð um skyldudvöl í sóttvarnahúsi taki gildi fyrr en á mánudag, í fyrsta lagi. Byggir hann það mat á því að þótt reglugerðin verði gefin út í dag þurfi líklega þrír dagar að líða fram að gildistöku til þess að þeir sem óska eftir undanþágu til að vera í sóttkví á eigin vegum geti sótt um það með tveggja daga fyrirvara, eins og kveðið er á um í lögunum.

Sigurgeir segir að lögreglan og annað starfsfólk á Keflavíkurflugvelli hafi nokkra reynslu í að flokka farþega og senda á sóttkvíarhótel. Það hafi þeir gert í nokkra daga í byrjun apríl, eða þar til þágildandi reglugerð var dæmd ólögleg, og þá hafi verið komið upp kerfi sem virkar.

Áskorun er fyrir starfsfólkið að finna út hvaðan farþegarnir koma í raun. Sigurgeir segir að hægt sé að skoða bókanir í flug en oft þurfi að treysta orðum fólksins sjálfs. „Við erum orðin vön að eiga við þá hluti,“ segir Sigurgeir.

Nýtt sóttvarnahótel

Sóttvarnahótelið við Þórunnartún var að fyllast í gær, þar voru yfir 300 gestir, og var opnað nýtt hótel, Hótel Rauðará. Þangað er ætlunin að beina fólki sem er talið berskjaldað fyrir smiti. Þá er útlit fyrir að rými skapist aftur í Þórunnartúni næstu daga þegar fólk útskrifast úr sóttkví.

Búast má við að enn fleiri verði sendir í sóttkví eða einangrun á vegum ríkisins þegar nýju reglurnar taka gildi. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa Rauða krossins, óttast ekki að allt fyllist. Hann segir að Sjúkratryggingar Íslands séu skjótar að bregðast við með útvegun fleiri hótela, þegar á þarf að halda. Þá sé starfsfólk til staðar og auðvelt að fjölga því.