Gunnar Sturluson
Gunnar Sturluson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ákveðið hefur verið að aflýsa Heimsleikum íslenska hestsins sem átti að halda í Herning í Danmörku í byrjun ágúst.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ákveðið hefur verið að aflýsa Heimsleikum íslenska hestsins sem átti að halda í Herning í Danmörku í byrjun ágúst. Ástæðan er óvissa með þróun kórónuveirufaraldursins og að miklar líkur eru taldar á því að ekki geti lið frá öllum aðildarríkjum sent keppendur til leiks.

Gunnar Sturluson, formaður Feif sem eru alþjóðasamtök um íslenska hestinn, segir að útgöngubann sé í ákveðnum héruðum í Austurríki og faraldurinn á uppleið. Sömuleiðis í Þýskalandi og víðar. Takmarkanir séu á ferðum fólks á milli svæða. „Staðan á faraldrinum er þannig að miklar líkur eru á að þetta haldi áfram í einhverjum aðildarlöndum að ekki er talið forsvaranlegt að halda áfram vinnu við undirbúning mótsins,“ segir Gunnar. Þá telur hann litlar líkur á að keppendur komi frá Bandaríkjunum og Kanada.

Skipuleggjendur mótsins í Danmörku höfðu undirbúið mismunandi sviðsmyndir fyrir mótshald, allt frá engum áhorfendum og upp í hefðbundið mót. Þótt áhorfendur komi ekki þarf leyfi fyrir að fjöldi fólks komi saman, keppendur og starfsfólk, allt að 500 manns. Ekki liggur fyrir hvort það verður heimilt í byrjun ágúst. Gunnar segir að nú sé komið að greiðslum inn á leigu fyrir svæði og ýmsan búnað og innheimta leigu fyrir verslunarsvæði. Einnig þurfi liðin að leggja út í kostnað. Því hafi þurft að taka ákvörðun um mótið og niðurstaðan hafi orðið sú að ekki væri hægt að tryggja að hægt yrði að halda mótið og öryggi og heilsu allra sem að því þurfa að koma.

Næsta mót verður haldið í Hollandi eftir tvö ár. Gunnar segir að með niðurfellingu mótsins verði Feif af miklum tekjum og þurfi að vinna sig út úr þeim vandamálum.