Í Mosfellsbæ Höskuldur og Helgi leggja af stað.
Í Mosfellsbæ Höskuldur og Helgi leggja af stað. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Málfræðingarnir Höskuldur Þráinsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, og Helgi Bernódusson, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, hafa hlaupið saman vikulega frá því sumarið 1982 eða í nær 39 ár.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Málfræðingarnir Höskuldur Þráinsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, og Helgi Bernódusson, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, hafa hlaupið saman vikulega frá því sumarið 1982 eða í nær 39 ár. Þeir segja að festan og hefðin skipti miklu máli og félagsskapurinn hafi mikið að segja.

„Ég vann við lokafrágang á kandídatsritgerð við Háskóla Íslands þetta sumar, Höskuldur var leiðbeinandi minn. Hann og fleiri úr deildinni voru þá að skokka og ég slóst í för. Og svo leiddi eitt af öðru,“ rifjar Helgi upp um ástæðu þess að þeir fóru að hlaupa saman.

„Sem gutti í Vestmannaeyjum tók ég þátt í hlaupum og mótum en þegar ég fór síðar að hlaupa um göturnar stoppaði fólk mig gjarnan og spurði hvað væri komið yfir mig, hvert ég væri að hlaupa. En ég lét slíkt ekki stöðva mig og hélt áfram að gutla í þessu, fann að það gerði mér gott. Höskuldur var landsfrægur spretthlaupari og smám saman varð það að fastri hefð að við hlupum saman einu sinni eða tvisvar í viku. Hún hefur haldist síðan með fáeinum undantekningum.“

Höskuldur keppti fyrir HSÞ á 7. áratugnum, m.a. á landsmótum og Norðurlandsmótum. „Því styttra, því betra,“ segir hann um bestu greinarnar, en hann fór meðal annars 100 metrana á 11,1 sekúndu og var með bestu mönnum þegar keppt var í 3 x 40 m hlaupi í Laugardalshöllinni. „Það var árangur á heimsmælikvarða, enda hefur hvergi annars staðar verið keppt í þessari grein, hvorki fyrr né síðar.“

Félagarnir byrjuðu að hlaupa í nágrenni við Háskólann og hafa alla tíð miðað við að hlaupa um sjö til átta kílómetra hverju sinni. Lengst af hlupu þeir í kringum flugvöllinn, út í Nauthólsvík og upp í Öskjuhlíð, en eftir að kórónuveirufaraldurinn fór að gera mönnum lífið leitt fyrir rúmu ári hafa þeir hlaupið hringi frá heimili Höskuldar í Mosfellsbæ.

Forgangur

Til að byrja með létu þeir kylfu ráða kasti hvenær hlaupið var en fljótlega vildu þeir hafa festu á því eins og öðru og miðuðu þá við að hefja skokkið við íþróttahús Háskólans klukkan 16.30 á þriðjudögum. Auk þess hlupu þeir hvor í sínu lagi með öðrum ef því var að skipta.

„Skokkið hefur haft forgang og meðal annars skaust ég út úr Alþingi, þegar allt var á suðupunkti í janúar 2009, til þess að hlaupa með Höskuldi, en fór svo aftur í vinnuna að því loknu og var þar langt fram á nótt,“ segir Helgi. „Ekkert gat stöðvað mig á hlaupatíma enda skokkið mikil vítamínsprauta. Það var mikill styrkur í erfiðu starfi að komast aðeins út, hreyfa sig og hlaupa, og ég gat ekki neitað mér um það. Hlaupið jók mér þrótt, kraft og starfsgleði, var ótrúlega uppbyggjandi. Eða eins og góður félagi sagði við mig: „Ég veit hver galdurinn er hjá þér, Helgi. Þú hleypur frá vandamálunum.““

Höskuldur tekur undir orð Helga um mikilvægi hlaupsins. Það hafi verið heilög stund og átt sinn ákveðna tíma enda hafi hann þvertekið fyrir að þurfa að kenna eða sækja fundi eftir klukkan fjögur á þriðjudögum. „Ef ég hreyfi mig ekki get ég ekki vaknað á morgnana, er slappur, linur og latur. Þegar ég var enn að kenna var skokkið auk þess gott til þess að hreinsa hugann eftir krefjandi kennslu eða erfiða fundi í Háskólanum.“ Hann segir að ýmsir hafi hlaupið með þeim á stundum en ekki enst. „Þeir hafa gefist upp og við höfum hlaupið alla af okkur.“