Sóttvarnir Búast má við fjölgun gesta sóttvarnahúsa á næstunni.
Sóttvarnir Búast má við fjölgun gesta sóttvarnahúsa á næstunni. — Morgunblaðið/Sigurður Unnar
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Reikna má með því að ný reglugerð um hertar aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirunnar taki gildi eftir fáeina daga.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Reikna má með því að ný reglugerð um hertar aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirunnar taki gildi eftir fáeina daga. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var í gær að skrifa minnisblað til ráðherra með tillögum um fyrirkomulag, til dæmis um það hvaða lönd teljist hááhættusvæði. Fólk sem kemur frá þeim svæðum verður skikkað í sóttvarnahús ríkisins. Ekki fékkst uppgefið í gærkvöldi hvort minnisblaðið væri farið.

Samkvæmt nýju lögunum er sóttvarnalækni heimilt að veita undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi ef fólk getur uppfyllt skilyrði sóttkvíar eða einangrunar á eigin vegum. Þarf að sækja um undanþágu með tveggja sólarhringa fyrirvara. Þess vegna er líklegt að reglugerðin taki ekki gildi fyrr en í fyrsta lagi á mánudag.

Eftir lagabreytingarnar sem samþykktar voru á Alþingi í fyrrinótt er dómsmálaráðherra heimilt, að fenginni tilllögu sóttvarnalæknis, að banna útlendingum frá hááhættusvæðum að koma til landsins.

Lögregla og starfsfólk á Keflavíkurflugvelli telja sig ágætlega í stakk búin til að taka á móti farþegum og flokka frá það fólk sem þarf að fara í sóttvarnahús. Nýtist þar reynslan frá fyrstu dögum aprílmánaðar þegar komið var upp vinnulagi sem virkaði. Sömu sögu er að segja um starfsfólk sóttvarnahúsa sem getur búist við að fá fleiri gesti til að annast. Þótt hótelið við Þórunnartún hafi verið að fyllast í gær verða engin vandræði því Sjúkratryggingar Íslands útvega fleiri hótel sem hægt verður að nota þegar þörf gerist. 4