— Morgunblaðið/Eggert
Mörgum var létt þegar vopnahlé var tilkynnt á blettinum litla fyrir botni Miðjarðarhafs sem skók heimsbyggðina í tvær vikur eða svo.

Mörgum var létt þegar vopnahlé var tilkynnt á blettinum litla fyrir botni Miðjarðarhafs sem skók heimsbyggðina í tvær vikur eða svo.

Mátti ekki byrja á vopnahléi?

Vopnahlé hefur þann kost að áhugamenn nær og fjær standa allir með því. Ekki verður séð hvað Hamas-hreyfingin, sem víða er flokkuð sem hryðjuverkastarfsemi, hefur haft upp úr krafsi sínu að þessu sinni. Aðeins ein skynsamleg skýring hefur fengist á því að Hamas tók að senda úr sínu mikla þéttbýli eldsprengjuflaugar í þúsundatali. Hún er sú að þær sendingar væru hluti af margboðuðum hefndaraðgerðum klekastjórnarinnar í Tehran. Andlegur leiðtogi hennar, Ali Khamanei erkiklerkur, tilkynnti þær þegar helsti sérfræðingur hans í framleiðslu kjarnorkuvopna var veginn í fyrirsát og eins þegar öflug netárás hafði verið gerð á stjórnstöðvar slíkra verkefna. Mossad var kennt um verkið og hefur því hvorki verið játað né neitað. Aðgerðirnar eru taldar geta seinkað laumuspili Íransstjórnar við að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Eftir að valdataka Joes Bidens varð ljós voru þetta bersýnilega talin óhjákvæmileg viðbrögð. Framangreind áföll bættust við hið stærsta þeirra þegar Trump forseti heimilaði að hershöfðinginn Quasem Soleimani yrði felldur þegar óvænt færi gafst á honum í bílalest nærri Bagdad-flugvelli í Írak. Hershöfðinginn var þjóðhetja í Íran og stóð mjög nærri æðsta klerkinum og helstu leyniþjónustur vestrænna ríkja töldu sig vita að hann hefði skipulagt eða átt síðasta orðið um margvísleg hermdar- og hryðjuverk sem gerð voru af leppum Íransstjórnar eða útsendurum hennar.

Biden veldur engum ótta

Vafalítið er talið að Íransstjórn taldi víst að ísraelska leyniþjónustan Mossad hefði verið á bak við tvö og jafnvel öll þrjú fyrrnefnd áföll þeirra.

Leiðtogi Írans hefur hvað eftir annað og ítrekað hótað því að þessara atburða yrði „grimmilega hefnt“. Það liggur í augum uppi að ákvörðun um stórfelldar eldsprengjuárásir á Ísrael er ekki tekin á Gaza heldur í Tehran.

Reyndar var beðið með að hefja þær þar til Biden Bandaríkjaforseti hefði látið fella niður bann Trumps við fjárstuðningi við Palestínumenn og Hamas-sveitirnar á Gaza, nema látið yrði af hryðjuverkastarfsemi þeirra.

Þvert á allar spár einkenndi tiltölulega lág spenna samskipti Ísraels og Palestínumanna á valdatíma Trumps. Spár „sérfræðinga og fræðimanna“ um að ákvörðun forsetans um að flytja sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem myndi setja allt í uppnám á svæðinu gengu ekki eftir. Þvert á móti náðust í framhaldinu allvíðtækar sáttargjörðir á milli Ísraelsstjórnar og allmargra ríkja Araba. En þegar milljónatugirnir, í dollurum talið, frá Biden voru komnir í fjárhirslur Abbasar forseta og að nokkru, því miður, einnig til vígamanna Hamas, þótti yfirboðurum þeirra í Tehran óþarft að bíða lengur. Upp væri runnin ögurstundin.

Gazalegir málaliðar

En þótt skilja megi létti þeirra sem bera mestan þunga af þessum árásum og átökum eftir vopnahléið þá er ekkert sem bendir til þess að aðilarnir séu nokkru nær varðandi framtíðarskipan sinna mála. Ekkert bendir til að viðurkenndir opinberir talsmenn Palestínumanna hafi komið nálægt upphafi þessara árása frá Gaza eða vopnahléinu núna, sem bjartsýnustu menn vonast auðvitað til að muni halda í einhver misseri eða ár.

Reyndar hafði Abbas, leiðtogi Palestínumanna á Vesturbakkanum, og sá sem helst nýtur viðurkenningar sem slíkur, viðrað hugmyndir sínar um að standa fyrir kosningum á Vesturbakkanum og eftir atvikum á Gaza á ný eftir 15 ára langt hlé. Sagðist hann stefna á slíkt á vor- eða sumarmánuðum þessa árs.

Hann féll þó frá meintum fyrirætlunum og kenndi þá Ísrael um að honum væri ekki auðið að framkvæma þær.

En þótt slíkar ásakanir séu hefðbundnar og ætíð innan seilingar er staðreyndin sú að Hamas-liðar gera núorðið lítið sem ekkert með það sem hinn 85 ára gamli forseti Palestínu hefur fram að færa.

Þeirra hernaðarlegu fyrirmæli koma ekki frá Ramallah heldur frá Íran, sem og fjárstuðningur og vopnabúnaður í stórum stíl.

Samningamenn al Sisi, forseta Egyptalands, lögðu nótt við dag til að knýja á um vopnahlé, enda er hann í hópi fárra sem báðir aðilar treysta sæmilega og gekk milliganga hans loks eftir. Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, reyndi iðulega á sinni tíð að ganga á milli stríðandi fylkinga, sem var þó mikið hættuspil. Það sannaðist á fyrirrennara hans, Anwar Sadat, sem var óvenjulega hugrakkur stjórnmálamaður og galt loks fyrir það með lífi sínu.

Barack Obama hallaði sér hins vegar óvænt að Múhammed Morsi og Bræðralagi múslíma og skildi Mubarak eftir í uppnámi, sem var með ólíkindum óskynsamleg merkjasending Bandaríkjaforseta til umheimsins þá.

Skítugar vorhreingerningar

Í kjölfar alls þessa komu svo vorhreingerningar forsetans með nokkrum (litlum) leiðtogum Evrópu sem þjóðirnar, sem fengu hreingerningu, eru enn að súpa seyðið af. Tugir milljóna létu lífið og Evrópa situr enn uppi með flóttamannabylgjur sem skullu á álfunni í kjölfarið. Táknrænt fyrir þær ógöngur er að Evrópusambandið er enn að greiða yfirgengilegar fúlgur árlega til Tyrklands Erdogans fyrir að halda milljónum manna innan gaddavírsgirðinga hjá sér og glittir þar hvergi í lausn eða í framtíð fyrir blessað fólkið sem blekkt var til farar.

Að auki hefur þetta heimaskítsmát ESB þýtt að forsetinn hefur heljartök á búrókrötunum þar og kanslara Þýskalands og forseta Frakklands. Hvenær sem fundið er hið minnsta að Erdogan hótar hann að lyfta upp gaddavírsgirðingunum sem halda „skjólstæðingum“ ESB innilokuðum, svo þeir fá sig hvergi hreyft. Og fer þá allur vindur úr móðguðum erindrekum. Það var helst í stóra stólamálinu sem von der Leyen var um það bil að fara að ybba gogg, en mundi þá eftir gaddavírsgirðingunum og kyngdi.

Verðbólgin veirulok?

Nú er tekið að losna um heiminn í veirufári.

Og þá er spurningin sú hvort hann sé viðbúinn því. Flest bendir því miður til að þeir sem „stjórna“ efnahagsþróuninni austan hafs og vestan verði langt á eftir henni, eins og er hið þekkta afbrigði í hnattrænum efnahagsmálum.

Óttinn snýr í augnablikinu helst að verðbólgunni, sem er búin að reima á sig skóna og komin í startholurnar. Ýmsir telja reyndar að hún sé þegar hlaupin. Því öfugt við hlaupara á stórmótum þá þarf hún ekki skot úr rásbyssu. Verðbólgan fer af stað þegar hennar tími er kominn. Og minnir í því efni mest á veiruna sjálfa.

Þeir sem „stjórna efnahagsþróuninni“ eru í hlutverki slökkviliðs. Ekkert slíkt kemur á staðinn áður en eldurinn kviknar. Slökkviliðið hraðar sér á staðinn með blikkandi ljósum. En áður en það gerist þarf eldurinn að gera vart við sig og einhver að flytja slökkviliðinu tíðindin. Og þá veltur mest á hve lengi eldurinn fékk að grassera eins og honum hentaði og hversu fljótt komst liðið svo á vettvang og hversu var það búið til að eiga við eld eins og þennan. Það gildir um brunastað eins og öflugt mötuneyti að enginn eldsmatur er eins. Eru súrefniskútar á víð og dreif eða gasbrúsar huldir sjónum og eldsskilrúm lítil eða ekki þar sem þau eru sýnd á teikningum? Og umhverfið skiptir máli. Blæs vindur? Hversu mikill og úr hvaða átt? Í gamalli frétt í Morgunblaðinu sagði efnislega svo: „Slökkvilið var kallað á brunastað. Slökkvistarfið gekk vel, að sögn varðstjóra. Eftir tveggja tíma slökkvistarf var allt brunnið sem brunnið gat.“ Brunaliðsmenn í Vesturheimi vita að vextir hafa verið í botni lengi og ríkissjóðir víða galopnir ráðamönnum því að veiran vonda afsakar öll viðbrögð, góð sem vond. Það lá ekki einu sinni í lofti krafa um að bregðast rétt við. Enda er það svo, að þegar brugðist er við hinu óþekkta eru getgátur um viðbrögð viðurkennd aðferð. Í krafti þessa hefur fjármunum verið mokað út og lítt hugað að skuldadögum eða því hversu vel hafi verið með það fé farið. Og það er harla stutt í réttlætingu á þeirri aðferð.

Gamlar myndir hengdar upp

Í Evrópu horfa menn nú úr norðri til suðurhlutans þar sem gamalkunnir taktar í stjórnlitlum bankaheimi minna nú óþægilega á Evrópukreppuna sem var í algleymingi fáum árum eftir „bankakreppuna“.

Í Bandaríkjunum hafa ósýnilegu mennirnir sem stjórna Joe gamla Biden farið enn lengra aftur og reynt að apa eftir New Deal Roosevelts eins og heilögum flokkslegum draumi.

Dælt hefur verið ævintýralegum fjármunum úr ríkissjóði, rétt eins og að Bandaríkin séu nýkomin úr heimskreppunni 1930! Fyrir þessum gjörningum eru þó mjög fá og brotgjörn rök. Bandaríski seðlabankinn horfir hræddur og hnugginn á en hefur ekki kjark til að gera athugasemdir.

Það má ekki gleyma því í rómantískum demókratískum draumum að þótt New Deal og „hundrað daga áætlunin“ virtist gefa jákvætt stuð þá stóð það stutt og misheppnaðist algjörlega sem aðgerð til lengri tíma.

Þegar Roosevelt hafði verið forseti í 8 ár til viðbótar við þá frægu hundrað daga, þá var atvinnuleysið í landinu enn um 20%!

Það þurfti heila heimsstyrjöld og gangsetningu mestu stríðsvélar sögunnar til að breyta því ástandi.

Vitleysingurinn Hitler sagði Bandaríkjunum stríð á hendur eftir Pearl Harbor og tilkynnti þá einnig, með ósýnilegu bleki, sem hann gat ekki lesið sjálfur, að hann hefði þar með ákveðið að Þýskaland nasismans myndi tapa styrjöldinni á fáeinum árum. Það má halda því fram að þetta hafi verið það skásta sem Hitler gerði heiminum.

Miklar áhyggjur

Helstu spekingar Þýskalands telja nú og skrifa um það bréf til stjórnvalda að þýskir leiðtogar séu enn að fást við að smyrja vél landsins til að undirbúa að snúa henni í gang með handafli. Vandinn er að sú mikla vél hefur að þeirra mati fyrir löngu startað sér sjálf og tekið snúning sem gæti fljótlega orðið illviðráðanlegur. Vélin mun taka öfugum vöxtum, endalausri áframhaldandi peningaprentun og galopnum ríkisreikningum með eins opnum örmum og gapandi gleði og brennumenn á gamlárskvöld sem hlaðið hefðu í risaköst upp við olíutankana í Örfirisey.

Lögmálið gamla sagði að lygin úr Reykjavík væri komin norður á land á meðan sannleikurinn, sem paufaðist á eftir henni, væri enn í Ártúnsbrekkunni í sínum erindum. Áðan var nefnt lögmálið um slökkviliðið sem hittir ekki sinn eld fyrr en hann er orðinn illviðráðanlegur. Vörslumenn ríkissjóða landanna og seðlabankar eru enn að dæla út hjálparfé sem skattgreiðendur skulu svo borga þegar betur viðrar og láta enn banka lána fé á vöxtum sem eru ekki í takti lagsins sem hljómsveitin er fyrir löngu byrjuð að spila. Bankastjórarnir dansa enn við sönginn „Nú legg ég augun aftur...“ og segja öfuga tombóluvexti enn huggunarríkasta hjálpartækið í stöðunni, en samt er drjúgur tími síðan orgelleikarinn og kórinn tóku að dilla sér og syngja „Nú liggur vel á mér,“ og „Troddu þér nú inn í tjaldið hjá mér...“

Bent er á að efnahagsreikningar banka í Suður-Evrópu eru þegar orðnir margfalt verri en þeir urðu í aðdraganda Evrópukreppunnar. Bankar í Norður-Evrópu mundu ekki þekkja þá í suðri í sjón. Þetta segja fyrrnefndir bréfritarar að sé ills viti.

En þeir eru til sem benda á að þegar of margir frægir menn úr heimi hagfræði og stjórnmála skrifi í senn undir stórbrotna spádóma þá sé fyrst óhætt að taka minna mark á því en flestu öðru sem birt er.

Má treysta því?

Það gæti verið.

En það er alls ekki víst.