Bretland Boris Johnson var í Wales í gær vegna kosningabaráttunnar og þvertók fyrir meint ummæli.
Bretland Boris Johnson var í Wales í gær vegna kosningabaráttunnar og þvertók fyrir meint ummæli. — AFP
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafnaði í gær ásökunum þess efnis að hann hefði sagst frekar leyfa „líkunum að hrannast upp“ en að fyrirskipa þriðja útgöngubannið þar í landi.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafnaði í gær ásökunum þess efnis að hann hefði sagst frekar leyfa „líkunum að hrannast upp“ en að fyrirskipa þriðja útgöngubannið þar í landi. Voru ummælin sögð hafa fallið í bræði eftir að Johnson varð undir í ríkisstjórninni um annað útgöngubannið af þremur sem sett hafa verið á í heimsfaraldrinum.

Ásakanirnar birtust í breska dagblaðinu Daily Mail í gærmorgun, en blaðið hefur haft sig í frammi í deilu Johnsons við Dominic Cummings, fyrrverandi aðalráðgjafa forsætisráðherrans, um það hver standi á bak við upplýsingaleka úr ríkisstjórninni.

Cummings hefur látið í veðri vaka að hann hafi ekki staðið á bak við lekann, en lét þess getið um leið að Johnson hefði viljað kanna hvort fjárhagslegir bakhjarlar Íhaldsflokksins gætu staðið straum af nauðsynlegum endurbótum á efri hæð Downingstrætis 11, en þar er íbúð Johnsons og unnustu hans, Carrie Symonds.

Simon Case, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, sat fyrir svörum hjá þingmönnum í gær, en þeir vildu meðal annars forvitnast um endurbæturnar, sem og það hvort Case hefði lagt að Johnson að skipta um símanúmer, þar sem of margir sem myndu vilja fyrirgreiðslu mála sinna vissu númerið og væru vísir til þess að reyna að hafa áhrif á Johnson. Gerði Case lítið úr þeirri frásögn.

Fregnirnar af meintum ummælum Johnsons vöktu mikla athygli í Bretlandi í gær, og kröfðust bæði skoskir og velskir þjóðernissinnar afsagnar Johnsons reyndust þær á rökum reistar. Sir Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði fregnirnar vekja undrun og kallaði eftir ítarlegri rannsókn á ásökunum Cummings. Samráðherrar Johnsons vörðu hins vegar Johnson og sögðu ásakanirnar lið í kosningabaráttu, en sveitarstjórnarkosningar fara fram 6. maí næstkomandi.