Langtímageymsla Hér sést hluti þeirra smáhýsa sem geymd eru á svæði Reykjavíkurborgar í Skerjafirði.
Langtímageymsla Hér sést hluti þeirra smáhýsa sem geymd eru á svæði Reykjavíkurborgar í Skerjafirði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Það er hreint út sagt skelfilegt að planta fárveiku fólki eftirlitslausu úti í móa.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Það er hreint út sagt skelfilegt að planta fárveiku fólki eftirlitslausu úti í móa. Með þessu er Reykjavíkurborg einfaldlega að kuska af sér vandann og henda honum til hliðar svo hann sjáist ekki lengur,“ segir Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, og vísar til smáhýsaverkefnis borgarinnar.

Greint var frá því hér í Morgunblaðinu um helgina að mikil óregla og sóðaskapur einkennir nýja smáhýsabyggð í Gufunesi í Reykjavík. Eru útköll lögreglu þangað afar tíð og staðsetning húsanna verið gagnrýnd af mörgum enda íbúar einangraðir frá allri nauðsynlegri þjónustu. Baldur tekur undir þessa gagnrýni og segist hafa varað við uppbyggingu húsanna í Gufunesi og eftirlitsleysinu. Segir hann það einungis leiða til enn meiri og harðari neyslu.

„Það er ekki hægt að halda því fram að þetta séu skaðaminnkandi úrræði. Eins og þetta er framkvæmt núna er þetta ekkert annað en neyslurými og það eykur einungis vandann. Þetta gerir ekkert gagn. Ég tel nær að koma þessu fólki, sem er jú fárveikt, í alvöruúrræði sem skila einhverjum árangri,“ segir Baldur og bendir á að hann hafi meðal annars talað fyrir viðeigandi meðferðarúrræði fyrir alla aldurshópa, strangri eftirmeðferð, ráðgjöf og viðeigandi stuðningi.

„Það hefur, að mínu mati, frá degi eitt verið röng nálgun í þessu máli. Og dæmin sanna það, ástandið úti á Granda hefur ekki verið gott og nú er sama staða komin upp í Gufunesi. Þar hefur borgin meira að segja ákveðið að leigja ekki út fimmta húsið eins og til stóð. Fullyrt hefur verið að eftirlit sé haft með þessum svæðum en svo er alls ekki. Ég veit til þess að inn í sum smáhýsi hefur ekki nokkur einasti maður frá borginni komið í um ár. Ef það er eftirlit með fólki þá hreinlega skil ég það ekki.“

Hrúga af ónotuðum smáhýsum

Á geymslusvæði Reykjavíkurborgar í Skerjafirði standa yfir 20 smáhýsi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa þau staðið þar óupphituð og afskipt í rúmt ár.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir ljóst að smáhýsaverkefni Reykjavíkurborgar hafi verið illa unnið frá upphafi.

„Staðarvalið, kostnaðurinn og fleiri þættir sem þessu tengjast bera það með sér að þetta verkefni er afar illa unnið. Það hefur lítið verið gert allt kjörtímabilið til að koma þessu í gagnið en á sama tíma er búið að setja gríðarlegan pening í þetta.“

Aðspurður segir Eyþór ljóst að hundruð milljóna króna hafi runnið til verkefnisins. „Ég gæti trúað því að fermetraverð smáhýsis sé yfir einni milljón. Svo dagar þau bara uppi á geymslusvæði. Þetta er mjög sorglegt,“ segir hann.

Með fleiri staði í sigtinu

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og borgarfulltrúi Samfylkingar, segir smáhýsin mikilvægt úrræði fyrir marga. Reynslan sýni þó að bæta þurfi þjónustu.

„Það er líka betra að hafa svona inni í miðri byggð fremur en í jaðrinum,“ segir hún og bætir við að hún eigi von á því að uppbygging hverfisins muni bæta ástandið.

Þá segir hún það almennt ganga illa að útvega lóðir undir smáhýsi. Hún eigi þó von á uppbyggingu smáhýsa í Laugardal, Ártúnshöfða, Vogabyggð og Hlíðahverfi. „Vonandi kemst það fljótlega af stað.“