Óskeikull Hornamaðurinn Jóhann Geir Sævarsson skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir KA gegn Gróttu á Seltjarnarnesinu í leiknum í gær.
Óskeikull Hornamaðurinn Jóhann Geir Sævarsson skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir KA gegn Gróttu á Seltjarnarnesinu í leiknum í gær. — Morgunblaðið/Sigurður Ragnars
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTINN Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Íslandsmótið í handknattleik hófst aftur eftir mánaðarhlé með þeim tveimur leikjum sem átti eftir að klára úr 14. umferðinni í gær.

HANDBOLTINN

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Íslandsmótið í handknattleik hófst aftur eftir mánaðarhlé með þeim tveimur leikjum sem átti eftir að klára úr 14. umferðinni í gær. FH hafði betur gegn Fram, 34:30, í hörkuleik í Safamýrinni og KA sótti tvö stig á Seltjarnarnesið með 37:33-sigri gegn Gróttu.

Framarar töpuðu sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu í gær þökk sé öflugum endaspretti FH-inga en leikurinn var hnífjafn fram á síðustu mínúturnar. Einar Rafn Eiðsson átti góðan leik fyrir Hafnfirðinga og skoraði tíu mörk þrátt fyrir að klúðra tveimur vítum. Með sigrinum er FH nú með 23 stig í öðru sæti, tveimur stigum á eftir nágrönnum sínum í Haukum sem eiga að vísu leik til góða. Fram er í 7. sæti með 16 stig.

Þá tókst KA að hífa sig upp um nokkur sæti með sigrinum á Gróttu. Árni Bragi Eyjólfsson skoraði 12 mörk úr 13 skotum fyrir norðanmenn, þar af eitt úr vítakasti, og Aki Egilsnes skoraði átta. Sigurinn dugði KA til að skjótast upp í 5. sæti deildarinnar en liðið er þar með 17 stig, jafnt Eyja- og Valsmönnum. Liðin léku sína fyrstu leiki í mánuð eftir hlé vegna sóttvarnaaðgerða yfirvalda en 16. umferðin verður leikin um helgina, fyrir utan leik Gróttu og FH sem nú þegar hefur farið fram. KA heimsækir Hauka á sunnudaginn og Framarar fá ÍBV í heimsókn í Safamýrina en báðir leikir byrja klukkan 16.