Í Seljaskóla Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson keyrir að körfu ÍR-inga í gær.
Í Seljaskóla Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson keyrir að körfu ÍR-inga í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Körfuboltinn Kristján Jónsson kris@mbl.is Baráttan um áframhaldandi keppnisrétt í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næsta tímabili verður æsilegri með hverjum leiknum sem er spilaður að því er virðist. Þrír leikir fóru fram í Dominos-deildinni í gær og Höttur galopnaði baráttuna í neðri hlutanum með sigri í Njarðvík eftir sveiflukenndan spennuleik.

Körfuboltinn

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Baráttan um áframhaldandi keppnisrétt í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næsta tímabili verður æsilegri með hverjum leiknum sem er spilaður að því er virðist. Þrír leikir fóru fram í Dominos-deildinni í gær og Höttur galopnaði baráttuna í neðri hlutanum með sigri í Njarðvík eftir sveiflukenndan spennuleik.

Haukar og Höttur eru í neðstu sætunum með 10 stig, Njarðvík er með 12 stig og ÍR með 14 stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Ég man ekki eftir því áður að öll tólf liðin í deildinni sýni það mikla getu að geta hæglega verið áfram í deildinni tímabilið á eftir. Yfirleitt eru eitt eða tvö lið sem ná sér ekki nægilega vel á strik og falla nokkuð örugglega niður um deild. Að undanförnu hefur það hins vegar gerst að neðstu liðin eru að safna stigum. Haukar hafa unnið tvo í röð, Höttur vann í gær og Njarðvík vann í Grindavík í síðustu umferð.

Gestirnir hungraðri

Höttur vann Njarðvík 74:72 í gær en Njarðvíkingar höfðu unnið upp sextán stiga forskot Hattar í síðari hálfleik og jafnað 72:72.

„Þetta tap Njarðvíkinga hefur þá þýðingu að þeir eru í töluverðri hættu á falli úr deildinni og það í fyrsta skipti í sögunni. Furðulegt að hugsa til þess að þetta stórveldi í íslenskum körfubolta sé á þessum stað,“ skrifaði Skúli B. Sigurðsson meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is.

„En þegar öllu er á botninn hvolft eftir þetta kvöld voru það einfaldlega gestirnir sem voru hungraðri í sigur á meðan heimamenn spýttu aðeins í lófana þegar þeir voru algerlega komnir með bakið upp við vegg,“ skrfaði Skúli einnig. Hann er ekki hrifinn af framlagi þeirra Hesters og Glasgows hjá Njarðvík. „Einnig virðast þeirra allra mikilvægustu menn bara hreint út sagt vera langt frá því að vera í formi til að spila heilan leik, en bæði Antonio Hester og Rodney Glasgow virtust vera farnir að „pústa“ ansi hressilega þegar í fyrri hálfleik. Ein sú allra slakasta erlenda sending sem þeir grænklæddu hafa fengið í gegnum árin.“

Framlengt í Breiðholti

Mikill munur er á gengi Keflvíkinga og Njarðvíkinga í vetur en Keflavík er í efsta sæti með 32 stig og átta stiga forskot. Liðið vann ÍR í gær 116:109 í Breiðholti en framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit.

„Í fjórða og síðasta leikhluta var mikið jafnræði með liðunum framan af og skiptust þau á að skora. Eftir að hafa tekið leikhlé um miðjan leikhlutann settu ÍR-ingar pressu á Keflvíkinga og minnkuðu muninn niður í fjögur stig, 94:90. ÍR-ingar voru ekki hættir og náði Danero Thomas að jafna í 100:100 þegar níu sekúndubrot voru eftir á leikklukkunni. Því þurfti að framlengja og þar reyndust Keflvíkingar hlutskarpari og unnu á endanum góðan 116:109-sigur,“ skrifaði Gunnar Egill Daníelsson meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is.

Stjarnan upp að hlið Þórs

Stjarnan fór upp að hlið Þórs frá Þorlákshöfn í 2.-3. sæti með sigri á Grindvíkingum í Garðabænum. Stjarnan sigraði 79:74 eftir nokkuð jafnan leik en Grindavík var yfir, 42:39, að loknum fyrri hálfleik. Garðbæingar höfðu betur í síðasta leikhlutanum, 23:14, og náðu þá tökum á leiknum en Grindavík vann leik liðanna í Grindavík fyrr í vetur.

*Frekari umfjöllun um leikina er að finna á mbl.is/sport.