Barátta Reynslan nýttist hinum gamalreynda stórmeistara Jóhanni Hjartarsyni vel í viðureigninni við hinn átján ára gamla Vigni Vatnar Stefánsson.
Barátta Reynslan nýttist hinum gamalreynda stórmeistara Jóhanni Hjartarsyni vel í viðureigninni við hinn átján ára gamla Vigni Vatnar Stefánsson. — Morgunblaðið/Sigurður Unnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjörlega var teflt í fyrstu umferð í landsliðsflokki á Íslandsmótinu í skák sem hófst í gær.

Fjörlega var teflt í fyrstu umferð í landsliðsflokki á Íslandsmótinu í skák sem hófst í gær. Hjörvar Steinn Grétarsson, stigahæsti maður mótsins, sem nýlega vann Íslandsbikarinn og ávann sér keppnisrétt á Heimsbikarmótinu í skák, sigraði Hannes Hlífar Stefánsson, þrettánfaldan Íslandsmeistara. Hjörvar stýrði svörtu mönnunum í vel tefldri skák.

Guðmundur Kjartansson sem nýlega varð fimmtándi stórmeistari Íslendinga hafði titil að verja en tapaði fyrir Helga Áss Grétarssyni, Íslandsmeistaranum frá 2018. Jóhann Hjartarson nýtti sér reynsluna til fulls þegar hann vann hinn 18 ára gamla Vigni Vatnar Stefánsson. Bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnssynir unnu báðir sínar skákir, Bragi lagði Alexander Oliver Mai að velli og Björn sigraði Sigurbjörn Björnsson.

Íslandsmótið er haldið í húsnæði Siglingafélagsins Ýmis á Kársnesi í Kópavogi og stendur til 30. apríl. Það er samvinnuverkefni Skáksambands Íslands og skákdeildar Breiðabliks.

Mótið er er eitt allra sterkasta Íslandsmót sögunnar því sex stórmeistarar taka þátt í landsliðsflokki.

Önnur umferð fer fram í dag. Þá mætast Jóhann og Hjörvar.

Vegna sóttvarnareglna geta áhorfendur ekki mætt á skákstað en upplýsingar má finna á skak.is.