Ógnvekjandi Fisher með stóran tuskudýrafeng.
Ógnvekjandi Fisher með stóran tuskudýrafeng. — Ljósmynd/Instagram
Í síðustu viku kom nýjasta plata dauðarokkssveitarinnar Cannibal Corpse út, Violence Unimagined .

Í síðustu viku kom nýjasta plata dauðarokkssveitarinnar Cannibal Corpse út, Violence Unimagined . Ómþýðir tónar hennar hafa fengið að hljóma í heyrnartólum mínum undanfarna viku og ekki er annað hægt að segja en að dauðarokkskóngar síðustu þriggja áratuga séu upp á sitt allra besta á sinni 15. hljóðversplötu.

Umfjöllunarefni laga Cannibal Corpse er eins og nafnið gefur til kynna alls kyns viðbjóður, oftast eitthvað sem tengist limlestingum og morðum. Þrátt fyrir það eru liðsmenn sveitarinnar ljúfir sem lömb. Söngvarinn George „Corpsegrinder“ Fisher er til að mynda hæglátur fjölskyldufaðir sem er mikill tuskudýraveiðimaður, eins og Haukur Viðar Alfreðsson orðaði svo skemmtilega á Twitter-aðgangi sínum í vikunni.

Fisher stundar það nefnilega grimmt að vinna tuskudýr í klóvélum í spilasölum, skemmtigörðum og verslanamiðstöðvum. Þykir hann afskaplega fær í sínu fagi og hefur rætt af mikilli ástríðu við fjölmiðla um hvernig hann fari að því að vera svona góður í að klófesta tuskudýr úr vélunum.

Tuskudýrin gefur hann öll með tölu til góðgerðarsamtaka hvers konar, enda hefur hann sjálfur ekki mikinn áhuga á þeim. Hann hefur aðallega áhuga á að standa sig vel í klóvélinni, en auðvitað líka að láta gott af sér leiða.

Gunnar Egill Daníelsson