Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorstein Þorsteinsson og Gunnlaug Sigurðsson: "Einstaklingsmiðuð námskrá, fjallað er um áskoranir og lausnir samtímans þar sem samvinna skóla og foreldra styður við barnið, skólann og samfélagið."

Í daglegu skólastarfi undirritaðra kom oft upp í hugann hinn ævagamli málsháttur: „Lengi býr að fyrstu gerð“. Það var augljóst að staða nemenda var misjöfn eins og við var að búast. Áberandi var að nemendum leið misvel í því kerfi og starfi sem skólinn bauð þeim upp á. Ekki þarf að velta lengi vöngum yfir því hvort og hvernig líðan manna hefur áhrif á árangur í margvíslegu starfi. Börn og unglingar eru þar engin undantekning. Það gefur því augaleið að nemendur verða ánægðari í skólunum eigi þeir kost á ríkulegu vali í námi sínu. Val nemenda þarf að vera mjög vel undirbúið og fara fram með þátttöku foreldra og umsjónarkennara.

Námsáætlanir

Eðlilegt er að allir nemendur geri á hverju hausti skriflega áætlun um framvindu námsins fyrir hvert skólaár og einnig langtímaáætlun fyrir næstu þrjú til fjögur ár. Þessar áætlanir væru unnar í samstarfi við foreldra og umjónarkennara. Með auknu vali og vönduðum námsáætlunum munu nemendur taka aukna ábyrgð á námi sínu og verða ánægðari með nám sitt og önnur störf í skólanum.

Félagslíf nemenda

Fjölbreytilegt félagslíf í hverjum skóla er lykilatriði fyrir nemendur. Börn og unglingar eru miklar félagsverur og þurfa því að eiga aðgang að fjölbreyttu félagsstarfi í sínum skóla. Félagslífið þarf að vera sem mest í höndum nemenda sjálfra en alltaf innan þeirra reglna sem unglingar og skólar verða að lúta á hverjum tíma.

Stefnumörkun

Við höfum áður bent á hversu mikilvægt það er að láta skólana í fullu sjálfstæði sínu ákveða breytingar þær sem gera þarf til að bæta líðan nemenda og árangur. Mikilvægt er að láta ekki einhvern „stóra bróður“ ákveða hvað gera skal. Stjórnendur og annað starfsfólk skólanna eru sérfræðingar á sviði kennslu- og uppeldismála og því fær um að móta áherslur í skólastarfinu þannig að ýmissa leiða sé leitað til að nemendum líði sem best.

Skóli í samfélagi

Margar þjóðir hafa skapað og fest í sessi ákveðna og góða samvinnu foreldra og skóla á öllum skólastigum. Þetta er afar mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Skólastjórnendur og forystufólk foreldrafélaga eða samtaka þeirra þurfa að eiga samstarf um stöðu og hlutverk hvers skóla í samfélaginu. Þar er skólastjóri í forystu til að leiða skólann með stuðningi foreldra fram til þess að þjóna samfélaginu á sem bestan veg. Víða um heim eru til „community schools“ á ýmsum skólastigum. Í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, eru þessir skólar víða og þá mætti kalla: skóla í samfélagi. Skólarnir leggja áherslu á einstaklingsmiðaða námskrá þar sem fjallað er um verkefni, lausnir og áskoranir samtímans. Þátttaka foreldra er mikil, markviss og vel skipulögð. Dæmi eru um að sérfræðingar í hópi foreldra komi og haldi erindi um tiltekin mál, s.s. læknirinn sem kemur og ræðir ýmis heilsuverndarmál o.s.frv. Þá er og algengt að foreldrar fylgist vel með rekstri skólanna og hjálpi til við tekjuöflun. Góður skóli þrífst betur með virkri þátttöku foreldra í skólastarfinu og stuðningi þeirra á mörgum sviðum.

Víðtæka samvinnu þarf til að ná helstu heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem Ísland hefur tileinkað sér, s.s. menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, heilsu og vellíðan. Með menntun fyrir alla er átt við að tryggja beri jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi. Eitt af undirmarkmiðunum er að eigi síðar en 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilning.

Hlutverk foreldra

Þetta verkefni þarf að hefja snemma og þá komum við að hlutverki foreldra og/eða náinna ættingja hvers barns. Framsæknir uppeldisfræðingar telja hæfilegt að byrjað sé að lesa fyrir börn fljótlega eftir fæðingu. Þeir allra hörðustu telja tímann rétt fyrir fæðingu heppilegan. Eftir reglulegan lestur hefst kynning á ævintýraheimi bókanna, t.d. með skoðun mynda, útskýringum o.fl. Það gleymist oft að lítil börn hafa ótrúlega næma skynjun. Eftir þetta byrja börn oft að spyrja um bókstafina og velta þeim fyrir sér og í mörgum tilvikum vaknar áhugi á að byrja að lesa létta texta. Það skerpir mjög hugsunina. Þá er eðlilegt að tala reglulega við börnin af fullri virðingu um nánast allt milli himins og jarðar. Í raun og veru lýkur þessu hlutverki aldrei, það tekur aðeins á sig breytta mynd. Þegar kemur að skólagöngu barns er mikilvægt að foreldrar kynni sér vel áherslur í skólastarfinu, umhverfi og aðbúnað í skólanum. Gott er þegar foreldrar stíga fljótt og fast fram í þessum efnum, kynna sér málin og styðja vel við skólann með ýmsum hætti. Góð og mikil samvinna skóla og foreldra styður við barnið, skólann og samfélagið.

Höfundar eru fyrrverandi skólameistarar. thorsteinn2212@gmail.com

Höf.: Þorstein Þorsteinsson, Gunnlaug Sigurðsson