Heimilið Ljósmynd Fox Talbots frá um 1844 af heimili hans, Lacock Abbey.
Heimilið Ljósmynd Fox Talbots frá um 1844 af heimili hans, Lacock Abbey. — Sotheby's
Safn 191 ljósmyndar eftir hinn breska frumherja og uppfinningamann ljósmyndamiðilsins, William Henry Fox Talbot (1800-1877), var selt á uppboði hjá Sotheby's fyrir 196 þúsund dali, um 245 milljónir króna.

Safn 191 ljósmyndar eftir hinn breska frumherja og uppfinningamann ljósmyndamiðilsins, William Henry Fox Talbot (1800-1877), var selt á uppboði hjá Sotheby's fyrir 196 þúsund dali, um 245 milljónir króna. Um var að ræða 70 lausar ljósmyndir og þrjú albúm, allt frummyndir teknar af Fox Talbot um 1840 og prentaðar af honum og aðstoðarmönnum hans á sínum tíma. Myndirnar höfðu verið í eigu hálfsystur Fox Talbots, Henriettu Horatiu Mariu Gaisford, og allar götur síðan afkomenda hennar.

Upphaflega höfðu sérfræðingar Sotheby's metið ljósmyndasafnið á 300 til 500 þúsund dali en verðið sem myndirnar voru slegnar hæstbjóðanda fyrir nálgast hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir verk eftir Fox Talbot en það var 275 þúsund dalir sem greiddir voru árið 2018 fyrir heilt eintak bókar ljósmyndarans, The Pencil of Nature (1844), fyrstu ljósmyndabókar sögunnar.

Franski ljósmyndarinn L.J.M. Daguerre varð fyrstur til að kynna ljósmyndatæknina fyrir umheiminum, árið 1839, en það var svokölluð daguerreotýpa sem byggðist á uppfinningu J.M. Niépce, einstakar og ofurskarpar myndir á silfurplötu. Þegar uppfinning Daguerres sló í gegn tók breski uppfinninga- og vísindamaðurinn Fox Talbot, sem var efnaður aðalsmaður, aftur fram tilraunir með ljósmyndun frá því nokkrum árum fyrr, 1835, en hann uppgötvaði þá mikilvæga tækni með pappírsnegatífum sem hann kallaði kalótýpu og sló líka í gegn og var forveri filmuljósmyndunar.