Sigrún Brynjólfsdóttir fæddist 2. júní 1928. Hún lést 26. mars 2021.

Útför hennar fór fram 16. apríl 2021.

Ég kveð nú elsku ömmu Sigrúnu, og þá kraftmiklu, vinnusömu og blíðu konu sem hún var.

Það var allaf yndislegt, þegar ég var lítil stelpa búsett á Ítalíu, að koma í sumarfrí til Íslands heim til ömmu og afa í Skólagerði. Sumrin í Skólagerði voru þau allra bestu og var húsið sameiningartákn okkar frændsystkina, en við vorum þá dreifð um Evrópu. Amma sá alltaf til þess að til væru mjúkar og volgar nýbakaðar kleinur og hef ég enn þann dag í dag hvergi fengið jafngóðar kleinur og þær sem amma bakaði. Eftir langan morgun af ærslagangi og leik var yndislegt að sameinast við hádegisverðarborðið, þar sem amma var búin að raða alls kyns kræsingum og tei í eftirminnilega brúna tekatlinum.

Við amma fórum oft í göngutúra út á róló og ég þreyttist ekki á að spila lönguvitleysu við hana. Á kvöldin söng amma mig í svefn, fór með faðirvorið og sagði mér sömu sögurnar aftur og aftur sem ég þreyttist ekki á að heyra eins og söguna um það þegar „Helga systir“ fæddist á jóladag og amma hélt að hún hefði fengið dúkku í jólagjöf.

Sem krakki á Ítalíu var mikilvægt að eiga eina ömmu Sigrúnu á Íslandi, sem safnaði saman Barnablaði Morgunblaðsins hverja helgi og tók upp Stundina okkar á spólu sem hún síðan sendi mér reglulega.

Í seinni tíð var alltaf notalegt að kíkja til ömmu, skoða myndaalbúm, borða pönnukökur með sykri, drekka Ribena og spjalla um daginn og veginn. Ég leitaði oft til hennar fyrir skólaverkefni og mér fannst hún vera endalaus brunnur upplýsinga og visku.

Hún var lengi vel mjög hress og tók strætó út um allan bæ og gekk þess á milli, kvenskörungur á níræðis- og tíræðisaldri!

Þótt það sé sárt að kveðja held ég að hún hafi verið fegin að fara. Ég veit að henni líður vel þar sem hún er núna og hugsa hlýlega til hennar og minninganna sem ég á.

Hvíldu í friði elsku amma.

Þín

Þorgerður

Atladóttir (Thea).

Sigrúnu hef ég þekkt í nærri hálfa öld, það vantaði aðeins hálft ár upp á. Aldrei bar neinn skugga á vináttu okkar sem varð strax eftir að við kynnumst, en hún var einnig tengdamóðir mín í bráðum 43 ár.

Hún var ævinlega elskuleg við alla sem hún hitti og átti samskipti við, mjög hjálpfús og passaði mjög vel upp á stórfjölskylduna. Afmælum allra mundi hún eftir og var mjög dugleg að skrifa bréf og senda kort.

Alltaf var hún kát með hvað sem stóð til, hún tók fullan þátt í lífi allra sinna og sótti tónleika, fór á hátíðir og hvaðeina sem til stóð. Ekkert var of ómerkilegt og alltaf var hún jafn stolt og ævinlega var hún með myndavélina og tók myndir af öllu og öllum.

Myndirnar eru til enn þá í kassavís og er óskaplega gaman að ferðast á valdi minninganna með hjálp þeirra, enda spanna þær í raun allt hennar líf og einnig um leið okkar.

Myndirnar sýna að hún ferðaðist víða, fór í fjölmargar menningarferðir svo sem til Ísraels, Grikklands, Kúbu og Ítalíu, fór í Mozart-ferð en einnig til að heimsækja börnin sín en öll þeirra bjuggu á einhverjum tíma erlendis við nám.

Það er þungt að þurfa að segja það að Covid-19 rændi okkur síðasta ári Sigrúnar, allar takmarkanir sem voru á heimsóknum voru bæði henni og okkur erfiðar. Nú er hún farin rétt eftir að bólusetning leyfði loks almennar heimsóknir. Við hefðum viljað hafa þetta öðruvísi, kalla á hana í allar veislur litlar sem stórar eins og áður og gleðjast með henni en þetta var ekki á okkar valdi. Ég vil þakka Sigrúnu allan skilning, hjálpsemi, vinsemd og almenna elsku í minn garð og allra minna, ég veit að ég tala fyrir hönd bæði móður minnar og minna systkina, ekki síður en barna og barnabarna.

Dagný Guðnadóttir.