Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Líklegt er að fyrstu íslensku uppsjávarskipin byrji að svipast um eftir makríl fyrir Suðurlandi í næstu viku. Fleiri bætist síðan við á makrílveiðum eftir sjómannadag og fram eftir júnímánuði. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um makrílkvóta ársins liggur ekki fyrir, en gert er ráð fyrir að reglugerð um makrílveiðar í ár verði gefin út fyrir lok þessa mánaðar, samkvæmt upplýsingum úr sjávarútvegsráðuneytinu.
Auk Íslands eiga Færeyingar eftir að tilkynna Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu, NEAFC, um sínar fyrirætlanir og Norðmenn hafa tilkynnt um upphafskvóta upp á 104.998 tonn. Aðrar tilkynningar til NEAFC eru frá Bretum um 222.288 tonn, frá Evrópusambandinu um 200.179 tonn, frá Rússlandi um 120.423 tonn og frá Grænlandi upp á 60.000 tonn, samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu.
Veiðar umfram ráðgjöf
Þegar hefur því verið tilkynnt um að fyrrnefnd strandríki hyggist veiða samtals um 708 þúsund tonn. Tvö strandríki hafa ekki gefið upp sína viðmiðun, en í fyrra veiddu íslensk skip um 150 þúsund tonn af makríl. Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, lagði til í lok síðasta árs að aflinn 2021 færi ekki yfir 852 þúsund tonn og var um 8% samdrátt í ráðgjöf að ræða frá árinu á undan. Ráðgjöf fyrir síðasta ár, 2020, var 922 þúsund tonn, en afli ársins varð hins vegar um 1,1 milljón tonn, eða um 18% umfram ráðgjöf.Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflahlutdeildar og hver þjóð setur sér aflamark, sem hefur haft þær afleiðingar að veiðar hafa verið umfram ráðgjöf ICES. Þjóðirnar eru sammála um að fylgja ráðgjöf ársins um 852 þúsund tonn, en eins og áður er langt í frá að menn séu sammála um skiptinguna.
Árin 2014-2020 var í gildi samkomulag Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins um makrílveiðar, en það rann út í fyrra. Þá hefur sú stóra breyting orðið frá síðasta ári að eftir Brexit eru Bretar sjálfstætt strandríki og hafa tilkynnt um aflamark fyrir sín skip. Bretar hafa ekki samið um aðgang t.d. Norðmanna og Færeyinga til makrílveiða í breskri lögsögu í ár.
Gætu aukið sinn hlut
Eins og áður sagði hafa Norðmenn tilkynnt um upphafskvóta, en reiknað er með að þeir muni bæta í á næstunni. Samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi ESB, Færeyja og Noregs fengu Norðmenn 22,5% af ráðgjöfinni eða 192 þúsund tonn í fyrra. Í Fiskaren í Noregi mátti í vikunni lesa vangaveltur um að þar sem Norðmenn væru nú óbundnir af þessum samningi gætu þeir veitt mun meira við Noreg, Jan Mayen og á fiskverndarsvæðinu við Svalbarða á grundvelli þess hve mikið og hve lengi makríll er á þessum slóðum.Ann Kristin Westberg, aðalsamningamaður Norðmanna í makrílviðræðum síðustu ára, kynnti í vikunni tvær sviðsmyndir um hlutdeild Norðmanna. Voru þær um 30% eða 35% af heildarráðgjöfinni og færi aflinn upp í tæplega 300 þúsund tonn ef miðað væri við hærri hlutdeildina. Í frétt Fiskaren er einnig velt upp spurningu um hvort norski flotinn myndi ráða við að veiða svo mikið. Einnig um gæði hráefnis og verð fyrir afurðir.