Fremri röð f.v.: Halldór Ármannsson PhD í efnafræði frá Bretlandi, Eggert Briem stærðfræðipófessor emeritus, lærði í Danmörku, Gunnar Rósinkranz útskrifaðist í verkfræði frá Austur-Þýskalandi og Sveinn Valfells MS (Master of Science) í verkfræði frá Danmörku og MSIA (MS Industrial administration) frá Bandaríkjunum. Efri röð til vinstri: Jakob Yngvason eðlisfræðiprófessor emeritus, lærði í Þýskalandi, Ólafur Ragnarsson lærði lögfræði við Háskóla Íslands og Guðni Sigurðsson dr.rer.nat. eðlisfræðingur frá Þýskalandi. Allir eru fæddir 1941 nema Halldór fæddur 1942 og Jakob fæddur árið 1945.
Fremri röð f.v.: Halldór Ármannsson PhD í efnafræði frá Bretlandi, Eggert Briem stærðfræðipófessor emeritus, lærði í Danmörku, Gunnar Rósinkranz útskrifaðist í verkfræði frá Austur-Þýskalandi og Sveinn Valfells MS (Master of Science) í verkfræði frá Danmörku og MSIA (MS Industrial administration) frá Bandaríkjunum. Efri röð til vinstri: Jakob Yngvason eðlisfræðiprófessor emeritus, lærði í Þýskalandi, Ólafur Ragnarsson lærði lögfræði við Háskóla Íslands og Guðni Sigurðsson dr.rer.nat. eðlisfræðingur frá Þýskalandi. Allir eru fæddir 1941 nema Halldór fæddur 1942 og Jakob fæddur árið 1945. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Matur er mannsins megin, segir máltækið, og það veit hópur um áttræðra sjömenninga, sem hafa borðað saman á mismunandi veitingastöðum í hádeginu á föstudögum í áratugi.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Matur er mannsins megin, segir máltækið, og það veit hópur um áttræðra sjömenninga, sem hafa borðað saman á mismunandi veitingastöðum í hádeginu á föstudögum í áratugi. „Við Eggert Briem byrjuðum á þessu fyrir um 40 árum og síðan hefur fjölgað jafnt og þétt í hópnum,“ segir Ólafur Ragnarsson.

Matgæðingarnir voru flestir saman í Menntaskólanum í Reykjavík og útskrifuðust 1961. Þeir hafa þrætt veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu og lengst farið í Hveragerði til þessa en snæddu hádegisverð á veitingastaðnum Roki á Frakkastíg í Reykjavík fyrir helgi og á Koli á Skólavörðustíg í vikunni þar á undan. „Við gerum samanburð á gæðum veitingastaðanna, ræðum kosti og galla, en skráum ekkert niður, höldum ekki bókhald heldur er þetta pappírslaus starfsemi,“ segir Ólafur. Hann bendir á að skólagreindarvísitalan í hópnum hafi verið há og til dæmis hafi þrír félagar verið langt yfir 9 í meðaleinkunn á stúdentsprófi úr stærðfræðideild. „Góður matarsmekkur ræðst samt ekki af greindarvísitölu og ánægjan felst fyrst og fremst í því að rækta vináttuna. Hún dýpkar með aldrinum, verður betri með hverju árinu sem líður rétt eins og gott rauðvín.“

Gaman í vinnunni

Félagarnir eru frekar fastheldnir. Að loknum ánægjulegum málsverði er valinn kaffi- og kökustaður til að ljúka samverustundinni. Þar fær einn það verkefni að velja næsta matar- og kaffistað og fær prik fyrir hitti valið í mark. Eðlilega hafa þeir farið á suma staði oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, en Ólafur segir að þeir reyni alltaf að finna nýja staði á hverju ári. „Við erum nýjungagjarnir þrátt fyrir aldurinn en ef okkur finnst einhver staður ekki nógu góður förum við ekki þangað aftur.“

María Jóhanna Lárusdóttir, eiginkona Ólafs, er á Mörk hjúkrunarheimili á Suðurlandsbraut en hann býr í blokkaríbúð við hliðina og er innangengt á milli þeirra. „Við reynum að vinna úr spilunum eftir bestu getu,“ segir hann og bætir við að enginn hjónaklúbbur sé í hópnum.

Ólafur rak Tívolíið í Hveragerði í fimm ár. „Þaðan á ég góðar minningar þótt ég hafi tapað miklu,“ segir hann. Síðan stofnaði hann Lögmannsstofu Ólafs Ragnarssonar hrl. – Patice – 1985 og er með fimm manns í vinnu. Hann segir aldurinn ekki breyta því að nokkrir þeirra séu enn í vinnu. Útskýrir að stofa sín sérhæfi sig í að veita þjónustu á sviði hugverkaréttar fyrir atvinnulífið, svo sem að fá lögvernd fyrir tæknilegar uppfinningar, vöru- og þjónustumerki og hönnunarverk. Viðskiptavinir séu allir erlendir og þjónustan gjaldeyrisskapandi. „Patice greiddi rúmlega 50 milljónir króna í skráningargjöld til Hugverkastofunnar á síðasta ári og allur rekstrarkostnaður er greiddur með erlendum gjaldeyri. Ég hef gaman af vinnunni, en er þar samt ekki nema hálfan daginn.“

Kórónuveirufaraldurinn og samkomutakmarkanir hafa sett strik í reikninginn hjá skólabræðrunum en nú er sú hindrun úr vegi. „Við erum allir komnir með tvöfalda sprautu og megum hittast en að sjálfsögðu höldum við áfram að fara stíft eftir öllum reglum,“ segir Ólafur. „Við eigum flestir 80 ára afmæli í ár og reynum að halda okkur vel.“