Suðurnesjalína Loftlínan á að liggja samsíða núverandi línu.
Suðurnesjalína Loftlínan á að liggja samsíða núverandi línu. — Tölvuteikning/Landsnet
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Landsnet hefur ákveðið að kæra höfnun Sveitarfélagsins Voga á umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Landsnet hefur ákveðið að kæra höfnun Sveitarfélagsins Voga á umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Byggir fyrirtækið kæru sína á því að öll skilyrði laga fyrir veitingu framkvæmdaleyfis hafi verið uppfyllt og því sé höfnun Voga ólögmæt, auk þess sem hún veki upp mörg álitamál sem nauðsynlegt sé að fá skorið úr um.

Landsnet hefur lengi undirbúið styrkingu flutningslína milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Niðurstaðan eftir endurtekið umhverfismat og valkostagreiningu var að leggja loftlínu sem liggja á að mestu meðfram núverandi Suðurnesjalínu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar, Grindavíkur og Reykjanesbæjar höfðu samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línunnar áður en Sveitarstjórn Voga hafnaði því. Vogamenn telja að of mikil umhverfisáhrif fylgi framkvæmdinni til þess að hún sé réttlætanleg og vilja að lagður verði jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Flestir landeigendur höfðu samþykkt lagningu loftlínunnar.

„Fagleg niðurstaða“

„Við erum búnir að fara í endurtekið ítarlegt umhverfismat og mat á öllum valkostum. Þetta er fagleg niðurstaða,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, þegar hann er spurður hvers vegna fyrirtækið leggi áherslu á loftlínukostinn. Hann bætir því við að þegar jarðhræringar hófust á Reykjanesi hafi einnig verið farið að huga sérstaklega að öryggisþættinum. Það mat hafi styrkt fyrri niðurstöður. Landnet nefnir í tilkynningu að loftlínur þoli betur jarðskjálfta en jarðstrengir auk þess sem möguleikar séu á að verja möstur háspennulínu í lofti fyrir hraunrennsli með varnargörðum.

„Við störfum eftir lögum og reglum sem gilda um okkar starfsemi. Loftlínukosturinn uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til framkvæmda okkar á meðan jarðstrengskosturinn gerir það ekki,“ segir Guðmundur Ingi þegar hann er spurður að því hvort tillögur Vogamanna um jarðstreng komi alls ekki til greina. Segir hann að lagning jarðstrengs sé umtalsvert dýrari en loftlínu og samkvæmt stefnu stjórnvalda hafi Landsnet ekki heimildir til að leggja í verulegan umframkostnað við jarðstreng, nema að gefnum tilteknum forsendum sem ekki séu fyrir hendi á Suðurnesjum. Leggur Guðmundur Ingi áherslu á að valkostir við Suðurnesjalínu 2 hafi verið metnir á sama hátt og línur um allt land.