Launaþróun Opinberir starfsmenn hafa hækkað mest síðasta árið.
Launaþróun Opinberir starfsmenn hafa hækkað mest síðasta árið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Laun á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu um 8,5% frá janúar 2020 til janúarmánaðar síðastliðins. Á sama tíma hækkuðu laun hjá hinu opinbera um 16,1%, 13,7% hjá ríkinu og 18,7% hjá sveitarfélögunum.

Laun á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu um 8,5% frá janúar 2020 til janúarmánaðar síðastliðins. Á sama tíma hækkuðu laun hjá hinu opinbera um 16,1%, 13,7% hjá ríkinu og 18,7% hjá sveitarfélögunum. Þetta kemur fram í nýbirtri hagsjá Landsbankans sem aftur byggist á nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Segir í hagsjánni að á síðustu misserum hafi myndast bil milli launaþróunar á almenna og opinbera markaðnum. Það skýrist af því að samningar voru gerðir mun seinna á opinbera markaðnum en þeim almenna.

Munurinn jafnast ekki út

„Þróun launa á opinbera og almenna markaðnum hefur yfirleitt verið með álíka hætti yfir lengra tímabil, en þar sem um eitt og hálft ár er eftir af núgildandi kjarasamningi, þar sem flestir hópar eru í sama umhverfi, er ekki líklegt að sá munur sem kominn er upp núna jafnist í bráð,“ segir bankinn.

Bankinn bendir á að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 4,3% frá mars 2020 og fram í mars 2021. Hins vegar hafi launavísitalan hækkað um 10,6% yfir sama tímabil og því nemi kaupmáttaraukning yfir tímabilið 6%.

„Kaupmáttur launa er því áfram mikill í sögulegu samhengi, þrátt fyrir aukna verðbólgu á síðustu mánuðum.“

Á almenna markaðnum hafa laun hækkað mest hjá verkafólki eða um 13,3%. Laun stjórnenda hafa hækkað minnst eða um 4%.