Gleðistund Sveitarstjórinn Kristján Þór Magnússon og Örlygur Hnefill Örlygsson ferðamálafrömuður brugðu á leik með eftirlíkingar af Óskarnum.
Gleðistund Sveitarstjórinn Kristján Þór Magnússon og Örlygur Hnefill Örlygsson ferðamálafrömuður brugðu á leik með eftirlíkingar af Óskarnum.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum í skýjunum með það hvernig til tókst og ákaflega stolt af okkar fólki,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum í skýjunum með það hvernig til tókst og ákaflega stolt af okkar fólki,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Mikill viðbúnaður var á Húsavík á sunnudagskvöld þegar Óskarsverðlaunin voru afhent. Myndband við lagið Húsavík – My Home Town úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var sýnt og lagið átti möguleika á að hljóta Óskar. Lagið hlaut á endanum ekki náð fyrir augum óskarsakademíunnar en heimamenn eru stoltir af þeirri athygli sem Húsavík hefur fengið að sögn Kristjáns. Og hyggjast nýta sér athyglina.

„Það hefði verið algjör rúsína í pylsuendanum að vinna en eftir stendur að þetta er búið að vera algjört ævintýri að hafa fengið að taka þátt í þessu. Það er magnað að hafa náð að klára þetta verkefni á svo stuttum tíma. Samtakamátturinn á staðnum var rosalega mikill. Mér fannst magnað hvað allir voru tilbúnir að leggja dægurþras til hliðar þegar raunverulega þurfti á að halda,“ segir sveitarstjórinn.

Kristján játar því að eitthvað hafi ævintýrið kostað sveitarfélagið. Kostnaðurinn hafi þó ekki verið tekinn saman „Jújú. Auðvitað fellur alltaf til einhver kostnaður við svona. Í beinum kostnaði eru þetta samt ekki stórar tölur fyrir sveitarfélagið. Sérstaklega ekki þegar horft er til þess að þetta er auglýsing fyrir samfélag okkar, og reyndar Ísland allt, sem býðst ákaflega sjaldan. Fyrirtæki og einstaklingar hér horfðu til þess og létu hlutina ganga án þess að telja krónur. Það var enginn að hugsa um hvað menn ætluðu að rukka heldur var horft á þetta sem tækifæri.“

Fyrst minnst er á fyrirtæki í bænum þótti mörgum gaman að sjá auglýsingar í tengslum við beina útsendingu RÚV frá hátíðinni. Sýningarrétturinn var ekki tryggður fyrr en undir lok síðustu viku og því gafst ekki langur tími til auglýsingasölu. Augljóst var þó að norðlensk fyrirtæki sáu sér leik á borði þar. „Sveitarfélagið kom ekkert að þessu en ég er ánægður fyrir hönd okkar góðu fyrirtækja. Það var gaman að sjá menn gera sig breiða þar. Ég er líka ánægður með að RÚV skyldi taka á sig rögg og leysa þetta með útsendinguna. Það skipti máli.“

Kristján segir að fram undan séu fundahöld um það hvernig best sé að hamra járnið og nýta sér þá athygli sem Húsavík hefur fengið að undanförnu.

„Við eigum eftir að setjast yfir framhaldið og hvernig við munum nýta okkur þennan meðbyr. Þegar við höfum hvílt okkur í 2-3 nætur munum við ná saman innsta kjarnanum sem vann að þessu og fara yfir þær tengingar sem við höfum náð að mynda. Svo leggjum við á ráðin um næstu skref. Það er alla vega ljóst að fyrst í stað munum við vinna með þetta í ferðaþjónustunni í sumar og við munum eflaust nýta þetta í markaðslegu tilliti næstu árin.“