Skeifuhafinn Laufey Rún Sveinsdóttir var vel ríðandi á Skeifudegi hestamannafélagsins Grana sem fram fór í reiðhöllinni á Mið-Fossum.
Skeifuhafinn Laufey Rún Sveinsdóttir var vel ríðandi á Skeifudegi hestamannafélagsins Grana sem fram fór í reiðhöllinni á Mið-Fossum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þetta eru stór verðlaun sem heiður er að fá. Ég átti ekki von á að hljóta þau. Margir góðir knapar eru í hópnum en mér gekk mjög vel,“ segir Laufey Rún Sveinsdóttir frá Sauðárkróki sem var efst í keppni um Morgunblaðsskeifuna sem er ein helstu verðlaunin á Skeifudegi nemenda Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þetta eru stór verðlaun sem heiður er að fá. Ég átti ekki von á að hljóta þau. Margir góðir knapar eru í hópnum en mér gekk mjög vel,“ segir Laufey Rún Sveinsdóttir frá Sauðárkróki sem var efst í keppni um Morgunblaðsskeifuna sem er ein helstu verðlaunin á Skeifudegi nemenda Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Hestamannafélag nemenda, Grani, efnir á hverju ári til keppni á sumardaginn fyrsta og er keppt um ýmis verðlaun. Fyrirkomulagið var annað en venjulega að þessu sinni þar sem áhorfendur gátu ekki komið í reiðhöllina á Mið-Fossum og var atburðinum því streymt á netinu.

Margir verðlaunaðir

Morgunblaðsskeifan er veitt þeim nemanda sem nær hæstu meðaleinkunn úr verklegum reiðmennskuprófum. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1957. Ellefu nemendur tóku þátt í keppninni í ár. Laufey Rún fékk 9,1 í einkunn, Steindóra Ólöf Haraldsdóttir varð í öðru sæti og Helga Rún Jóhannsdóttir í því þriðja.

Helga Rún varð efst í keppni um Gunnarsbikarinn en hann er veittur þeim nemanda sem hlýtur hæstu einkunn í fjórgangi.

Elínborg Árnadóttir fékk Eiðfaxabikarinn en hann er veittur þeim nemanda sem hlýtur bestu einkunn í bóklegum áfanga. Steindóra Ólöf fékk ásetuverðlaun Félags tamningamanna. Björn Ingi Ólafsson fékk Framfarabikar Reynis en hann er veittur þeim nemanda sem sýnt hefur mestan áhuga, ástundun og tekið hvað mestum framförum í reiðmennsku.

Skemmtilegur tími

Laufey Rún segist hafa stundað hestamennsku frá því hún muni eftir sér. Fjölskylda hennar er með hesthús á Sauðárkróki. Hún er á búfræðibraut á Hvanneyri og lýkur námi í vor. „Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími, svolítið öðruvísi út af ástandinu en það hefur ekki truflað okkur mikið,“ segir Laufey.

Hún verður að vinna í Steinullarverksmiðjunni í sumar en hefur hug á að temja og þjálfa hesta í frítíma sínum. Hún segist vel geta hugsað sér að vinna við hesta í framtíðinni, alla vega sé áhuginn nægur.