Tsjernóbyl Fyrrverandi starfsmaður versins minnist hér samstarfsmanna.
Tsjernóbyl Fyrrverandi starfsmaður versins minnist hér samstarfsmanna. — AFP
Þess var minnst í Úkraínu í gær að 35 ár voru þá liðin frá slysinu í Tsjernóbyl-kjarnorkuverinu.

Þess var minnst í Úkraínu í gær að 35 ár voru þá liðin frá slysinu í Tsjernóbyl-kjarnorkuverinu. Volodymyr Zelenskí forseti Úkraínu hvatti í minningarræðu sinni alþjóðasamfélagið til þess að vinna saman að kjarnorkuöryggi svo að hægt yrði að koma í veg fyrir frekari slys af þessu tagi. Sagði Zelenskí það vera sameiginlega ábyrgð og áskorun alþjóðasamfélagsins að tryggja framtíð og öryggi jarðarinnar.

Lagði hann svo blómsveig að minnismerki sem er við slyssvæðið, en það nær í um 30 kílómetra radíus í kringum kjarnorkuverið og hefur verið sagt óbyggilegt um ókomna tíð.

Trúarleiðtogar og uppgjafahermenn sem komu að hreinsunarstarfinu tóku einnig þátt í sérstakri minningarathöfn í höfuðborginni Kænugarði.

Um 30 manns létust vegna slyssins á sínum tíma, en talið er að andlát þúsunda til viðbótar tengist slysinu og mengun af völdum þess.