Erla Guðbjörg Sigurðardóttir (Bubba) fæddist í Holtskoti í Skagafirði 3. febrúar 1935 en ólst upp á Marbæli í Skagafirði. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 17. apríl 2021. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Efemía Jónsdóttir frá Grófargili í Seyluhreppi í Skagafirði og Sigurður Sigurjónsson frá Geldingaholti í Seyluhreppi. Systkini hennar eru Guðrún, Jón Einar, Sigríður Sigurlína, Árni Theódór (dó ungur), Árni Sigurjón og Sigrún.

Erla Guðbjörg giftist hinn 7. nóvember 1959 Haraldi Sigfúsi Magnússyni múrarameistara, frjálsíþróttafrömuði og rithöfundi, f. 25. júní 1931. Foreldrar hans voru Anna Sigfúsína Sigfúsdóttir og maður hennar Magnús Sölvason. Börn Erlu Guðbjargar og Haraldar eru: 1) Anna íþróttakennari, f. 1959, maki Hallgrímur Tómas Ragnarsson. Börn þeirra eru a) Ragnar Tómas, maki Ingunn Helga Árnadóttir. Þeirra synir eru Hallgrímur Tómas og Árni Tómas, b) Haraldur Tómas, c) Erla Guðbjörg, maki Haukur Svansson. 2) Sigurður byggingarverkfræðingur, f. 1960, maki Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, sonur þeirra er Halldór Valgarður. 3) Magnús rafmagnsverkfræðingur, f. 1961, maki Marisa Quinonez Corpuz. Þeirra börn eru a) Ingibjörg Patricia, maki Bjartur Blær Gunnlaugsson, b) Guðbjörg Efemía, c) Haraldur Sigfús og d) Sölvi Svavar. Fyrir átti Haraldur Önnu Soffíu, f. 1957, maki Bragi Guðmundsson. Börn þeirra eru a) Erna Rós, maki Einar Sveinn Jónsson, börn þeirra eru Bragi Snær, Jón Breki, Soffía Rut og Anna Ýr, b) Guðný Rut, maki Reimar Viðarsson, börn þeirra eru Viðar Ernir, Gunnar Bragi og Björn Helgi, c) Gunnar Örn, maki Ingibjörg Hrönn Jónsdóttir. Þeirra dóttir er Kristín Sara.

Erla Guðbjörg lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Sauðárkróks árið 1950. Hún fór ung suður til Reykjavíkur og vann á saumastofu en fór svo aftur norður í Skagafjörð árið 1959 þar sem hún giftist og stofnaði fjölskyldu með Haraldi. Árið 1965 fluttu þau ásamt þremur börnum sínum til Hafnarfjarðar og hafa búið þar æ síðan. Erla Guðbjörg starfaði á Sólvangi frá 1980 til 2002 en helgaði sig að öðru leyti húsmóður- og uppeldisstörfum.

Útför Erlu Guðbjargar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju 27. apríl 2021 og hefst athöfnin klukkan 13. Vegna aðstæðna verða einungis nánustu ættingjar og vinir viðstaddir.

Steymt verður frá útför:

https://youtu.be/Z0HsH6CSOxs

Streymishlekk má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Það er ekki aðeins hugurinn sem geymir minningar; síendurteknar hreyfingar festast einnig í líkamanum. Vinstri handleggurinn, til dæmis, gæti enn teygt sig blindandi inn um eldhúsgluggann hjá ömmu, lyft hvíta blómapottinum og krækt í lyklana að bakdyrunum. Þessi hreyfing var endurtekin svo í sífellu í bernsku minni að hún lifir í líkamanum eins og minning um trúarathöfn. Ég man enn eftir hljóðinu í blómapottinum er hann nuddaðist við flísarnar. Man eftir dynknum í hurðinni er hún laukst upp. Eftir smellinum í viðarskápnum þegar hann opnaðist. Eftir Royal-búðingnum. Hvítu skálinni. Þeytaranum – man hversu gott það var að koma til ömmu, jafnvel þótt hún væri ekki heima, því sál hennar var samofin húsinu.

Á Hverfisgötunni naut ég æskunnar í fullkomnu refsileysi – því amma var hvorki löggjafi, lögreglumaður né dómari. Hún var hófsemdin og hlýhugurinn holdgetin, hafin yfir hroka og hræsni, yfir skinhelgi og skipanir. Amma skammaði mann aldrei fyrir að renna sér of glæfralega niður stigann, fyrir að klára mjólkina eða búðinginn, fyrir að breyta stofunni í körfuboltavöll – eða fyrir að fara of frjálslega með lyklavöldin. Öfgarnar þekkti amma ekki, nema þegar það kom að hlátrinum, og með henni var gott að tilbiðja fegurð hversdagsleikans. En í stað kaleiks og brauðs var það kaffibolli og vöfflur, og, einhvers staðar, skammt undan, köttur (og eitt sinn hundur) sem loddi við sálarhlýjuna hennar ömmu.

Algengt er að eiga eitthvað ósagt við þann sem maður elskar á kveðjustundinni. En þannig var það ekki með mig og ömmu. Þó svo að það hafi verið ánægjulegt að heyra þig ræða um fyrstu sumrin þín í borginni, þegar við keyrðum saman í fyrstu sprautuna, snerist þetta nú sjaldnast um orð með þér. Öllu heldur var það nándin og nærveran. Það var gott að sitja með þér og þegja, að drekka í sig þína friðsælu áru. Og það var þessi einstaka verund sem dró mig sífellt að Hverfisgötunni, eins og trúrækinn mann að bænahúsi. Því var fátt erfiðara í upphafi faraldursins en að standa tvístígandi í forstofunni vitandi að ég mætti ekki ganga lengra, því það væri hrein sjálfselska, að verða áru þinnar aðnjótandi á svo tvísýnum tímum.

Ég sé þig ganga niður Smyrlahraunið, eða upp Linnetsstíginn, með innkaupapoka á stærð við heybagga sinn í hvorri hendi, axlirnar breiðar, höfuðið svolítið álútt, skrefin ákveðin og staðföst. Þú varst eins og Vatnsberinn hans Ásmundar Sveinssonar, nema tignarlegri – gekkst þinn veg með þína byrði án þess að kveinka þér.

Ég er þakklátur fyrir að Hallgrímur og Árni fengu að kynnast þér. Að þeir hafi orðið þess aðnjótandi, þó aðeins í þennan stutta tíma, að dvelja í návist þinni. Duðinn kennir okkur að lífið er stutt, og er þetta lexía sem þú lærðir betur en aðrir. Þú lifðir í sátt við tilveruna og annað fólk, naust návistar barnanna, dýranna og náttúrunnar. Þegar afi stríddi mér stundum fyrir að koma ekki nógu oft í heimsókn varstu fljót að koma mér til varnar: „Æi, ég held við séum nú bara heppin.“ En það voru við sem vorum heppin.

Hvíldu í friði, elsku amma.

Ragnar Tómas

Hallgrímsson.

Elsku Bubba okkar, amma og langamma, takk fyrir að hafa alltaf haft tíma til að taka á móti okkur með bros á vör. Þú varst svo falleg og góð kona sem okkur þótti ofur vænt um og alltaf gott að koma á Hverfisgötuna til ykkar og eins og strákarnir sögðu: það var alltaf besti mjólkurgrauturinn hjá þér. Þú varst alltaf svo glöð þegar við komum og stolt af okkur og strákunum, ég verð alltaf þakklát fyrir að hafa átt þig að í lífi okkar megir þú hvíla í friði

Þín

Guðný Rut og strákarnir.

Elsku amma Bubba. Svo margar stundir rifjast upp fyrir mér með þér; við eldhúsborðið að borða banana- eða döðlubrauðið þitt, bústaðaferðirnar á æskuslóðirnar þínar í Skagafirðinum, kvöldmáltíðirnar sem þú heimtaðir alltaf að ég skyldi nú gera betri skil. Það var svo gott að koma til þín og tala um allt það sem lá mér á hjarta. Þú tókst öllum opnum örmum og varst alltaf tilbúin að hlusta. Alltaf þegar mér datt í hug að læra eitthvað nýtt, þá varstu tilbúin að kenna: gera sultu, sauma, prjóna og hekla. Þú lagðir lokahönd á allt mitt prjón, hvort sem það var að ganga frá endum eða þvo og leggja flíkina.

Takk fyrir að vera þú. Þú baðst aldrei um hól, en þú varst einstök og sterk fyrirmynd. Þú varst vinkona mín sem var ætíð til staðar. Hinsta kveðjan okkar var stutt, en það sem þú kenndir mun fylgja mér alla tíð. Minningarnar okkar verða ávallt vel geymdar perlur.

Blessuð sé minning þín.

Þín ömmustelpa,

Erla Guðbjörg

Hallgrímsdóttir.

Ég hef alltaf verið montin af þér, amma mín. Þú varst það besta sem ég átti og studdir allt sem ég tók mér fyrir hendur. Ég var svo heppin að eiga þig að og hef alltaf sagt öllum hvað við áttum sterkt og gott samband. Þú varst mikið meira en amma, þú varst besta vinkonan mín.

Ég hef alltaf verið ömmustelpa og fannst best að gista hjá þér. Ég man eftir því að þykjast vera veik bara til að fá frí frá skólanum því ég vissi að ég fengi að fara til ömmu. Seinustu sumur þegar Bjartur fór á æfingar á kvöldin kom ég bara til þín. Við spjölluðum og horfðum á sjónvarpið langt fram á kvöld. Við hlökkuðum til sumarsins og töldum niður dagana þar til skólinn kláraðist. Þá þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur af náminu og við gátum notið okkar dýrmætu kvöldstunda.

Ég er svo þakklát að Bjartur hafi fengið að kynnast þér og hann var svo duglegur að veita afa félagsskap svo ég fengi að vera ein með þér. Við ætlum að hugsa vel um afa og kisu.

Ég bjóst aldrei við því að einn daginn gætir þú farið frá mér. Ég á erfitt með að horfast í augu við það, það er svo erfitt að átta sig á að þú sért farin frá okkur, þetta var svo óvænt. Ég hélt að við ættum mörg ár og miklu fleiri stundir saman en ég verð ævinlega þakklát fyrir allar þær dýrmætu stundir sem við eigum saman. Seinustu ár eru ógleymanleg, ég vildi bæta upp þær heimsóknir sem töpuðust vegna heimsfaraldursins. Við ákváðum alltaf hvenær næsti hittingur ætti að vera og það aldrei langt á milli.

Mitt helsta áhugamál er prjón sem ég fékk frá þér og ég er svo þakklát fyrir alla kennsluna og þolinmæðina, þetta var okkar sameiginlega áhugamál. Ég lét þig sjá um að lesa uppskriftirnar og þú gafst mér prjónaheimavinnu.

Ég mun sakna þess að geta komið til ömmu, slakað á og prjónað, ég mun sakna þess að fá aðstoð í prjón, koma í mat, fá lánaðar fínu skyrturnar þínar, fá úrklippur úr blöðum, að stússast með þér/fyrir þig, að láta þig planta niður öllum ávöxtum sem ég borða, koma þegar mér leiðist, að skoða myndir með þér og heyra allar sögur á bak við hverja einustu, heyra fréttir í gegnum þig, baka bolludagsbollur með þér, ég mun sakna þess að sjá um að setja rúllur í hárið á þér, ég mun sakna þess að heyra fallegu röddina þína og telja niður allt sem er á næstunni eins og afmælið mitt, þú rétt svo misstir af því. Mest af öllu mun ég sakna þín, þetta er svo erfitt og verður alltaf erfitt.

Með þessum fáu orðum á ég svo bágt með að kveðja þig, ég var ekki tilbúin, hefði í raun aldrei verið tilbúin. Ég gæfi allt til þess að fá þig aftur til þess að knúsa þig einu sinni enn aðeins fastar og spjalla aðeins lengur, hlakka til að hitta þig einn daginn, ég átti eftir að segja þér svo margt, við áttum eftir að gera svo margt. Ég verð ævinlega þakklát fyrir þig og allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Ég mun sakna þín og hugsa mikið til þín, kisi líka, hann er voða týndur án þín, við bæði.

Blessuð sé minning þín.

Þín ömmustelpa,

Ingibjörg Patricia Magnúsdóttir.

Með Bubbu er gengin einstök kona sem gefnir höfðu verið allir bestu kostir sem hugsast getur, kostir sem mótast hafa í okkar harðbýla landi í þúsund ár; heiðarleiki, vinnusemi, nægjusemi, hógværð, gáfur, samúð og ástríki. Bubba fæddist í torfbæ í Skagafirði en fluttist í steinhúsið á Marbæli og þaðan í Hafnarfjörð. Hún bjó á Hverfisgötu 23c alla tíð síðan en hjartað yfirgaf aldrei Skagafjörðinn. Á Marbæli átti hún með systkinum sínum bústað á jörðinni sem bróðir hennar og fjölskylda ræktar enn svo mynduglega.

Börnin þeirra Halla voru ung þegar fjölskyldan fluttist suður. Brátt breyttist heimilið í e.k. félagsheimili Frjálsíþróttdeildar FH. Hún var sá þögli bakhjarl manns síns sem átti eftir að móta og bæta líf hundruða ungmenna. Og hún var bakhjarlinn að þeirri mannrækt sem hundruð, ef ekki þúsundir, hafa notið frá þeim hjónum.

Gestkvæmara heimili er erfitt að ýminda sér. Aldrei bar gest að garði án þess að borið væri fram kaffi og meðlæti. Gestrisni sem hefur verið aðall íslenskra heimila um aldir. Örfáum klukkutímum fyrir andlátið ætluðum við hjónin að afþakka meðlætið, bárum fyrir megrun, en sáum strax það sem við vissum að óhugsandi væri að hafna örlæti Bubbu. Engin leið var þá að sjá hve stutt væri í ævilokin enda Bubba af þeim meiði sem kveinkar sér aldrei.

Þegar barnabörnin komu var Bubba sú amma sem Laxness lýsir. Betra getur barn ekki óskað sér. Og þess nutu ungir foreldrar sem reyndu að koma undir sig fótunum. Í Bubbu var sú stoð sem mest er um verð. Hún var hæglát, hæversk, elskurík og mátti ekkert aumt sjá.

Lífið varð léttara þegar þau Halli dvöldu hjá okkur í Ameríkunni. Að kveðjulokum óskaði maður ávallt að þau hefðu dvalið lengur. Í tæp 40 ár flaug ekki eitt styggðaryrði, engan skugga bar á djúpa vináttu, ekkert atvik sem eftirsjá er að. Það er Bubbu að þakka að ég skil ekki tengdamömmubrandara.

Bubba var með eindæmum minnug. Hún var hláturmild og sögurnar urðu bestar þegar hún hló svo mikið að hún mátti vart mæla. Með henni sá ég hluti í nýju ljósi. Hún fræddi mig um það sem framhjá hafði flogið. Og mannkostirnir endurspegluðu lífsýnina og víkkuðu um leið mína eigin.

Kallið kom óvænt og skyndilega. Við erum þakklát fyrir að börn og afkomendur gátu sameinast við dánarbeðið í hjartnæmri kveðjustund.

Hafðu hjartans þökk fyrir allt og allt elsku Bubba.

Hallgrímur Tómas Ragnarsson

Á kveðjustund lítum við yfir liðna tíð, kynni okkar við þá sem kvaddir eru og íhugum eiginleika þeirra. Við rennum okkur í huganum í gegnum samverustundir allt aftur til fyrstu kynna.

Á þessari stundu mætir mér hlýtt og gefandi viðmót Bubbu og Halla til svo margra ára á svo ótal mörgum mikilvægum stundum stórfjölskyldunnar.

Kynnin hófust þegar Hallgrímur Tómas bróðir minn var svo lánsamur að giftast Önnu, þeirra dásamlegu dóttur.

Hljóðlát og íhugul voru þessi einstöku hjón og mannvinir ávallt með bros á vör.

Þótt ég kveðji Bubbu nú með stuttum skrifum er erfitt að rifja upp og minnast stundanna án þess að skynja þau hjónin sem heild í lífsins tré. Myndin sem situr eftir innra með mér af Bubbu er af greindri og næmri konu sem lét sig varða tilfinningar og líðan annarra í hvívetna.

Bubba var ekki aðeins dásamleg móðir, amma og tengdamóðir heldur teygði mannkærleikur hennar sig langt út fyrir þann fjölskylduhring.

Þegar móðir okkar Hallgríms var orðin ekkja og þau Anna og Hallgrímur búsett í Bandaríkjunum leitaði frú Nenna Schram ósjaldan til Hafnarfjarðar á fund Bubbu og Halla. Á Hverfisgötu 23 var hlýtt og bjart allan ársins hring og því naut hún þar mikilvægra samvista og áheyrnar sem kveiktu ljós.

Ljósið og hin stóíska ró Bubbu voru engu lík og þá skipti ekki máli hvort hún var stödd í margmenni eða heima í stofunni sinni á Hverfisgötunni. Þegar ekki hafði gefist tóm til að setjast niður með Bubbu í fjölmenni og fararsnið var komið á gesti brást það ekki að Bubba fann leið í gegnum skvaldrandi mannþröngina til að tengja og spyrja fregna um hagi og líðan með sínu umfaðmandi augnaráði.

Kvæðið „Kveiktu á ljósi“ tel ég að skírskoti fallega inn í lífshlaup þitt, elsku Bubba, og þá lífssýn sem ég tel einkenna það. Ég efast ekki um að ljósið þitt mun halda áfram að lýsa þótt á annan hátt sé, inn í líf allra þeirra sem kveðja þig nú og syrgja.

Kveiktu á ljósi

Kveiktu á ljósi hvar sem þú ert

kveikirðu á öðru er betur að gert

þó loginn sé veikur lýsir hann sterkt

og ekki gleyma öðru ljósi að morgni

Kveiktu á ljósi hvert sem þú ferð

hvað svo sem byrðin er þung sem

þú berð

láttu það lýsa á allt sem þú sérð

og ekki gleyma öðru ljósi að morgni

Þó viljinn sé veikur er vonin samt sterk

koma má mörgu og miklu í verk

það sem þú gerir er það sem þú ert

þín verður minnst fyrir það sem

var gert

Kveiktu á ljósi hvenær sem er

láttu það lýsa innra með þér

hvernig sem lánast og leikritið fer

og ekki gleyma öðru ljósi að morgni

(Valgeir Guðjónsson)

Ásta Kristrún Ragnarsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Yndisleg kona er fallin frá, hún Bubba okkar. Bubba reyndist okkur vel, alltaf ljúf og góð. Það verður tómlegt að koma í kaffi á Hverfisgötuna og engin Bubba. Ég sendi öllum þeim sem eiga um sárt að binda innilegar samúðarkveðjur.
Megir þú hvíla í friði elsku Bubba okkar.
Anna Soffía (Anna Fía) og Bragi.