Smit Fjöldi fólks hefur farið í sýnatöku vegna hugsanlegs smits. Þeir sem sýna einkenni eru hvattir í sýnatöku.
Smit Fjöldi fólks hefur farið í sýnatöku vegna hugsanlegs smits. Þeir sem sýna einkenni eru hvattir í sýnatöku. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls greindust sex með kórónuveiruna innanlands í gær og var enginn smitaðra í sóttkví við greiningu. Fólki í einangrun hefur fjölgað en færri eru í sóttkví en á föstudag; eru nú 169 í einangrun en 351 í sóttkví.

Alls greindust sex með kórónuveiruna innanlands í gær og var enginn smitaðra í sóttkví við greiningu. Fólki í einangrun hefur fjölgað en færri eru í sóttkví en á föstudag; eru nú 169 í einangrun en 351 í sóttkví. Flestir smitaðra eru á aldrinum 30-39 ára (31), næstflestir á aldrinum 40-49 ára (28) en 25 á aldrinum 18-29 greindust í gær. Greindist 21 með veiruna á aldrinum 50-59 ára, tíu á meðal fólks á sjötugsaldri og tveir á áttræðisaldri.

Líklegt er að dágóður fjöldi fari í sóttkví eftir smittölur sunnudagsins að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis en uppi er grunur um að fjögur kórónuveirusmit sem greindust á vinnustað í Þorlákshöfn um helgina tengist smiti í Vallaskóla á Selfossi. Þá greindist nemandi við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri með Covid-19 og eru nú öll börn í 1.-6. bekk skólans komin í sóttkví.

Spurður hvort til stæði að herða aðgerðir innanlands sagði Þórólfur í samtali við mbl.is í gær: „Það er alltaf verið að skoða það hvenær kemur að því. Þetta voru tiltölulega fá smit í lok síðustu viku og fram á helgina. Nú er aftur smá afturkippur svo við verðum bara að sjá hvað gerist.“

Fimm liggja á sjúkrahúsi vegna veirunnar og er fólkið á breiðu aldursbili, frá þrítugsaldri og upp í rúmlega sjötugt. Enginn er á gjörgæslu.

Bólusetning með bóluefni Janssen hefst í vikunni og lánsskammtar af bóluefni AstraZeneca frá Norðmönnum eru komnir til landsins. Sem stendur er fólk eldra en 60 ára bólusett með efninu en hugsanlega verður enn yngra fólk bólusett, að því er fram kom í umfjöllun mbl.is í gær.

Rannsókn lögreglunar á Austurlandi vegna árshátíðar er lokið og verður send til ákærusviðs, sem tekur ákvörðun um framhaldið.