[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Bergur Þórðarson fæddist 27. apríl 1961. Hann hefur búið alla tíð á bænum Hnappavöllum 4 í Öræfum og segir að það hafi alltaf legið fyrir að hann yrði bóndi og tæki við búi foreldra sinna. „Hér var gott að alast upp.

Guðmundur Bergur Þórðarson fæddist 27. apríl 1961. Hann hefur búið alla tíð á bænum Hnappavöllum 4 í Öræfum og segir að það hafi alltaf legið fyrir að hann yrði bóndi og tæki við búi foreldra sinna. „Hér var gott að alast upp. Hnappavellir eru fjórar jarðir og á öllum bæjunum voru börn á svipuðu reki svo það var oft mikið fjör. Á veturna renndum við okkur á heimasmíðum snjósleðum og svo vorum við mikið á skautum á veturna,“ segir Guðmundur. Á sumrin voru krakkarnir að hjálpa til við störfin yfir daginn, en þau hittust oft við leik á björtum sumarkvöldunum.

Guðmundur gekk í skóla á Hofi, sem í dag heitir Hofgarður. „Við vorum nokkur í skólanum héðan úr sveitinni fram að tólf ára aldri, en þá fórum við á heimavistina í Nesjaskóla, sem er rétt fyrir utan Höfn í Hornafirði. Það var svolítið erfitt að fara að heiman svona ungur, og fyrra árið fórum við bara heim tvisvar í mánuði, en eftir að skólabíllinn kom fengum við að fara heim um helgar seinna árið.“ Þetta voru mikil viðbrigði að fara að heiman, en hann á samt góðar minningar úr skólanum.

„Ég vann í nokkur ár á Höfn, bæði í fiski og í Loðnubræðslunni áður en ég tók við búinu. Þegar ég var í fiski voru engar vaktir, bara unnið meðan menn gátu staðið í lappirnar og oft mikil uppgrip, en í Loðnubræðslunni voru vaktir og skipulögð frí, svo það var talsvert öðruvísi.“ Hann segir að það hafi verið ansi algengt að bændur í sveitinni færu á vertíðir. „Pabbi fór á nokkrar vertíðir í Vestmannaeyjum þegar hann var ungur maður, og ef það var nægur mannskapur á bæjunum var tækifærið gripið. Þetta voru jú undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar og lífið snerist um kjöt og fisk.“

Um tíma var Guðmundur með bleikjueldi samfara sauðfjárræktinni, en einbeitir sér núna alfarið að fjárbúskapnum. Núna er helsta vertíðin, sauðburðurinn, að byrja á bænum og þegar komin þrjú lömb. „Um mánaðamótin hefst sauðburðurinn af fullum þunga og þá er vakað allan sólarhringinn. En þar sem við Rósa erum með ung börn, þá getum við ekki staðið í þessu allan sólarhringinn ein, en við erum svo heppin að sonur minn, Björn, kemur til okkar sem næturvörður á þessu tímabili sem er ómetanleg aðstoð.“

Guðmundur segir búskaparhættina hafa breyst svo mikið á sinni ævi að það sé í raun ótrúlegt. „Það er ekki hægt að líkja þessu saman, því í dag er allt gert með vélum. Þegar ég var bara tíu ára var ég farinn að vinna á lítilli dráttarvél heima, en í dag myndi maður aldrei setja krakka upp á þessar vélar, sem eru miklu stærri og öflugri. Annað sem hefur breyst er að núna er ég bara einn í heyskapnum og allt hey sett í plastaðar rúllur og í góðri tíð er ég kannski 2-3 vikur í heyskapnum. Í gamla daga var öll stórfjölskyldan saman í heyskapnum og oft unnið dögum saman við að ná heyinu í hús. Það var verið að slá, snúa heyi, setja í bagga og raka og allir sem vettlingi gátu valdið voru úti á túni.“

Ungmennafélagið lék stórt hlutverk í félagslífi sveitarinnar fyrr á árum og voru haldin spilakvöld og aðrar skemmtanir en dregið hefur úr því á síðustu árum. „Það er ein stór árshátíð haldin sem allir mæta á, en annars er ekki mikið um skipulagðar samkomur.“ Guðmundur segir að oft hafi verið talað um flótta úr sveitunum á mölina, og víst er að færri nemendur eru í skólanum á Hofgarði en áður var, því aðeins tvö börn eru í skólanum. „Leikskólinn er samt stærri og ég er ekki frá því að unga fólkið sé að leita aftur í sveitirnar, en þá eingöngu í ferðaþjónustuna en ekki í hefðbundinn búskap. Það er náttúrlega ekki að marka alveg síðasta ár því þetta ástand hefur hægt á öllu. Ég held samt að þau fyrirtæki sem ná að halda sér á floti í gegnum ástandið eigi eftir að blómstra aftur.“

Á sömu nótum telur hann að sumarið verði gott. „Maður hefur eiginlega ekki fengið almennilegt vor í mörg ár, en ég held að sumarið verði fínt. Maður verður allavega að vona það.“ Hann segist ekki búast við öðru en að vera í fjárhúsunum að sinna fénu á afmælisdaginn, en það sé aldrei að vita nema Rósa baki köku með kaffinu.

Fjölskylda

Eiginkona Guðmundar er Rósa Guðrún Daníelsdóttir garðyrkjunemi, f. 1.5. 1974. Fósturforeldrar hennar eru Guðrún Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 3.7. 1923, d. 27.10. 2012 og Jón Kristjánsson bóndi, f. 9.8. 1924, d. 1.9. 2015. Þau bjuggu í Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit. Kjörforeldrar Rósu eru Daníel Guðmundsson, f. 29.10. 1939, fv. bóndi á Helgastöðum, og Ólöf Ólafsdóttir, f. 13.9. 1948, búsett á Akureyri.

Börn Guðmundar og fyrri konu hans, Sigríðar Steinmóðsdóttur, eru Björn Ragnar, f. 20.4. 1991, vinnur í netagerð og er búsettur á Höfn og Salín Steinþóra, f. 23.7. 2003, nemi, búsett í Þorlákshöfn. Guðmundur og Rósa eiga saman Þórð Breka, f. 8.4. 2013 og Júlíu Mist, f. 21.10. 2016. Stjúpdætur Guðmundar og dætur Rósu eru Katrín Ósk Sveinsdóttir, f. 7.1. 1995, búsett á Flúðum, maki: Birta Erludóttir, f. 30.8. 1996; Birgitta Karen Sveinsdóttir, f. 4.2. 1997, listanemi, búsett í Hollandi; Írena Þöll Sveinsdóttir, f. 24.9. 2003, búsett á Hnappavöllum, og Embla Hafsteinsdóttir nemi, búsett á Hnappavöllum, f. 20.11. 2004. Barnabarn Guðmundar og Rósu er Steiney Hanna Birtudóttir, f. 31.7. 2020.

Systkini Guðmundar eru Sigurþór, f. 12.10. 1962, d. 10.11. 1965; Stefanía Ljótunn, f. 24.2. 1969, leikskólastarfsmaður á Höfn, og tveir bræður andvana fæddir.

Foreldrar Guðmundar eru hjónin Þórður Stefánsson bóndi, f. 17.12. 1923, d. 18.3. 2011 og Sigrún Bergsdóttir húsfreyja, f. 27.7. 1930, d. 13.4. 2015, frá Skaftafelli í Öræfum. Þau bjuggu á Hnappavöllum og giftu sig 17. maí 1958.