Bóluefni ESB sakar AstraZeneca um að hafa brotið samninga sína.
Bóluefni ESB sakar AstraZeneca um að hafa brotið samninga sína. — AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í gær að hún hefði höfðað mál á hendur lyfjafyrirtækinu AstraZeneca vegna meintra samningsbrota þess um dreifingu á bóluefni gegn kórónuveirunni til sambandsins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í gær að hún hefði höfðað mál á hendur lyfjafyrirtækinu AstraZeneca vegna meintra samningsbrota þess um dreifingu á bóluefni gegn kórónuveirunni til sambandsins.

Stefan De Keersmaecker, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, sagði að öll aðildarríkin 27 styddu við málshöfðunina, en framkvæmdastjórnin segir að fyrirtækið hafi hvorki staðið við gerða samninga né komið fram með trúverðuga áætlun um hvernig það hyggist tryggja að skammtar séu sendir tímanlega til sambandsins.

Forsvarsmenn AstraZeneca vísuðu öllum ásökunum á bug og sögðu í sérstakri yfirlýsingu að málarekstur Evrópusambandsins væri tilhæfulaus, og að fyrirtækið vildi leysa þessa deilu sem fyrst.

Sögðu þeir jafnframt að AstraZeneca hefði staðið við allar skuldbindingar sínar samkvæmt forkaupssamningi fyrirtækisins við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og að fyrirtækið myndi verja hendur sínar fyrir dómstólum.

Fyrirtækið og Evrópusambandið hafa átt í deilum vegna dreifingar á bóluefni eftir að framleiðslutafir urðu til þess að draga úr getu AstraZeneca til þess að senda bóluefni til sambandsins, og fékk sambandið bara um 31 milljón skammta af bóluefni í stað þeirra 200 milljóna sem fyrstu afhendingaráætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Fyrirtækið segir að samkvæmt samningi sínum hafi það einungis átt að uppfylla magn í samræmi við bestu mögulegu getu þess til að framleiða efnið, en framkvæmdastjórnin segir aðra þætti samningsins kveða á um ríkari skyldur fyrirtækisins sem ekki hafi verið staðið við. Málið verður rekið fyrir belgískum dómstólum.