Sigurbjörg Hervör Guðjónsdóttir, ein stofnenda og fv. formaður Félags heyrnarlausra, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 2. apríl sl., 90 ára. Hervör fæddist á Hesti í Önundarfirði 27. janúar 1931. Foreldrar hennar voru Guðjón G.

Sigurbjörg Hervör Guðjónsdóttir, ein stofnenda og fv. formaður Félags heyrnarlausra, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 2. apríl sl., 90 ára.

Hervör fæddist á Hesti í Önundarfirði 27. janúar 1931. Foreldrar hennar voru Guðjón G. Guðjónsson og Guðbjörg Sveinfríður Sigurðardóttir, bændur á Hesti.

Hervör sleit barnsskónum á Hesti en hún greindist heyrnarlaus í frumbernsku. Við sjö ára aldur fór hún til Reykjavíkur til að hefja nám í Málleysingjaskólanum í Stakkholti, síðar nefndur Heyrnleysingjaskólinn. Hervör lauk unglingaprófi með afburða námsárangri og stundaði nám við Húsmæðraskóla Reykjavíkur árin 1946-1947. Lengst af starfaði hún við Borgarspítalann í Reykjavík ásamt félags,- uppeldis- og húsmóðurstörfum eftir að börnin fæddust.

Hervör var einn af stofnendum Félags heyrnarlausra árið 1960, sat í stjórn í 17 ár, þar af sem formaður í 9 ár. Þá var hún í framkvæmdanefnd félagsins frá 1974-1989, var formaður táknmálsnefndar 1985-1989, auk fleiri trúnaðarstarfa. Hervör var fyrsta heyrnarlausa konan á Íslandi sem fékk bílpróf.

Eftirlifandi eiginmaður Hervarar er Guðmundur K. Egilsson, f. 1928., fv. verkstjóri og forstöðumaður Minjasafns Orkuveitu Reykjavíkur. Þau gengu í hjónaband á 25 ára afmælisdegi Hervarar árið 1956.

Börn Hervarar og Guðmundar eru Bryndís talmeinafræðingur, Magnús, ráðgjafi og hestabóndi í Svíþjóð, Ragnheiður Eygló, verkefnastjóri í upplýsingatækni, Guðjón Gísli viðskiptafræðingur og María Guðrún viðskiptafræðingur. Barnabörnin eru 19 talsins.

Hervör og Guðmundur túlkuðu og aðstoðuðu heyrnarlausa áður en túlkaþjónusta varð að veruleika á Íslandi. Í formannstíð Hervarar eignaðist félagið eigið húsnæði og fyrsta táknmálsorðabókin var gefin út. Þau hjón voru gerð að heiðursfélögum Félags heyrnarlausra á 25 ára afmæli félagsins.

Hervör verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík 30. apríl nk. kl. 15. Streymt verður frá útförinni og hægt að nálgast slóðina á mbl.is/andlat.