Breyting Magnús Jaró, rafvirkjameistari og samstarfsmaður Ferðafélagsins, við hleðslustaurinn í Langadal.
Breyting Magnús Jaró, rafvirkjameistari og samstarfsmaður Ferðafélagsins, við hleðslustaurinn í Langadal. — Ljósmynd/Stefán Jökull.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Hleðslustöðvar fyrir rafdrifna bíla eru nú komnar upp í Langadal og Húsadal í Þórsmörk, tvær á hvorum stað.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Hleðslustöðvar fyrir rafdrifna bíla eru nú komnar upp í Langadal og Húsadal í Þórsmörk, tvær á hvorum stað. Enn þá mun lítið vera um að stærri jeppar séu rafdrifnir, en Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að von sé á öflugum rafmagnsjeppum á markað í haust eða á næsta ári og geti þeir þá fengið hleðslu hjá FÍ í Þórsmörk. Hann segir að á góðum degi þegar lítið sé í ánum myndu reyndir menn á stærri rafdrifnum jepplingum treysta sér til að aka yfir árnar á leiðinni í Langadal.

Páll rifjar upp að fyrir um áratug keypti Ferðafélagið aðstöðu Kynnisferða og Austurferða í Húsadal og árið 2013 lét félagið leggja rafmagn frá Þórólfsfelli í Fljótshlíð undir Markarfljót og í Húsadal.

Umhverfisvænt og öruggt

Í fyrra var rafmagn síðan lagt áfram í Langadal og er nú komið í Skagfjörðsskála og í skálavarðarhús. Um þessar mundir er verið að leggja rafmagn í hús í Skáldagili, en þar er aðstaða fyrir sjálfboðaliða víðs vegar að, sem vinna sumarlangt í Þórsmörk.

„Þetta gerbreytir öllum rekstri fyrir okkur og gerir hann umhverfisvænni og öruggari,“ segir Páll. „Flutningar á olíu á þungum bílum yfir árnar á leið í Langadal heyra nú sögunni til. Nú getum við kynt skálana að vetrarlagi með rafmagni, sem auðveldar heils árs opnun. Við horfum til þess að endurnýja eða byggja nýjan Skagfjörðsskála og þá nýtist rafmagnið ekki aðeins til lýsingar og upphitunar í meginrými heldur einnig í eldhúsi og öllum vistarverum.“