Steinunn Guðný Pétursdóttir fæddist í Brekkukoti í Svarfaðardal 31. desember 1923. Hún lést á Öldrunarheimilinu Hlíð 22. apríl 2021. Foreldrar hennar voru Sigurjóna Steinunn Jóhannsdóttir, f. 3.10. 1886, d. 3.11. 1934 og Pétur Gunnlaugsson, f. 27.10. 1878, d. 10.12. 1926.

Þann 7. nóvember 1942 giftist Steinunn eiginmanni sínum Jóhannesi Haraldssyni, f. 13.8. 1916, d. 17.6. 2002.

Börn þeirra eru: 1) Kristinn, f. 18.4. 1943, maki Tuula Johannesson, börn Jóhannes Geir, f. 9.6. 1979, maki Leila Foroughi, börn William Alexander, f. 2014 og Peter, f. 2017. Kristján Örn, f. 23.10. 1981, barn Jóhannes Vilhjálmur, f. 2009.

2) Pétur, f. 28.4. 1947, maki Berit Johannesson, börn David, f. 22.3. 1971, maki Jessica Johannesson, börn Lukas, f. 1998, Gustav, f. 2001 og Maja, f. 2004. Anna, f. 23.7.1973, maki Björn Johansson, börn Tove, f. 2004 og Moa, f. 2006.

3) Sigurjóna S., f. 1.11. 1951.

4) Anna, f. 10.4. 1959, maki Ágúst Hafsteinsson, börn Steinunn Guðný, f. 21.1. 1988, maki Helgi Helgason, börn Hjaltey Lóa, f. 2017 og dóttir óskírð, f. 2021. Jóhanna Hildur, f. 21.8. 1991, maki Sveinn Hólmkelsson, barn Elísabet Anna, f. 2019. Hafsteinn Gauti, f. 9.8. 1995, sambýliskona Katrín Birna Vignisdóttir.

Steinunn missti foreldra sína ung og fór þá í fóstur til móðursystur sinnar Önnu Jóhannsdóttur og manns hennar, Daníels Júlíussonar, að Syðra- Garðshorni. Steinunn var við nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi á árunum 1941-1942. Steinunn og Jóhannes hófu búskap í Ytra-Garðshorni, en fluttu fljótlega í Laugahlíð þar sem þau bjuggu um alllangt skeið. Árið 1958 fluttu þau til Dalvíkur þar sem þau reistu sér heimili við Smáraveg 12. Steinunn var lengst af húsmóðir, en vann einnig utan heimilis ýmis störf, s.s. við Söltunarfélag Dalvíkur.

Árið 2000 fluttu Steinunn og Jóhannes til Akureyrar og var Steinunn þar virk í ýmsu félagsstarfi eldri borgara. Hún hafði alla tíð gaman af söng og söng lengst af í kirkjukórum bæði í Svarfaðardal og á Dalvík. Hún söng einnig lengi með kórnum Í fínu formi á Akureyri.

Útför Steinunnar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 7. maí 2021, og hefst athöfnin kl. 13. Streymi frá útför:

https://fb.me/e/1yLcIgAKK

Streymishlekk má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Sumardagurinn fyrsti, sólin skín og úti er fallegt aprílveður og vor í lofti. Dagurinn sem mamma kvaddi okkur er lýsandi fyrir hana. Mamma elskaði náttúruna, sólina og blómin, hún notaði hverja stund sem gafst til gönguferða og útiveru.

Þessa síðustu daga höfum við fjölskyldan skoðað margar gamlar myndir og farið í gegnum minningabankann og rifjað upp dásamlegar samverustundir sem við höfum átt.

Þrautseigju þína mamma og jákvæðni alla tíð mun ég reyna að taka með mér og tileinka mér.

Dugnaður þinn þegar pabbi féll frá, þú varðst ein þá nýflutt til Akureyrar, lærðir á strætisvagnakerfið til að komast leiðar þinnar og fórst að taka þátt í alls konar félagsstarfsemi fyrir eldri borgara. Stundaðir línudans og varst með í alls konar handavinnuklúbbum, hreyfingu og síðast en ekki síst kórnum Í fínu formi, sem þú gekkst til liðs við og veitti þér ómælda ánægju og gleði enda hefur söngur alla tíð verið stór þáttur í þínu lífi. Með kórnum fórstu margar ferðir og öðlaðist góðar minningar. Á þessum árum eignaðistu marga góða og trausta vini.

Nú þegar komið er að kveðjustund er efst í huga mér þakklæti fyrir allar góðar stundir, hjálpsemi þína og að vera alltaf til staðar fyrir okkur fjölskylduna.

Takk mamma fyrir allt. Ég læt hér í lokin fylgja með vísu eftir pabba sem hann skrifaði þér á afmæliskort árið 1985.

Hver dagur reynist ganga greið

um gæfuvegi bjarta

og samfylgdina langa leið

ég lofa og þakka af hjarta.

(Jóh. Har.)

Þín dóttir,

Anna.

Steinunn tengdamóðir mín var ákaflega hlý og glaðlynd kona sem einkar þægilegt var að umgangast.

Hún var hreinskiptin í skoðunum á mönnum og málefnum og fékk ég nokkrum sinnum að kynnast því. Álit hennar á mér var þó ávallt rétt, þótt maður hefði búist við að heyra sannleikann færðan í einhvern þægilegan búning, en ekki hjá henni Steinunni.

Þau Steinunn og Jóhannes tóku mér bæði opnum örmum þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir rétt tæpum fjörutíu árum og hafa reynst mér og mínum ákaflega vel og hefur þar aldrei fallið skuggi á.

Hafðu þakkir fyrir allt og allt.

Ágúst tengdasonur.

Ótrúleg, er orðið sem flestir sem þekktu ömmu okkar myndu nota til að lýsa henni.

Síðastliðna mánuði og ár höfum við systkinin oft hugsað, amma þú ert ótrúleg. Enda komast fáir með tærnar þar sem amma hafði hælana. Amma bjó yfir endalausu magni af þrautseigju, dugnaði, hlýju, kærleika og hnyttni. Amma hætti aldrei að koma okkur á óvart, hún kom oft með skemmtileg tilsvör og var sjálfri sér trú. Þetta eru eiginleikar sem flestir myndu telja sig lánsama að hafa þó ekki nema að örlitlum hluta. Það er hverju orði sannara að amma okkar var einstök.

Amma var alveg einstaklega tignarleg, en um leið hógvær kona sem átti ótal vini, kunningja og velunnara hvert sem hún fór. Fólk sótti mikið í félagsskap hennar og vorum við systkinin þar engin undantekning. Það var ósjaldan að við vorum stoppuð af hinum og þessum þegar við vorum einhvers staðar með ömmu. Hlýja ömmu, nærvera og gestrisni laðaði iðulega að sér hið ótrúlegasta fólk. Gott dæmi um þetta var þegar ákveðið var að halda upp á níræðisafmæli ömmu. Sjálf var amma svo hógvær að henni datt ekki í hug að nokkur manneskja myndi gera sér ferð á gamlársdag í afmæliskaffi til hennar. En það fór hins vegar svo að hún fyllti heilan veitingastað með gestum og höfðu margir gestanna lagt á sig langt ferðalag á milli landshluta og jafnvel milli á landa til að fagna með afmælisbarninu.

Þær voru margar bæjarferðirnar sem við fórum með ömmu og voru þá snæddar ófáar tertusneiðarnar sem voru auðvitað allar allt of stórar að mati ömmu. Þaðan er komið hugtakið ömmusneið, enda var amma ávallt á þeirri skoðun að flestir skammtar væru allt of stórir. Þegar við buðum ömmu í þessar bæjarferðir þurfti hún iðulega að skipta yfir í betri buxur og laga sig til því í bæinn fer maður ekki ótilhafður. Það eru margar lífslexíurnar og orðatiltækin frá ömmu sem lifa áfram með okkur systkinunum.

Við þekkjum ekki margar ömmur sem hafa sýnt og kennt línudans á ættarmóti þá komin vel á níræðisaldur og á tíræðisaldri flutti amma munnhörpukonsert fyrir afkomendur sína við mikinn fögnuð viðstaddra.

Hjá ömmu og afa vorum við ávallt velkomin enda var amma mikil fjölskyldukona og hún hugsaði vel um sitt fólk. Þó svo að við söknum þín amma, þá erum við um leið glöð að þú og afi séuð saman á ný og við biðjum þig að skila til hans kærri kveðju frá okkur systkinunum.

Þegar við vorum yngri heimsóttum við ömmu og afa heim í Smáraveginn og voru alltaf bestu kræsingarnar lagðar á borð fyrir okkur. Má þar nefna SP-skrúfur (sem við trúum enn þann dag í dag að heiti í höfuðið á ömmu), ristað brauð með smjöri, berjasultu og osti (heilög röð), kleinur, harðfiskur, sólskinskaka að ógleymdum pönnukökunum. Í seinni tíð var það súkkulaðiskál sem aldrei var langt undan.

Takk fyrir allar verðmætu lífslexíurnar sem þú kenndir okkur og að vera alltaf til staðar fyrir okkur. Við munum hugsa til þín sem þeirrar fyrirmyndar sem þú varst okkur og munum við hafa lífsgildi þín að leiðarljósi í okkar lífi.

Þín,

Steinunn, Hildur og

Hafsteinn.