Sigurlín Hermannsdóttir birtir þessa skemmtilegu hæku á feisbók: Lóan er komin sagði útvarpsþulurinn og röddin brosti. Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri yrkir þessa fallegu vorvísu: Bjartsýni í brjósti fann, burtu kvaddur vetur.

Sigurlín Hermannsdóttir birtir þessa skemmtilegu hæku á feisbók:

Lóan er komin

sagði útvarpsþulurinn

og röddin brosti.

Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri yrkir þessa fallegu vorvísu:

Bjartsýni í brjósti fann,

burtu kvaddur vetur.

Fyrsta lóan lætur mann

líða ávallt betur.

„Fuglarnir komnir á kreik,“ segir Guðmundur Arnfinnsson á Boðnarmiði:

Stelkur gall við stundarhátt,

stokkönd eltir kjói,

hrossagaukur hneggjar dátt,

heyrðist vella spói.

Skoðanaskipti urðu og Kristjana Sigríður Vagnsdóttir spurði: „Var það nágaukur eða vágaukur, sem hneggjaði hátt, eða bara sælugaukur? Máske auðsgaukur, Guðmundur minn?“

Og Guðmundur svaraði:

Lóan syngur bíbí bí

brátt er von á kríu

sælugaukur suðri í

sumri fagnar nýju.

Og óskaði Kristjönu gleðilegs sumars!

Helgi R. Einarsson segist hafa verið að lesa „blaðið okkar“ og yrkir „Í Vogabyggð“:

Gott er ef Jón og Gunna

gagnlega hluti kunna,

um göturnar spranga

og glaðbeitt svo hanga

á grastó við berjarunna.

Hafsteinn Reykjalin Jóhannesson orti um helgina:

Sumarið hér gekk í garð,

gróður ekki hafinn.

Golan köld með gamlan arð,

gerist önnum kafin.

Harpa margoft hefur sýnt,

hún á kosti' og galla.

Gróður hefur tilurð týnt,

túnin fá þá skalla.

Halldór Halldórsson segir: „Hríslan mín á Holtinu öfundar systur sínar í Heiðmörk og víðar, þar sem ángsvítans kettir eru ekki út um allt!“:

Ó, hve mætti' í mínum greinum,

mjúkt að gefa hreiðri ból;

mér er eins og ást í meinum,

að ungum veita frið og skjól!

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is