(Guðjón) Sigurgeir Ingimarsson fæddist í Arnardal á Akranesi 5. maí 1929. Hann lést á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 16. apríl 2021. Foreldrar hans voru Ingimar Kristján Magnússon trésmíðameistari, f. 20. september 1891, d. 8. ágúst 1978, og Bóthildur Jónsdóttir húsfreyja, f. 24. ágúst 1892, d. 30. nóvember 1979.

Systkini Sigurgeirs voru: Steinunn, f. 19. maí 1917, d. 26. september 1962, Lilja, f. 10. maí 1919, d. 20. október 2007, Magnús, f. 19. júlí 1920, d. 8. janúar 1985, Bergdís, f. 18. janúar 1922, d. 6. ágúst 1997, Guðjón Sigurgeir, f. 1923, d. 1926, og Steinþór Bjarni, f. 27. október 1925, d. 18. apríl 2015.

Hinn 20. febrúar 1952 giftist Sigurgeir Dóru Ernu Ásbjörnsdóttur, f. 30. apríl 1933, d. 6. október 2014, læknaritara úr Borganesi. Synir þeirra eru: 1) Ásbjörn f. 1952, eiginkona hans er Kristín Siemsen, f. 1953. Börn þeirra eru a) Gústav Magnús, f. 1978, eiginkona hans er Guðný H. Indriðadóttir, f. 1979, og eiga þau synina Ásbjörn Óla, f. 2005, og Indriða Dag f. 2009, b) Dóra Erna, f. 1982, sonur hennar er Aron Ernir, f. 2011, og c) Birna Kristín, f. 1993. 2) Óðinn, f. 1958, d. 2014, sambýliskona hans var Bente Ingela Asengen, f. 1965, sonur þeirra er Geir Ísak, f. 2001. Börn Óðins og fyrrverandi eiginkonu hans, Guðrúnar Halldórsdóttur, f. 1958, eru dæturnar a) Erna, f. 1976, eiginmaður hennar er Helgi Kjartansson, f. 1970, og eiga þau börnin Kjartan, f. 1996, Halldór Fjalar, f. 2000, og Þóreyju Þulu, f. 2004. b) Ása, f. 1981. Börn Ásu eru Emma, f. 2002, Ari Ævar, f. 2008, Erna Óðný og Guðrún Árný, f. 2014.

Sigurgeir vann við trésmíðar og húsasmíði í eigin fyrirtæki mestalla sína starfsævi en síðar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, seinna Biskupsstofu, sem umsjónarmaður prestsbústaða.

Útför Sigurgeirs fer fram frá Akraneskirkju í dag, 27. apríl 2021, og hefst athöfnin kl. 13.

Streymt verður frá útför:

https://www.akraneskirkja.is

Streymishlekk má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Sigurgeir Ingimarsson, eða Geiri „tengdaafi“ minn, lést hinn 16. apríl sl. og vil ég fá að minnast hans með nokkrum línum. Geiri var smiður og reynslubolti í öllu sem að því laut, enda var öll hans starfsævi helguð byggingum á einn eða annan hátt. Ýmis fleyg orðatiltæki viðhafði hann við úrlausn verkefna, og hafa þau fest í orðaforða fjölskyldunnar, eins og „er þetta hægt Matthías“ og „þetta er alveg raritet“ og svo mætti áfram telja. Vorum við svo heppin að fá að njóta aðstoðar hans við ýmis viðfangsefni á því sviði í gegnum tíðina, sem hefur verið okkur ómetanlegt á allan hátt. Honum þótti því verst að geta ekki hjálpað við nýjasta viðfangsefnið okkar, sem hann kom að taka út nokkrum dögum áður en kallið kom, því hugurinn var óbilaður þótt líkamlegir kraftar væru á þrotum. Geiri hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og spunnust oft eftirminnilegar umræður af því tilefni. Hann var með allt í röð og reglu og bílarnir ávallt vel þrifnir svo sumum þótti nóg um. Hann var nýtinn á efni og afganga sem sjá mátti hér og hvar í hans fórum, verkfærin á sínum stað. Hann var áhugasamur um allar tæknilegar framfarir og þróaði sjálfur ýmsar lausnir til að létta sér og sínum handtökin. Geiri mátti sjá á eftir Óðni syni sínum og Dóru konu sinni með stuttu millibili fyrir nokkrum árum, sem trúlega hefur haft meiri áhrif á hann en hann lét uppi. Flutti hann þá í kjölfarið úr Borgartanganum í Mosfellsbæ, sem hafði verið heimili þeirra hjóna í nokkra áratugi. Fyrst flutti hann til okkar á Flúðir og síðar á Akranes í sinn gamla heimabæ. Síðastliðið haust fór heilsu hans að hraka og fékk hann inni á dvalarheimilinu Höfða um áramótin. Í dag kveðjum við Geira í hinsta sinn og það er með þakklæti fyrir allt og allt sem ég minnist hans, megi hann hvíla í friði.

Helgi Kjartansson.

Mild var þín hönd

mig leiddi við hlið þér

og lyftir í fang þér

örlítið óþekktarstýri.

Hlý var þín hönd

ávallt velkomna bauð

skjól mót vindinum bauð

þótt blési úr öllum áttum.

Styrk var þín hönd

leiðbeindi og kenndi mér

ráðlagði, beindi mér

þið amma klettar í lífi.

Hög var þín hönd

verkfæri fimlega

í viðinn svo faglega

fannst að þú kynnir allt.

Þreytt var þín hönd

fyrsta áfangann leiddi þig

þegar ferðbúinn gerðir þig

gengum áleiðis til eilífðarinnar.

Köld var sú hönd

sem tók ég í mína

ég yljaði þína

er þig kvaddi í síðasta sinn.

Hugur mun ávallt geyma

Hlýtt afa fang:

„Elskan mín stutta með átján putta“

sagðir með glettni í augum.

Þín

Ása.