Áhrifin af leka hins langa samtals við utanríkisráðherra Írans eru rétt að byrja að síast inn

Fyrir allmörgum árum varð hugtakið „litli símamaðurinn“ þekkt. Þar er átt við uppljóstrara sem kemur á framfæri „við almenning“ einhverju sem leynt á að fara, að mati „ráðamanna“, en ekki sé endilega víst að slík leynd væri í þágu almennings eða í anda upplýsingalaga og annarra gildandi fyrirmæla sem tryggja skulu gagnsæi stjórnsýslunnar.

Í Bandaríkjunum hafa mál þróast þannig að „litlu símamennirnir“ eru í miklum meirihluta flokksbundnir demókratar eða ákafir stuðningsmenn þess flokks. Á meðan forsetar sitja úr röðum Demókrataflokksins fækkar uppljóstrurum verulega. Einhver gæti skotið því inn í hér að leiðtogar úr ranni demókrata væru almennt séð miklu ólíklegri til að aðhafast eitthvað vafasamt í valdastarfi sem væri persónulega þýðingarmikið fyrir þá að færi leynt heldur en hinir vondu repúblikanar. Síðari tíma saga staðfestir ekki þá pólitísku óskhyggju. En hún undirstrikar hins vegar með þéttum línum hversu móttækilegur stærsti hluti veglegustu fjölmiðlamanna er fyrir „réttum“ uppljóstrunum. Það hvernig fjölmiðlagerið „fréttir ekkert“ um algjörlega óboðlega framkomu og verndun Hunters Bidens er lítið dæmi en segir mikla sögu.

Í gær kom mál með óvæntum hætti í kastljós fréttanna. Þá var lekið bútum úr samtali sem Zarif utanríkisráðherra Írans átti fyrir skömmu. Talsmenn utanríkisráðuneytisins í Teheran segja lekann ekki aðeins vera lögbrot heldur sé þar um að ræða glæpsamlegt verk af alvarlegasta tagi. Og það gefur í raun augaleið að svo sé, að mati stjórnvalda í Íran. Mál sem varða kjarnorkuvopn lúta hæsta trúnaðarstigi allra kjarnorkuvelda og ekki síður þeirra ríkja sem eru að rembast við að komast í þann hóp og eru Norður-Kórea og Íran þar ofarlega á blaði.

Það kom í byrjun á óvart að talsmaður Zarifs utanríkisráðherra ber ekki við að afneita þeim samtalsbútum sem þegar hafa lekið. Þeir draga þó upp þá mynd að þarna hafi verið rætt við velþekktan hagfræðing sem notið hafi mikils trausts og samtalið hafi alls ekki verið ætlað til birtingar. Það var beinlínis hugsað til fróðleiks fyrir síðari tíma. Og þá væri verið að hugsa til framtíðar sem langt væri undan. Samtalið hefði tekið einar sjö klukkustundir í upptöku! En hver var í hlutverki „litla símamansins“? Enn er spjótum ekki beint á neinn. En ágiskanir beinast að andstæðingum ráðherrans í íranska stjórnkerfinu og samherja hans í æðstu lögum valdakerfisins. Þar er m.a. átt við Rouhani, forseta Írans, sem sækist eftir endurkjöri í sumar. Líklegt er talið að æðstaklerki Írans og lokapunkti hins endanlega valds sé ekki skemmt. Í samtalinu talar Zarif vissulega opinskátt um hversu veigalítið vald hans sjálfs sé borið saman við stöðu Ayatollahs Alis Kahmeinis. En í þeirri andrá ræðir hann einnig um hvílíkt ofurhögg Bandaríkin hafi veitt Íran þegar þau komu öllum heiminum á óvart með morðinu á Qassem Soleimani hershöfðingja í janúar 2020.

En það sem vekur mesta athygli í hinum nýlegu lekum er það sem birst hefur í NYT og fleiri miðlum og tengist John Kerry fyrrverandi utanríkisráðherra. Hann á nú sæti í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna í stjórn Joes Bidens í krafti stöðu sinnar sem sérstakur útsendari forsetans í hamfarahlýnunarmálum.

Javad Zarif fullyrðir í nýbirtum bút að John Kerry hafi, sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagt sér frá fleiri en 200 aðgerðum Ísraelsmanna sem beindust að Sýrlandi!

Ekki er langt síðan John Kerry var sakaður um að hafa átt samstarf við stjórnvöld í Teheran í sameiginlegri viðleitni við að grafa undan efnahagsþvingunum Trumps forseta sem viðurkennt var að voru farnar að hafa alvarleg áhrif á stöðu landsins. Sérfræðingar segja að þessar alvarlegu upplýsingar um framferði Johns Kerrys séu rétt nýbyrjaðar að síast inn vestra svo ekki sé talað um hjá bandamönnum um allan heim!

Í Íran og utan þess eru hafnar vangaveltur um það hvort Zarif utanríkisráðherra geti lifað þessa atburði af. Sumir ræða þá um stjórnmálalega líftóru hans en aðrir um hina persónulegu. Falli menn í alvarlega ónáð þar eystra getur fallið orðið mikið og endar stundum ekki fyrr en teygst hefur úr reipinu sem bundið er við gálgann. Utanríkisráðherrann hefur lengi verið talinn gefa stjórnvöldum í Teheran manneskjulegri brag en ella væri. En hann á sína andstæðinga í hópi herskárri ráðamanna og eins á meðal byltingarvarðanna og getgáturnar eru að á meðal þeirra séu öflugir menn sem harma ekki að Zarif hafi talað rækilega af sér.