Útfarir Vinir og ættingjar manns sem látist hefur af völdum kórónuveirunnar í Nýju-Delí sjást hér koma saman við bálköst hans í gær.
Útfarir Vinir og ættingjar manns sem látist hefur af völdum kórónuveirunnar í Nýju-Delí sjást hér koma saman við bálköst hans í gær. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Bandaríkin og Bretland sendu í gær öndunarvélar, súrefniskúta og hráefni til bóluefnagerðar með hraði til Indlands, en þar ríkir nú algjört neyðarástand vegna kórónuveirufaraldursins. Indversk stjórnvöld tilkynntu í gær að 352.991 tilfelli veirunnar hefði greinst í gærmorgun, og er það mesti fjöldi nýrra tilfella sem greinst hefur í einu landi frá upphafi faraldursins. Þá létust 2.812 manns á sama tíma. Var þetta fimmti sólarhringurinn í röð þar sem fleiri en 300.000 tilfelli greindust.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Bandaríkin og Bretland sendu í gær öndunarvélar, súrefniskúta og hráefni til bóluefnagerðar með hraði til Indlands, en þar ríkir nú algjört neyðarástand vegna kórónuveirufaraldursins. Indversk stjórnvöld tilkynntu í gær að 352.991 tilfelli veirunnar hefði greinst í gærmorgun, og er það mesti fjöldi nýrra tilfella sem greinst hefur í einu landi frá upphafi faraldursins. Þá létust 2.812 manns á sama tíma. Var þetta fimmti sólarhringurinn í röð þar sem fleiri en 300.000 tilfelli greindust.

Frakkar, Þjóðverjar og Kanadamenn hétu einnig neyðaraðstoð til Indverja, en sjúkrahús í höfuðborginni Nýju-Delí eru yfirfull og mikill skortur á súrefniskútum. Ákváðu borgaryfirvöld í gær að framlengja útgöngubann sitt, sem staðið hefur yfir í viku.

Breska ríkisútvarpið BBC greindi frá því í gær að fjölmargir í Nýju-Delí neyddust nú til þess að sinna ástvinum sínum heima vegna skorts á sjúkrarúmum, og þá væru súrefniskútar og veirulyfið remdesivir seld dýrum dómum á svarta markaðnum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hét því í gær að Bretar myndu gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að koma til aðstoðar, en níu fraktvélar voru á leiðinni milli Bretlands og Indlands í gær með birgðir, og eiga þær að lenda í dag.

Bandaríkjastjórn tilkynnti að hún myndi senda veirupróf, öndunarvélar og varnarbúnað til Indlands þegar í stað. Þá var banni á útflutningi á hráefnum til bóluefnagerðar aflétt gagnvart Indlandi. Engin svör fengust hins vegar í gær um hvort Bandaríkin myndu senda um 30 milljónir skammta af bóluefni AstraZeneca til Indlands, en efnið er ekki í notkun í Bandaríkjunum.

Indverska afbrigðið veldur ótta

Nýtt afbrigði veirunnar hefur komið fram á Indlandi, og hefur það vakið nokkurn ótta, þar sem í því sameinast tvær stökkbreytingar, sem annars vegar gætu gert veirunni kleift að komast framhjá bólusetningu og hins vegar auðveldað henni að smitast víðar.

Nokkur ríki, Bretland þar á meðal, hafa því bannað ferðalög frá Indlandi vegna hins nýja afbrigðis. Ítölsk stjórnvöld greindu frá því í gær að þar hefðu komið upp tvö tilfelli með indverska afbrigðinu, og var þar um að ræða feðgin, sem nýkomin voru frá Indlandi. Hafa Ítalir nú bannað allar komur frá landinu.