Geldingadalir Sýnileg virkni var minni í elstu gígunum á sunnudaginn var en hafði verið fram að því. Meginhraunflæðið kom úr þessum eldgíg sem opnaðist 13. apríl. Vel er fylgst með framvindu eldgossins.
Geldingadalir Sýnileg virkni var minni í elstu gígunum á sunnudaginn var en hafði verið fram að því. Meginhraunflæðið kom úr þessum eldgíg sem opnaðist 13. apríl. Vel er fylgst með framvindu eldgossins. — Ljósmynd/Þorvaldur Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Gosið heldur sínum dampi. Það var lítil sýnileg virkni í elstu gígunum á sunnudag þegar ég var þarna. Það rauk vel úr þeim syðsta og af og til sást í pínulitla glóð í þeim nyrðri,“ segir dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði. Hann telur hægt að túlka þessa stöðu á ýmsa vegu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Gosið heldur sínum dampi. Það var lítil sýnileg virkni í elstu gígunum á sunnudag þegar ég var þarna. Það rauk vel úr þeim syðsta og af og til sást í pínulitla glóð í þeim nyrðri,“ segir dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði. Hann telur hægt að túlka þessa stöðu á ýmsa vegu.

„Það væri hægt að túlka þetta þannig að það sé að fara að slökkna á elstu gígunum og að virknin færist þá öll í gígana sem eru virkir þar norðan við. Svo getur verið að það sé komin svo mikil hrauntjörn í dalinn að hún nái yfir gígbarmana. Þeir geta samt sem áður haldið áfram að dæla út kviku. Sem stendur er ekki hægt að gera upp á milli þessara túlkana, þetta verður bara að koma í ljós.“

Þorvaldur segir að sér kæmi ekki á óvart að gígarnir séu að kaffærast í kviku. Á endanum geti sú orðið raunin með alla gígana, ef gosið heldur áfram. Þá mun kvikan renna beint inn í hrauntjörnina sem dempar alla virkni. Hraunflæðið heldur þá áfram út frá hrauntjörninni.

Yfirhlaup úr hraunánni

Hraunspýjan sem fór niður í Meradali um síðustu helgi var yfirhlaup. Barmur stóru hraunárinnar, frá gígunum sem opnuðust 13. apríl, brast á einum stað og ein álman fór yfir eldra hraunið og alveg niður í dalbotn í Meradölum. Eftir það stoppaði yfirhlaupið. Þorvaldur segir að þetta geti vel gerst aftur. Skammt er nú á milli nýju hraunanna í Meradölum. Ekkert skrið sást á nýju tungunni niðri í Meradölum á sunnudag, aðeins heyrðist frá henni skriðhljóð.

„Það var svakalega stór hraunbolti alveg fremst í hrauntungunni, 4-5 metrar í þvermál. Hann hafði greinilega oltið niður hraunána sem myndaðist í þessu yfirhlaupi. Þetta hefur verið eins og snjóbolti sem safnaði utan á sig hrauni þegar hann valt þarna niður,“ sagði Þorvaldur.

Gass gæti gætt fram á dag

Gasspá Veðurstofunnar í gær gerði ráð fyrir því að gas frá eldgosinu gæti mælst á höfuðborgarsvæðinu í nótt sem leið og eitthvað fram á daginn í dag.