Þór Varðskipið við bryggju í heiðursheimahöfn. Þórsnes SH í bakgrunni.
Þór Varðskipið við bryggju í heiðursheimahöfn. Þórsnes SH í bakgrunni. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Varðskipið Þór eignaðist í gær heiðursheimahöfn á Þórshöfn og þykir það vel við hæfi að skipið eigi þar hafnarskjól, þar sem bæði skipið og höfnin eru nefnd eftir hinu forna goði Þór, eins og segir í samþykkt hafnarstjórnar...

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn Varðskipið Þór eignaðist í gær heiðursheimahöfn á Þórshöfn og þykir það vel við hæfi að skipið eigi þar hafnarskjól, þar sem bæði skipið og höfnin eru nefnd eftir hinu forna goði Þór, eins og segir í samþykkt hafnarstjórnar Þórshafnar. Þessu fylgir einnig að Þór verður undanþeginn hafnargjöldum vegna heimsókna varðskipsins til Þórshafnar.

Jónas Egilsson sveitarstjóri í Langanesbyggð sagði að þessi hugmynd forsvarsmanna sveitarfélagsins hefði mælst vel fyrir og fengið einróma samþykki hafnarstjórnar, sem og hjá yfirstjórn Landhelgisgæslu og varðskipsins Þórs.

Formleg móttaka var haldin í gær um borð í Þór að viðstöddum fulltrúum sveitarstjórnar og tók Páll Geirdal skipherra þar á móti skriflegri samþykkt hafnarstjórnar varðandi þessa ákvörðun.

Jónas Egilsson sveitarstjóri þakkaði fyrir góð störf varðskipanna nú sem fyrr og minnti á mikilvægi þess að vita af traustum bakhjarli á hafinu ef eitthvað bjátaði á en á Þórshöfn er sjávarútvegur aðalundirstaða atvinnulífs og sagði hann Þór velkominn til Þórshafnar sem oftast. Oddviti Langanesbyggðar, Þorsteinn Æ. Egilsson, benti einnig á þríþætta tengingu Landhelgisgæslunnar við Þórshöfn; í lofti, á láði og legi, en það er ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli, þyrluþjónusta á Þórshafnarvelli í samstarfi við björgunarsveitina Hafliða og loks höfnin sjálf.

Nemendur Grunnskólans á Þórshöfn nutu einnig góðs af veru Þórs því þeim var öllum boðið að skoða skipið í gær við mikla ánægju.

Þór kom til Þórshafnar í gær eftir að hafa aðstoðað áhöfnina á Þórsnesi SH-109 eftir að skipið varð vélarvana. Voru sýni tekin úr áhöfninni í varúðarskyni í kjölfar þess að fjórir sýndu einkenni vekinda. Reyndist ekki vera um kórónuveirusmit að ræða.