Guðbjörg Kristinsdóttir fæddist á Kirkjubóli í Staðardal í Steingrímsfirði 17. febrúar 1937. Hún andaðist á sjúkrahúsinu á Akranesi 9. apríl 2021.

Foreldrar hennar voru Kristinn Sveinsson, bóndi og síðar starfsmaður í frystihúsinu á Hólmavík, f. 1901, d. 1994, og Gunnlaug Helga Sigurðardóttir húsmóðir, f. 1901, d. 1991.

Systkini Guðbjargar voru Lilja Bjarklind, Sveinn, Sigurður og Guðmundur Trausti.

Þann 2. nóvember 1959 giftist Guðbjörg Sverri Björnssyni, f. 1. janúar 1932.

Foreldrar hans voru Björn Guðmundsson, bóndi í Brautarholti í Hrútafirði, og Anna Sigríður Guðmundsdóttir húsmóðir.

Börn Guðbjargar og Sverris eru: Björn Ingi, maki Margrét Guðmundsdóttir, Kristín Anna, Ásgeir, maki Karthrin Schmitt, og Alda Berglind, maki Lárus Jón Lárusson. Barnabörn þeirra eru tólf talsins og barnabarnabörnin sex.

Útför Guðbjargar fer fram frá Staðarkirkju í Hrútafirði í dag, 23. apríl 2021, kl. 14.

Streymt verður á:

https://tinyurl.com/wm2tp8

Streymishlekk má líka finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Þetta er ótrúlega sár saknaðartilfinning sem ég upplifi núna. Mamma er komin til pabba sem enginn efar að hafi tekið vel á móti sinni heittelskuðu Dúddu. Það er huggun að vita að þau krúttast saman í sumarlandinu núna. Ég gríp símann og ætla að hringja en það er enginn sem svarar. Það verður erfitt að fylla upp í það tómarúm sem hefur myndast. Það að geta ekki tekið létt spjall í lok dags og farið yfir hvað á daginn og veginn hafi drifið því umræðuefnin voru ekki af skornum skammti. Það verða ekki fleiri sögustundir né fleiri söngstundir þar sem við sitjum og syngjum með gítarinn og þú raddar. Það verða ekki fleiri stundir þar sem við drekkum saman kaffibollana okkar og spilum ólsen ólsen. Ég var næstum því farin að trúa því að hún myndi lifa dauðann af. Hún var búin að bíta af sér þrjú krabbamein, stórt hjartaáfall, nýrnabilanir og ýmislegt annað „smálegt“, eins og hún orðaði það sjálf. En það var ekki til í orðabók Dúddu í Brautarholti að kvarta. Ég minnist mömmu sem ótrúlega duglegrar konu sem fór fyrst á fætur á morgnana og síðust í rúmið á kvöldin. Henni var margt til lista lagt. Það skipti ekki máli hvort það voru bústörf, viðgerðir á heimilistækjum, handverk af öllum stærðum og gerðum eða söngur. Svo þarf varla að tala um snilldina í eldhúsinu. Hún var höfðingi heim að sækja, hristi fram úr erminni hlaðborð eins og um galdra væri að ræða. Einn gesturinn hafði það á orði að hann ætlaði að fá sér svona búr sem endalaust kæmi út úr eftir að hafa heimsótt hana. Ég minnist þess aldrei í mínum uppvexti að hafa heyrt hana hallmæla nokkrum manni og ég held bara að henni hafi lynt vel við alla. Jafnaðargeðið hjá henni var ótrúlegt og ég held að ég geti talið á fingrum annarrar handar þau skipti sem ég sá hana reiða. En ég get lofað ykkur því að hún hafi haft góða ástæðu til þess því við krakkahópurinn hennar tókum upp á ýmsu. Fer ekki nánar út í það. Ég mun alltaf verða þakklát almættinu fyrir að hafa úthlutað mér þessari mömmu og börnunum mínum þessari ömmu, þar duttum við í lukkupottinn. Elsku mamma. Nú ertu búin að fá frið fyrir þrautum heimsins, búin að henda göngugrindinni og farin að hlaupa um. Þakka þér fyrir samfylgdina í þessi sextíu ár sem ég fékk að njóta þín og allra þinna kosta sem kenndu mér svo margt. Elska þig.

Kristín Anna.

Elsku mamma. Ég held að það geti enginn búið sig undir að kveðja mömmu sína. Mömmur eru alltaf mömmur okkar, sama á hvaða aldri þær eru. Ég vissi að það væri að styttast í brottför þína en innst inni vonaði ég að þú myndir hrista þessi veikindi af þér eins og þú sýndir aftur og aftur í þínu lífi. Ég man ekkert eftir fyrstu veikindum þínum en sá tími mótaði mig engu að síður og hefur fylgt mér alla tíð. Mínar minningar eru flestar frásagnir annarra af þessari ótrúlegu kraftaverkakonu sem lifði allt af. Þegar ég hugsa út í þetta allt saman þá er þetta kannski bara ekkert skrítið. Það er frekar einstakt að vera svona eins og þú. Alltaf til í að slá öllu upp í grín og gaman og sökkva þér ekki í einhverjar óþarfa áhyggjur og ekkert vesen. Leiðarljós okkar systkinanna við undirbúning útfarar þinnar var að hafa ekkert vesen. Ef við vorum í vafa með einhverjar ákvarðanir þá spurðum við okkur: er það vesen? Nú ef okkur fannst það vera vesen þá var það ekki gert. Þú baðst um þetta elsku mamma og við reyndum eftir bestu getu að fara eftir þínum óskum.

Við spjölluðum ekki mikið saman en það gerði ekkert til. Við nutum bara nærveru hvor annarrar. Við spiluðum rommý og drukkum neskaffi með mikilli mjólk. Alltaf brosti ég þegar þú vannst mig í hverju spilinu af öðru. Það var alveg vonlaust að vinna þig því ég held að þú hafir alltaf vitað hvað ég var með á hendinni. Þetta hafa nú fleiri sagt í minni fjölskyldu. Það skiptir engu máli þótt ég hafi tapað aftur og aftur. Það var bara þetta að sitja saman og hlusta á þig humma og tala aðeins við sjálfa þig um hvað þú ættir að gera næst.

Ég er þakklát fyrir síðasta sumar. Að vinna á dagvistuninni á Hvammstanga gaf mér tækifæri til að eyða meiri tíma með þér á annan máta en að sitja hjá þér í heimsókn. Það var svo yndislegt þegar þú föndraðir rauða blómið þitt úr filtefninu. Þú hannaðir, ég teiknaði og þú klipptir og límdir. Alltaf svo sniðug og flink í höndunum og ekkert að sjá að það væri eitthvað að dala. Mér þykir svo vænt um myndina sem ég tók af þér með þetta fallega blóm því þú ert svo glöð og ánægð með afraksturinn. Við gerðum þetta líka pínulítið saman.

Mikið sakna ég þín. Ég á ekki eftir að heyra hummið þitt eða raulið aftur, en ég á smá myndband úr síðasta rommýinu okkar og mikið óskaplega er gott að horfa á það. Svona geta myndir og myndbönd orðið að ómetanlegri minningu og mun ylja mér um hjartað um ókomna tíð. Ég veit að pabbi bíður þín og tekur á móti þér með kossi eins og hann gerði alltaf.

Þakka þér fyrir allt. Það er enginn eins og þú.

Sendi þér brot af ljóðinu til pabba:

Kveð þig elsku mamma mín

ljúft nú lát þig dreyma.

Svífðu hátt um himininn

inn í aðra heima.

(ABS)

Alda B. Sverrisdóttir.

Elsku mamma mín. Nú hefur þú lokið þínu síðasta stríði við sjúkdómaher og kvatt okkur. Eftir sitjum við með söknuð og sorg í hjarta en einnig með gnótt af góðum minningum.

Oft hefur verið minnst á það við mig hve lík við vorum í útliti og það með réttu. En líkindin voru ekki bara þar heldur líka að nokkru leyti í lundarfari og hæfileikum í stærðfræði svo eitthvað sé nefnt. Ég fékk margar góðar gjafir frá þér í vöggugjöf. Fyrir það get ég ekki þakkað nóg.

Ég minnist uppvaxtarins og þeirrar hlýju sem þú sýndir okkur krökkunum, en gast líka verið ákveðin ef ærslin í okkur voru of mikil, líklega var það of sjaldan. Ég man líka vel tímann sem þú varst fjarverandi vegna veikinda og hve mikið manni fannst þá vanta.

Þegar ég minntist pabba þá nefndi ég ferðalögin sem við fórum saman, bæði dagsferðir og lengri ferðalög. Stór hluti tilhlökkunarinnar fyrir þessi ferðalög var að borða nestið, sem maður gat verið jafn viss um og að sólin kemur upp á morgun að var gómsætt og vel útilátið. Reyndar var alltaf tilhlökkun að koma í heimsókn og bragða á gamla góða mömmumatnum.

Og talandi um matargerð þá minnist ég þess tíma með söknuði þegar ég tók mér viku frí á haustin og við vorum tvö við sláturgerð. Það voru yndislegar stundir. Verst að ég sló því alltaf á frest að læra uppskriftirnar almennilega.

Í seinni tíð var það með mikilli gleði sem ég safnaði krossgátum og færði þér berlínarbollur sem þér þóttu svo góðar. Vanmáttug tilraun til að segja takk fyrir allt. Eins minnist ég símtalanna sem mjög gjarnan leiddust út í spjall um gamla tíma. Við vorum bara rétt byrjuð á því spjalli. Það er skrítið að eiga ekki eftir að gera neitt af þessu framar.

Elsku mamma. Nú hef ég fært þér síðustu berlínarbolluna og við förum ekki upp í Hvamm í sumar á sólríkum degi eins og við vorum búin að ákveða. Megi Guð og gæfa fylgja þér á þeirri ferð sem þú ferð nú. Vertu bless mamma mín, ég sakna þín.

Björn Ingi.

Elsku amma. Þú varst ein sú duglegasta kjarnakona sem ég hef kynnst!

Þú gast einhvern veginn allt, gekkst í öll sveitaverkin, hlúðir að dýrunum þínum, eldaðir matinn, saumaðir föt, föndraðir og málaðir, þreifst húsið eftir skítuga vinnumenn og bakaðir 100 sortir ásamt því að sjá um börn og barnabörn.

Ég minnist allra spilakvöldanna í Brautarholti, það sem þú nenntir að spila endalaust við okkur!

Kvöldið sem ég gat ekki sofnað því ég var með einhverja heimþrá og þú náðir í alla kettlingana og leyfðir mér að sofna með þá uppi í rúmi í kósí.

Matarbúrið sem var alltaf fullt af kökum og kleinum, enda þurfti að vera í boði allt uppáhalds hjá öllum.

Að sitja í horninu inni í eldhúsinu ykkar afa að kvöldi til og fá kvöldhressingu fyrir svefninn og spjalla um allt milli himins og jarðar.

Að sitja inni í gróðurhúsi með þér og smakka á helst öllu sem þar var í boði.

Og síðast en ekki síst að skottast í kringum þig í fjósi, fjárhúsum eða meðal hænanna.

Amma, ég mun sakna þín óendanlega mikið en á sama tíma er gott að vita af þér í kósí með afa í lazyboy-stólum, mögulega að horfa á formúluna.

Þín

Berglind Elva.