Lögregla Stytting vinnuviku vaktavinnufólks mun m.a. hafa umtalsverð áhrif meðal lögreglumanna. Unnið er að heildarmati sem gengur undir nafninu Gullinbrú á áhrifum breytinganna á mönnun í vaktavinnu og á kostnað.
Lögregla Stytting vinnuviku vaktavinnufólks mun m.a. hafa umtalsverð áhrif meðal lögreglumanna. Unnið er að heildarmati sem gengur undir nafninu Gullinbrú á áhrifum breytinganna á mönnun í vaktavinnu og á kostnað. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tekist hefur að útfæra styttingu vinnuviku á níunda þúsund starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum sem vinna vaktavinnu og munu breytingarnar taka gildi fyrir alla starfshópa 1. maí næstkomandi.

Tekist hefur að útfæra styttingu vinnuviku á níunda þúsund starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum sem vinna vaktavinnu og munu breytingarnar taka gildi fyrir alla starfshópa 1. maí næstkomandi. Meginbreytingin verður sú að með nýju skipulagi vinnutímans í vaktavinnu, sem nær til um 700 stofnana hjá hinu opinbera, styttist vinnuvika fólks í fullu starfi úr 40 í 36 virkar stundir og í sumum tilvikum, t.d. í næturvinnu, getur hún farið niður í 32 stundir. Jafnframt mun launamyndun vaktavinnufólks taka mið af fleiri þáttum en áður.

„Þetta er bara allt að ganga upp. Verkefnið hefst 1. maí,“ segir Bára Hildur Jóhannsdóttir, sem leiðir verkefnisstjórn sem hefur haft með höndum heildarskipulag og daglega umsýslu þessa verkefnis.

Flókið verkefni

Stytting vinnutíma dagvinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum tók gildi um seinustu áramót en útfærsla á styttingu vinnutíma vaktavinnufólks er mun flóknara verkefni og hafa margir komið að undirbúningsvinnunni á umliðnum mánuðum. Hafa t.a.m. verið haldnir um 400 manna fundir um hvert skref innleiðingar þessara breytinga á hverjum miðvikudegi með stjórnendum hjá hinu opinbera og fundir með fulltrúum launafólks eru haldnir annan hvern föstudag.

Bára segir að þótt breytingin taki gildi um næstu mánaðamót verði áfram unnið að ýmsum útfærslum og lagfæringum. „Það eru áskoranir hér og þar sem við erum að vinna með þessa dagana og það er ennþá verið að sníða af agnúa en verkefnið mun engu að síður fara af stað,“ segir hún. Sérstökum matshópi verður falið að fara mánaðarlega yfir lykilmælikvarða á framgang verkefnisins og fylgja því eftir.

Stytting vinnutíma fólks í vaktavinnu hefur verulegar breytingar í för með sér að sögn hennar. Vaktavinnufólk sem er í 100% starfi á að standa í stað í launum eða hækka en vinnutími þess mun styttast að lágmarki um 17,3 stundir að jafnaði í mánuði en starfsmönnum sem eru í hlutastarfi er gert kleift að hækka starfshlutfall sitt, a.m.k. um sem nemur styttingu vinnuvikunnar. Það á að hafa í för með sér að allir starfsmenn í hlutastarfi, sem hækka við sig starfshlutfall og vinna sama vinnumagn og áður, hækka í launum.

Bára segir að ein af forsendum verkefnisins sé sú að starfsfólk í hlutastarfi eigi rétt á að auka við sig sem nemur styttingu vinnuvikunnar og af því leiðir að ef starfsmaður hefur t.d. verið í 80% starfi eigi hann rétt á að auka við sig sem nemur u.þ.b. tíu prósentum af starfshlutfalli sínu og þetta hafi starfsfólk þegið í meira en 95% tilvika. „Með þessu hjálpar það líka til við að fylla upp í mönnunargatið sem getur myndast á vinnustað,“ segir hún.

Meta kostnað við breytinguna

Aðspurð segir Bára að ekki sé orðið ljóst hver kostnaðaraukinn verði við styttingu vinnuviku vaktavinnufólks en unnið sé að mati á því hver áhrifin verða.

Stytting vinnuskyldunnar í vaktavinnu veldur því líka að mönnunargat myndast á stofnunum, einkum þar sem flest vaktavinnufólk er í fullu starfi en ekki er komið í ljós hvað þarf mörg stöðugildi til viðbótar vegna þess að sögn hennar. Þetta á einkum við í löggæslunni, fangelsum, tollgæslu og víðar þar sem ráða þarf fleiri starfsmenn. Aftur á móti eru margir sem vinna vaktavinnu í hlutastarfi og þar sem flestir þeirra hafa áhuga á að auka starfshlutfall sitt sem nemur styttingu vinnuvikunnar, ætti það að fara langleiðina með að loka mönnunargatinu en það á einkum við á stofnunum innan heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar.

omfr@mbl.is