Hætt Valdís Þóra Jónsdóttir batt enda á keppnisferilinn í vetur.
Hætt Valdís Þóra Jónsdóttir batt enda á keppnisferilinn í vetur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Eftir á að hyggja hefði ég eflaust getað náð betri árangri ef ég hefði ekki þurft að búa við stöðugar fjárhagsáhyggjur,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti...

„Eftir á að hyggja hefði ég eflaust getað náð betri árangri ef ég hefði ekki þurft að búa við stöðugar fjárhagsáhyggjur,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Valdís er frá Akranesi en hún byrjaði ung að æfa íþróttir og æfði lengi vel bæði fótbolta og golf. Hún sneri sér hins vegar alfarið að golfíþróttinni á unglingsárunum og varð Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta sinn árið 2009, þá nítján ára. Valdís gerðist atvinnukylfingur árið 2013, varð fyrst Íslendinga til þess að spila á opna bandaríska meistaramótinu í New Jersey 2017 og þá náði hún bestum árangri sem Íslendingur hefur náð á Evrópumótaröðinni þegar hún endaði í þriðja sæti á Sanya-mótinu í Kína árið 2017.

„Ég var með styrktaraðila sem stóðu þétt við bakið á mér en maður hefði klárlega þurft meira eins og til dæmis listamannalaun eða eitthvað í þá áttina. Maður stóð oft yfir einhverju pútti með það á bak við eyrað að ef maður myndi ekki setja það niður gæti maður ekki borgað ákveðna reikninga um komandi mánaðamót og það tók á,“ sagði Valdís meðal annars.