Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson — Morgunblaðið/Eggert
Karlalandsliðið í handknattleik getur náð efsta sæti í 4. riðli undankeppni EM 2022 í handknattleik þegar liðið mætir Ísrael á útivelli í kvöld. Portúgal er með sex stig í riðlinum eftir fjóra leiki en Ísland er með fjögur stig eftir þrjá leiki.

Karlalandsliðið í handknattleik getur náð efsta sæti í 4. riðli undankeppni EM 2022 í handknattleik þegar liðið mætir Ísrael á útivelli í kvöld.

Portúgal er með sex stig í riðlinum eftir fjóra leiki en Ísland er með fjögur stig eftir þrjá leiki. Þessi lið eru búin að afgreiða sínar viðureignir. Unnu þau hvort sinn leikinn en staða Íslands er betri því Ísland vann með meiri mun. Liðin léku tvo leiki í aðdraganda HM í janúar eins og handboltaunnendur muna eflaust eftir. Ísrael og Litháen eru með tvö stig hvort um sig. Þar af leiðandi liggur fyrir að vinni Ísland leikina þrjá sem liðið á eftir þá vinnur það riðilinn. Annað sætið dugir til að komast í lokakeppni EM en efsta sætið í riðli í undankeppni getur haft jákvæð áhrif á styrkleikalista og niðurröðunina þegar dregið er í riðla.

Landsliðið er að hefja þriggja leikja hrinu til að ljúka þátttöku sinni í undankeppninni. Í kvöld er leikið í Ísrael og því næst í Vilnius í Litháen á fimmtudaginn. Þaðan fer liðið heim til Íslands og tekur á móti Ísrael á Ásvöllum 2. maí.

Erfiðlega hefur gengið að koma leikjunum gegn Ísrael á vegna heimsfaraldursins. Í nóvember áttu liðin að mætast á Íslandi en leiknum var frestað með skömmum fyrirvara. Liðin áttu að mætast í Ísrael í mars en leiknum var frestað með skömmum fyrirvara.

Ísraelsmenn komu nokkuð á óvart í gær og unnu Litháa 34:28 í Ísrael. Eru liðin því bæði með tvö stig og baráttan um þriðja sætið verður á milli þeirra en fyrir fram var talið að Litháen væri heldur sterkara lið. kris@mbl.is