Jón Bjarnason, bóndi í Fremri-Hvestu, fæddist 13. janúar 1955. Hann lést 12. apríl 2021.

Útför Jóns fór fram 24. apríl 2021.

Fallinn er frá frændi minn Jón Bjarnason bóndi í Hvestu. Við frændi vorum mestu mátar og hans verður sárt saknað.

Ég man vel eftir okkar fyrstu kynnum því sumarið 1971 stigum við bræður, fimm og sex ára gamlir, fyrst inn í Gamla bæinn í Hvestu, þá á ferðalagi með foreldrum okkar. Þetta er gamalt norskt tréhús sem pabbi fæddist í og þar eyddi hann fyrstu æviárunum. Þá bjó í Gamla bænum Bjarni bróðir pabba ásamt Rögnu konu sinni, en þau áttu fimmtán börn og var Jón frændi áttundi í systkinaröðinni. Ég man vel hversu hissa við bræður urðum að sjá svo margar frænkur og frændur við eldhúsborðið í þessu vinalega húsi, en þau tóku okkur með kosti og kynjum. Næst lágu leiðir okkar frænda saman í Hvestu þegar ég kom með mína eigin fjölskyldu í heimsókn, þá búsettur í Svíþjóð en í sumarfríi á Íslandi. Frændi hafði þá tekið við búinu af föður sínum og var ekkert að skafa af hlutunum við eldhúsborðið – eitthvað sem börnin mín muna enn þann dag í dag. Sama á við um alla þá sem voru svo heppnir að fá að kynnast frænda – hann reyndist öllum sem hittu hann eftirminnilegur karakter sem aldrei eltist við að vera eins og allir aðrir. En undir hrjúfu yfirborðinu leyndist hlýr og bóngóður maður með einhver fallegustu bláu augu sem ég hef séð. Gestrisinn var hann líka með eindæmum og alltaf var gaman að heimsækja þau Höllu í Hvestu. En það var ekki aðeins vinátta Jóns og Höllu sem kallaði mig vestur – heldur einstök náttúrufegurðin í Ketildölum og þá sérstaklega í Hvestudal. Þessi kynni hafa verið mér og fjölskyldu minni ómetanleg.

Síðustu árin reyndust frænda erfið því á fáeinum árum greindist hann með þrjú aðskilin illvíg mein, m.a. í raddböndum, og varð því að notast við talventil. Enn skæðara mein greindist síðan í lunga og kom það í minn hlut að fjarlægja það með umfangsmikilli skurðaðgerð. Um leið varð ég læknir hans og vinátta okkar varð enn nánari – og bar aldrei skugga á hana. Langvarandi veikindi tóku hins vegar sinn toll og gamall draugur, sem ekki hafði látið á sér kræla í næstum tvo áratugi, fór aftur á kreik. Inn á milli átti frændi þó góða spretti og sýndi sínar bestu hliðar. Hann átti eftir að verða helsti hvatamaður þess að ég tæki að mér að flytja og gera upp Gamla bæinn, ættaróðalið þar sem við höfðum hist fimmtíu árum áður. Frændi sýndi framkvæmdunum mikinn áhuga og kom ósjaldan með dýrmæt ráð, enda verklaginn og með úrræðabestu mönnum sem ég hef kynnst um ævina. Því til sönnunar er myndarlegt býlið í Hvestu en sérstaklega þó Hvestuveita sem hann kom sjálfur á laggirnar og framleiðir nú dýrmætt rafmagn fyrir nágrannabyggðir. Frændi gat verið hreinskiptinn í samskiptum og ef honum mislíkaði eitthvað lét hann mann óspart heyra það. Krítíkin risti þó aldrei djúpt og ávallt var stutt í grínið, enda með orðheppnari mönnum. Fyndin tilsvör hans munu örugglega halda minningu hans á lofti um ókomna tíð líkt og vinátta hans sem ég var svo heppinn að fá að njóta.

Tómas Guðbjartsson