Sóknarfæri Fólk á vappi um Apple-verslun. Fram til þessa hefur Apple aðeins náð að krækja í agnarsmáa sneið af netauglýsingamarkaðinum.
Sóknarfæri Fólk á vappi um Apple-verslun. Fram til þessa hefur Apple aðeins náð að krækja í agnarsmáa sneið af netauglýsingamarkaðinum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Líkt og Morgunblaðið fjallaði um í mars hafa bæði Google og Apple gert breytingar á vöfrum sínum og stýrikerfum til að gera auglýsendum erfiðara fyrir að vakta netnotkun fólks með vafrakökum. Fram til þessa hafa auglýsendur notað vafrakökur til að afla alls kyns upplýsinga um netnotendur og þannig getað sniðið markaðsefni sitt betur að hinum ýmsu markhópum.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Líkt og Morgunblaðið fjallaði um í mars hafa bæði Google og Apple gert breytingar á vöfrum sínum og stýrikerfum til að gera auglýsendum erfiðara fyrir að vakta netnotkun fólks með vafrakökum. Fram til þessa hafa auglýsendur notað vafrakökur til að afla alls kyns upplýsinga um netnotendur og þannig getað sniðið markaðsefni sitt betur að hinum ýmsu markhópum.

Financial Times greindi frá því á fimmtudag að Apple muni ekki láta þar við sitja heldur hyggist fyrirtækið auka umsvif sín á auglýsingamarkaði. Vitnar FT í tvo ónafngreinda heimildarmenn sem þekkja til áætlana Apple.

Markaðurinn fyrir stafrænar auglýsingar veltir nú nærri 380 milljörðum dala árlega og hafa Facebook og Google þar afgerandi forystu. Þrátt fyrir stærð sína hefur Apple gengið erfiðlega að ná fótfestu á þessum markaði.

Misheppnuð innreið iAd

Apple reyndi að gera sig gildandi í netauglýsingaheiminum árið 2010 með kaupum á farsímaauglýsingafyrirtækinu Quattro Wireless fyrir 275 milljónir dala eftir að hafa misst af möguleikanum á að kaupa AdMob sem Google hrifsaði til sín síðla árs 2009 fyrir 750 milljónir dala. Eftir kaupin á Quattro Wireless kynnti Apple til sögunnar auglýsingaþjónustuna iAd sem í fyrstu tók aðeins að sér auglýsingaherferðir fyrir að lágmarki eina milljón dala. Var lágmarkið fljótlega lækkað niður í hálfa milljón, og tveimur árum síðar niður í 50 dali. Var iAd sett á ís 2016 og ófarir verkefnisins m.a. raktar til þess að Apple vildi helst ekki deila notendaupplýsingum með auglýsendum og að Apple reyndi að hafa áhrif á innihald og ásýnd auglýsinga.

Í dag selur Apple auglýsingar í snjallforritabúð sinni, App Store, þar sem framleiðendur geta látið forrit sín birtast ofar í leitarniðurstöðum. Nema tekjur Apple af þessari auglýsingasölu um 2 milljörðum dala árlega en í snjallforritaheiminum getur sýnileiki í niðurstöðum App Store skilið á milli feigs og ófeigs. Að auki selur Apple auglýsingapláss í eigin verðbréfa- og frétta-snjallforritum.

Ekki er ljóst hversu langt Apple mun ganga í sókn sinni inn á auglýsingamarkaðinn en FT hefur þó fengið staðfest að nýju auglýsingaplássi verði bætt við í App Store. Sumir markaðsgreinendur hafa spáð því að eftir að hafa sett vafrakökum stólinn fyrir dyrnar muni Google og Apple í staðinn safna notendaupplýsingum í eigin gagnagrunn og síðan selja auglýsendum aðgang að þessum upplýsingum. Þannig geti auglýsendur klæðskerasniðið auglýsingaefni sitt og birtingar án þess að lúra sjálfir á upplýsingum um netnotendur.