Stjórnarflokkar Samstarfið í ríkisstjórninni hefur gengið betur en margir bjuggust við, en samt er töluverðra breytinga að vænta á framboðslistum.
Stjórnarflokkar Samstarfið í ríkisstjórninni hefur gengið betur en margir bjuggust við, en samt er töluverðra breytinga að vænta á framboðslistum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Spennan í stjórnmálalífinu fyrir alþingiskosningarnar í haust er nánast áþreifanleg, en það á ekki síst við hjá ríkisstjórnarflokkunum til hægri og vinstri.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Spennan í stjórnmálalífinu fyrir alþingiskosningarnar í haust er nánast áþreifanleg, en það á ekki síst við hjá ríkisstjórnarflokkunum til hægri og vinstri.

Hjá Sjálfstæðisflokknum blasa við allnokkrar breytingar, þar er oddvitaslagur í uppsiglingu í öllum kjördæmum nema Suðvesturkjördæmi. Í Norðvesturkjördæmi munu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður og ráðherra og Haraldur Benediktsson þingmaður eigast við, í Norðausturkjördæmi bítast þingmaðurinn Njáll Trausti Friðbertsson og Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi, um efsta sætið, og í Suðurkjördæmi munu þau Guðrún Hafsteinsdóttir iðnrekandi og Vilhjálmur Árnason þingmaður keppa um efsta sætið.

Þar má alls staðar segja að um eins konar kynslóðakjör sé að ræða, bæði hvað varðar aldur frambjóðenda og þingreynslu, að þar takist á fortíð og framtíð á einhvern hátt, þar sem nýtt eða nýrra fólk er að skora reyndara fólk á hólm. Ekki á það sjálfsagt síður við í Reykjavík, þar sem senn verður boðað til prófkjörs, að líkindum í fyrstu viku júní. Sú tímasetning hefur raunar sætt nokkurri gagnrýni; hún sé afar skömm og gefi núverandi þingmönnum aukið forskot á nýtt fólk, sem kunni að vilja gefa kost á sér og þurfi rýmri tíma en þingmennirnir til þess að kynna sig.

Eftir sem áður ganga allir út frá því sem vísu að þar verði aðalbaráttan, þar sem bæði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra muni sækjast eftir fyrsta sæti. Á þeim tveimur má sjálfsagt finna einhvern skoðanamun ef grannt er skoðað, en fyrst og fremst ræðir þar um kynslóðaval. Fáum blandast hugur um að Áslaug Arna sé framtíðarleiðtogaefni flokks síns og valið kann að snúast um það fremur en eitthvert uppgjör milli þeirra tveggja.

Þessa dagana vekur þó mesta athygli hvernig liðskipanin er á listum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur fylgi stjórnmálaflokka furðulítið breyst undanfarin misseri, en ekki síst horfa menn þó til þess að ríkisstjórnin hefur átt mun meira fylgi að fagna en flokkarnir sem mynda hana. Þar að baki geta búið ýmsar ástæður. Rótið í stjórnmálalífinu eftir bankahrunið 2008 er ekki enn afstaðið gagnvart bæði stjórnmálaflokkum og einstökum stjórnmálamönnum, þótt kannanir bendi ótvírætt til þess að fólk felli sig almennt vel við ríkisstjórnina.

Falla í forvali

Þar er einkum horft til forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem nýtur verulegra persónuvinsælda umfram vinsældir flokks hennar. Það á svo eftir að koma í ljós hvað fólk gerir í kjörklefanum.

Í því samhengi er mjög athyglisvert að horfa til örlaga þeirra þingmanna sem flokkurinn fékk kjörna í síðustu kosningum. Ari Trausti Guðmundsson leitar ekki endurkjörs og útlit er fyrir að nýr þingmaður komi í hans stað, en vafamál að flokkurinn finni meira fylgi í Suðurkjördæmi. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokksins, féll í prófkjöri í Norðausturkjördæmi. Katrín Jakobsdóttir er skotheld í sínu kjördæmi og ekki ósennilegt að hún auki fylgi við flokk sinn í Reykjavík. Kolbeinn Óttarsson Proppé, varaformaður þingflokksins, reyndi fyrir sér í Suðurkjördæmi og féll í forvali þar en ætlar að reyna aftur fyrir sér í forvali í Reykjavík sem haldið verður dagana 16. til 19. maí. Lilja Rafney Magnúsdóttir féll í forvali í Norðvesturkjördæmi og vafamál að hún nái inn á þing. Ólafur Þór Gunnarsson, einkar starfsamur þingmaður, féll í forvali í Suðvesturkjördæmi fyrir umhverfisráðherranum Guðmundi Inga Guðbrandssyni og leitar ekki fyrir sér í Reykjavík eins og sumir töldu að hann gæti gert, svo hann er úr leik. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og stofnandi flokksins, ætlar að láta af þingmennsku eftir áratugalangan þingferil. Steinunn Þóra Árnadóttir leitar aftur sætis í Reykjavík, sem hún á góðan möguleika á að halda, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sömuleiðis. Rósa Björk Brynjólfsdóttir hætti í flokknum og verður í framboði fyrir Samfylkinguna og eins hætti Andrés Ingi Jónsson, sem fer fram fyrir Pírata.

Þetta má heita ótrúleg blóðtaka fyrir hvaða stjórnmálaflokk sem er, en enn frekar fyrir forystuflokk í ríkisstjórn. Þar verður því mikið um nýtt fólk í forystu í komandi kosningum og misvel kynnt. Framboðslistar Vinstri-grænna munu vafalaust njóta vinsælda forsætisráðherrans að einhverju marki, jafnvel miklu, en það mun reyna mikið á þetta nýja fólk og samanburð þess við frambjóðendur hinna flokkanna. Spennan eykst!