Afl Vindmyllurnar í Laxárdal í Dalabyggð gætu orðið allt að 200 m á hæð.
Afl Vindmyllurnar í Laxárdal í Dalabyggð gætu orðið allt að 200 m á hæð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur samþykkt að breyta aðalskipulagi á tveimur stöðum í sveitarfélaginu með það fyrir augum að þar megi setja upp vindorkuver.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur samþykkt að breyta aðalskipulagi á tveimur stöðum í sveitarfélaginu með það fyrir augum að þar megi setja upp vindorkuver. Breytingin nær til Hróðnýjarstaða, neðst og fremst í Laxárdal, og Sólheima sem er efsti bærinn í dalnum. Ríkjandi vindáttir ráða því að hagstætt gæti verið að setja upp vindorkuver á umræddum jörðum, enda óskuðu eigendur þeirra eftir því að sveitarstjórnin breytti aðalskipulagi með það fyrir augum. Breytingin gekk í gegn með samþykkt á fundi sveitarstjórnar í sl. viku og bíður nú staðfestingar Skipulagsstofnunar.

„Að ná þessari breytingu á aðalskipulagi í gegn hefur verið fjögurra ára ferli. Þetta er þó aðeins einn áfangi á langri vegferð,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar, við Morgunblaðið. Hann bendir á að í upphafi árs hafi verið gerð skoðanakönnun meðal íbúa Dalabyggðar um afstöðu þeirra til vindorkuvera. Þar kom fram að rúm 50% eru hlynnt eða mjög hlynnt vindorkuverum. Í ljósi þess m.a. var haldið áfram með málið.

Áður en kemur til útgáfu framkvæmdaleyfis á bæði eftir að vinna deiliskipulag og meta umhverfisáhrif. Eins á eftir að koma í ljós hvort og hvernig rammaáætlun mun hafa áhrif á ferlið. Ýmis sjónarmið hafa þó verið uppi um vindorkuver á þessum slóðum og margir hafa staðnæmst við hugsanleg áhrif á fuglalíf, segir Eyjólfur.

Tillaga um breytingar á skipulagi, sem nú hefur verið samþykkt, var auglýst í nóvember 2020 og bárust umsagnir og athugasemdir víða frá. „Athugasemdirnar kölluðu ekki á efnislegar breytingar á aðalskipulaginu,“ segir í bókun sveitarstjórnar Dalabyggðar.

Í aðalskipulagi Dalabyggðar verða fyrirhuguð vindorkuver skilgreind sem iðnaðarsvæði. Áætlað er að uppsett afl verði allt að 280 MW til samans á báðum jörðum. Hæð vindmylla verður allt að 120 m í miðju hverfils og spaðar munu ná í allt að 200 m hæð. Myllurnar gætu þá orðið allt að þrjátíu í Sólheimum en allt að 40 á Hróðnýjarstöðum. Þá þarf hugsanlega að gera ráð fyrir ljósabúnaði efst á myllum, til aðvörunar fyrir flugumferð.

Eflir atvinnu og byggð

„Með tilliti til sjálfbærni, atvinnumála og eflingar byggðar hér í Dölum er ég áfram um að þessi uppbygging verði að veruleika. Slíkt myndi skapa störf og renna sterkari stoðum undir byggðina hér. Þetta gerist hins vegar ekki á einni nóttu, en við erum komin aðeins fram fyrir byrjunarreit í löngu ferli,“ segir Eyjólfur Ingvi.