Á Akranesi Jafna þarf aðgang fólks að gögnum og gæðum samfélagsins, segir Valgarður Lyngdal Jónsson um viðhorfin í Norðvesturkjördæmi.
Á Akranesi Jafna þarf aðgang fólks að gögnum og gæðum samfélagsins, segir Valgarður Lyngdal Jónsson um viðhorfin í Norðvesturkjördæmi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Að stíga nú inn á svið landsmálanna finnst mér vera rökrétt framhald í pólitísku starfi mínu, eftir að hafa setið í bæjarstjórn hér á Akranesi síðastliðin sjö ár,“ segir Valgarður Lyngdal Jónsson sem skipa mun efsta sætið á lista Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum í haust. „Jafnaðarstefnan á fullt erindi við fólk þessu kjördæmi. Í byggðamálum þarf að jafna aðgang fólks að gögnum og gæðum samfélagsins og allri opinberri þjónustu. Þetta má kalla virka velferð.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Að stíga nú inn á svið landsmálanna finnst mér vera rökrétt framhald í pólitísku starfi mínu, eftir að hafa setið í bæjarstjórn hér á Akranesi síðastliðin sjö ár,“ segir Valgarður Lyngdal Jónsson sem skipa mun efsta sætið á lista Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum í haust. „Jafnaðarstefnan á fullt erindi við fólk þessu kjördæmi. Í byggðamálum þarf að jafna aðgang fólks að gögnum og gæðum samfélagsins og allri opinberri þjónustu. Þetta má kalla virka velferð.“

Árangur í bæjarmálum

Valgarður, sem er frá bænum Eystra-Miðfelli í Hvalfjarðarsveit, á allar sínar rætur í Norðvesturkjördæmi. Föðurleggurinn er af Akranesi, úr Borgarfirði og norðan úr Miðfirði, en móðurættin er úr Árneshreppi á Ströndum. Eftir stúdentspróf fór hann í kennaranám og var fyrst eftir það grunnskólakennari á Patreksfirði, en hefur nú um langt skeið verið umsjónarkennari í efri bekkjum Grundaskóla á Skaganum. Margir gætu svo munað eftir Valgarði í sterku liði Akurnesinga sem komst í lokaeinvígi Útsvars, á RÚV , fyrir nokkrum árum.

„Verkefni í bæjarstjórn síðustu árin hafa verið spennandi og góður gangur í málum,“ segir Valgarður. Á líðandi kjörtímabili hafi verið unnið að mörgum mikilsverðum málum, svo sem stækkun íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum og fimleikahús var tekið í notkun nýlega. Framkvæmdir við byggingu nýs leikskóla séu að hefjast og átak í byggingu minni íbúða sé félagslegt verkefni sem margir komi að. Halda þurfi vel á spöðunum því bæjarbúum fjölgi jafnt og þétt og séu nú um 7.700.

„Bæjarfulltrúar allra flokka vinna vel saman og flest mál í bæjarstjórn eru afgreidd í víðtækri sátt. Slík stjórnmál eru alltaf árangursríkust,“ segir Valgarður.

Norðvesturkjördæmi nær frá Hvalfirði og norður í Fljót. Aðstæður og atvinnuhættir eru ólíkir milli staða og svæða. Iðnaður, sjávarútvegur, fiskeldi og landbúnaður – þetta er uppistaðan og greinar sem tryggja þarf góð og sanngjörn starfsskilyrði. Eitt af því, sem reyndar nýtist öllum, eru samgöngumálin. Þar bendir Valgarður á að langar leiðir í kjördæminu séu aðeins ófullburða vegir sem þurfi að byggja upp og bæta. Þar megi nefna Skógarströnd, sunnanverða Vestfirði og sveitavegi t.d. í Borgarfirði og á Norðurlandi vestra. Dreifbýlið verði að styrkja, enda hafi aðstæður af völdum veirunnar síðasta árið opnað augu margra fyrir kostum búsetu þar. Ein af birtingarmyndum þess sé að fjarkennsla er nú orðin í aðalhlutverki í mörgum skólum.

Allt of mikill kvóti á fáar hendur

Stjórn og fyrirkomulag fiskveiða er alltaf stórmál í Norðvesturkjördæmi og jafnvel það sem pólitíkin hverfist um. „Vandinn í fiskveiðistjórnunarkerfinu er að allt of mikill kvóti hefur safnast á fáar hendur. Að einstaka útgerðarmenn geti flutt starfsemi sína, tekið kvótann með og skilið íbúa eftir í raun varnarlausa er afleit staða. Miðin skammt undan landi en ekki má róa til fiskjar. Þarna get ég nefnt staði eins og Þingeyri, Flateyri, Ísafjörð og Akranes. Þessu verður að breyta og þar bendi ég til dæmis á fyrningarleiðina, sem ég tel vera einfalda og sanngjarna útfærslu á því að innkalla fiskveiðiheimildirnar með sem minnstu raski fyrir greinina og útdeila þeim aftur af sanngirni.“

Ekki Sjálfstæðisflokkinn

Línur fyrir alþingiskosningar í haust eru smám saman að koma fram. Í þeirri umræðu hefur Logi Einarsson formaður Samfylkingar sagt skýrt að samstarf síns flokks við Miðflokk og Sjálfstæðisflokk komi ekki til greina. Flokkarnir séu of fjarlægir hver öðrum í hugmyndum og áherslum til að þeir eigi samleið.

„Andstæðurnar eru skarpar og ég er sammála formanninum. Í sjávarútvegsmálum og álitamálum þess hvernig skipta eigi því sem þjóðin á sameiginlega eru Samfylking og Sjálfstæðisflokkur á öndverðum meiði. Við ætlum ekki að vera félagshyggjuflokkurinn sem leiðir Sjálfstæðisflokkinn til valda. Í landsmálunum liggja skýrar línur,“ segir Valgarður að síðustu.